13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (5840)

224. mál, virkjun Fljótaár

Eysteinn Jónsson:

Það voru nokkur orð, sem ég vildi láta falla um þetta mál, áður en það færi til athugunar í hv. fjvn.

Ég var undrandi mjög, þegar ég sá þetta þskj. hér í dag, og ég býst við, að svo hafi orðið um fleiri hv. þm., þegar þess er gætt, að þetta mál var hér til meðferðar fyrir örfáum mánuðum og þá farið fram á, að hv. Alþ. samþ. 2 millj. kr. viðbótarábyrgð við það, sem áður hafði verið gert. Síðan eru liðnir, eins og ég sagði áðan, örfáir mánuðir. Sú þáltill. var samþ. í marz, og virðist ekki vera hægt að gera sér í hugarlund, að á þeim tíma, sem liðinn er, hafi gerzt nokkrir þeir atburðir, sem réttlæti, að nú sé komið og sagt við Alþ., að 5 millj. kr. þurfi enn til viðbótar, svo að hægt sé að ljúka við þetta verk.

Meðferð þessa máls hefur frá öndverðu verið með þeim hætti, að ég ætla að leyfa mér að rifja upp nokkur atriði í því sambandi, áður en málið er tekið fyrir í fjvn. Það er gerð grein fyrir því í þskj. af hendi Steingr. Jónssonar rafmagnsstjóra, að kostnaðurinn við Skeiðfossvirkjunina sé nú miklu hærri en hann var áætlaður í öndverðu, og hann upplýsir það, að áætlunin um kostnaðinn og fjárhagsafkomu Skeiðfossvirkjunarinnar hafi verið gerð sumarið 1942, og síðan ber hann saman, hve kostnaðurinn í mörgum liðum hefur hækkað stórkostlega síðan 1942, og því ekki að undra, þótt heildarkostnaðurinn verði miklu hærri en ráð var fyrir gert.

Hv. frsm. minntist á, af hverju kostnaðurinn hefði hækkað svo mjög, og vildi kenna þar um nokkrum ófyrirséðum óhöppum, t. d. að klöpp hefði verið harðari en gert var ráð fyrir og önnur lausari en gert var ráð fyrir og jarðvegurinn erfiðari viðureignar en upphaflega var ráð fyrir gert. Enn fremur minntist hann á ýmsar tafir og sveigði jafnvel að fyrrv. ríkisstj. í því sambandi, að hún hefði tafið fyrir því, að efni til virkjunarinnar kæmist til landsins. Ef litið er á þessa áætlun af hendi Steingr. Jónssonar rafmagnsstjóra, sést, að þessi ástæða, sem hv. þm. ber fyrir, er ekki aðalástæðan til þess, að svo hefur farið með þessa virkjun sem raun ber vitni, heldur hitt, hve vinnulaunakostnaðurinn hefur hækkað stórkostlega á þessum tíma, að lítt eða óbreyttum aðstæðum, og þá kemur í ljós, sem er aðalatriði þessa máls og mjög alvarlegt atriði, að þessi ábyrgð fengin hjá Alþ. er upphaflega út á kostnaðaráætlun miðaða við kostnaðinn eins og hann var áætlaður 1942, sem sé 6 millj. kr., áætlun, sem allt málið hefur verið grundvallað á frá öndverðu. Steingr. Jónsson rafmagnsstjóri segist hafa reiknað með kaupgreiðslu kr. 2.33 á klst., en nú sé kaupið kr. 7.05 á klst. Það er eðlilegt, að kostnaðurinn fari fram úr áætlun, þegar vinnulaunin og annar kostnaður í landinu hækkar svona stórkostlega. En það, sem ég sérstaklega vildi benda hv. fjvn. á, er, að málið er þannig vaxið, að fram þarf að fara athugun eða rannsókn á því, áður en lengra er gengið. Fyrst er flutt hér á Alþ. 1943 þáltill. um, að Alþ. ábyrgðist 6 millj. kr. til þessarar virkjunar, og var þessi þáltill. samþ. í marz 1943, en þá er allur kostnaður hækkaður stórkostlega frá því, sem hann var 1942, og frá því, sem áætlunin var miðuð við. Með öðrum orðum, þeir, sem standa að þessu máli fyrir hönd Siglufjarðarkaupstaðar, vita það fullvel, þegar þeir fá Alþ, til þess að samþ. fyrir sig þessa 6 millj. kr. ábyrgðarheimild, að þessi upphæð hrekkur hvergi nærri til þess að koma virkjuninni í framkvæmd, jafnvel þó að kostnaðurinn hækkaði ekki neitt, frá því sem hann var, þegar áætlunin var gerð. En þessu er haldið leyndu, það er ekki minnzt á það einu einasta orði, hvorki minnzt á kostnaðaráætlunina né við hvaða tíma hún sé miðuð. Þessu er haldið leyndu fyrir öðrum en þeim, sem hafa tekið sig fram um að athuga alla málavexti. Grg. fyrir þessari þáltill. er einar sex línur, og þar stendur aðeins, að mönnum sé þetta mál svo kunnugt frá því umr. fóru fram um Fljótaárvirkjunina, að ekki sé ástæða til þess að rekja nánar eða gera grein fyrir, hvernig ástatt er um virkjunarfyrirætlanir eða kostnaðaráætlun. Þannig er upphaf þessa máls, og ég fullyrði, að þeir, sem stóðu að málinu þá, vissu, hvað þeir vildu, þeir voru að fá Alþ., eins og hv. þm. sagði áðan, til þess að segja a, til þess að það þyrfti síðar að segja b. Þeir höfðu hér aðferð, sem þekkist úr viðskiptalífinu, en ekki að góðu og ekki álitið til fyrirmyndar að viðhafa slíka aðferð, að læðast aftan að Alþ. á þennan hátt og fá 6 millj. kr.; vita strax í upphafi, að sú fjárhæð getur ekki hrokkið til þess að koma virkjuninni í framkvæmd, því að kostnaðurinn er þá þegar orðinn miklu hærri en áætlunin var byggð á. Þó er þetta aðeins lítil byrjun, það versta er eftir, að nú á þessu ári, í febrúar, er komið aftur til Alþ., og í stað þess að leggja fyrir Alþ. alveg heiðarlega og hreint, hvernig málið stóð og hvernig vænta mætti, að niðurstaðan yrði, þá er enn flutt þáltill., og grg. hljóðar þannig (með leyfi hæstv. forseta): „Þáltill. þessi er flutt samkv. beiðni bæjarstjórnar Siglufjarðar, vegna þess að virkjunin hefur í reyndinni orðið nokkuð kostnaðarsamari en við var búizt í fyrstu, og liggja til þess ýmsar orsakir. Nánar í framsögu.“ — Með öðrum orðum, þegar þessi þáltill. er flutt og farið er fram á 2 millj. kr. í viðbót, þá hlýtur forráðamönnum Siglufjarðarkaupstaðar að vera orðið ljóst, að virkjunin fer miklu meir en 2 millj. kr. fram úr áætlun. Þá eru flestar kauphækkanirnar komnar til framkvæmda, sem til greina hafa komið, og þeir teknisku örðugleikar, sem síðan hafa bætzt við, hafa ekki breytt miklu.

Þannig er á nýjan leik fengin ábyrgð ríkissjóðs vegna þessarar virkjunar, og er hún þá orðin samtals 8 millj. kr. En nú nokkrum mánuðum seinna er farið fram á 5 millj. kr. ábyrgð í viðbót við þessar 8 millj.; 1 millj. kr. vegna þess, að hafa á stöðina stærri en upphaflega var ráðgert, en 4 millj. kr. vegna þess, hve stöðin fer langt fram úr áætlun. Nú loks er þannig komið, að forráðamenn þessa verks geta ekki dulizt lengur og verða að koma út úr holunni og játa, að hækkunin, sem verkið fór fram úr áætlun, nemi 100%, og þeir verða að játa óbeint, að þeir hafi í raun og veru vitað þetta allan tímann, sem þeir hafi verið að fá ábyrgð hjá Alþ., en þess verið vandlega gætt að gera aldrei grein fyrir málunum í heild sinni. Nú sýnist mér það eftir því, sem hér kemur fram af hendi Steingr. Jónssonar rafmagnsstjóra, að það séu mjög lítil, ef þá nokkur, líkindi til þess, að þetta fyrirtæki geti fyrst um sinn risið undir greiðslum af þeim lánum, sem ríkissjóði er ætlað að ábyrgjast. Hér er beinlínis farið fram á, að ríkissjóður gangi í ábyrgð vitandi vits, að hann verði a. m. k. fyrst um sinn að sjá um vaxta- og afborganagreiðslur af láninu. Í grg. þáltill. eru bollaleggingar um það, að rafveitan kunni að bera sig með tímanum, því að síldarverksmiðjur ríkisins kaupi raforku í stórum stíl af rafveitunni, en nú nota þær dieselmótora, eins og hv. frsm. gat um, og áætlanir um tekjuauka við það, að menn fari að nota rafmagn til suðu, en það á að auka skyndilega, þannig að 80% af öllum eldhúsum noti rafmagn til suðu. En þó að gert sé ráð fyrir, að síldarverksmiðjur ríkisins kaupi rafmagn fyrir ¼ úr millj. á ári, þá eru samt ekki áætlaðar hærri tekjur en 850 þús. kr. á ári, en gjöldin rúmlega ein millj. Loks er þess getið, að með því að selja rafmagn til hita kunni að mega bæta úr þessu, en allt mjög á huldu, hvernig tekst til um það. Það er alls kostar ljóst, að á næstu árum þarf ekki að reikna með, að tekjur rafveitunnar geti risið undir gjöldum, en ríkissjóður þurfi strax að taka á sig gjöld vegna lánanna, nema Siglufjarðarkaupstaður jafni niður hallann með útsvörum. Ég veit ekki, hvort þeir telja sér það fært, býst við, að þeir telji sig hafa í nógu mörg horn að líta. Málið allt og meðferð þess þó sérstaklega er á þann veg, að ég skora á hv. fjvn. að taka málið til rækilegrar athugunar og yfirvegunar, áður en léð er máls á því að taka á sig þessa viðbótarábyrgð. Ég vil benda hv. þm. á, sérstaklega hv. fjvn., hvort ekki sé ástæða til þess að láta fara fram sérstaka rannsókn á þessu máli, sem leiði í ljós, hvernig á þessum málum hefur verið haldið gagnvart Alþ., þannig að athugaðar séu þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið í málinu, svo að í ljós komi, að hve miklu leyti beinlínis hefur verið farið á bak við þ. og að hve miklu leyti Alþ. er dulið þess, hvernig málum er komið. Þetta hefur mikla þýðingu í meðferð málsins, því að ef það kemur í ljós, eins og ég hygg, að liggi nokkuð ljóst fyrir, að hér hafi verið haldið á málunum með sérstaklega óviðurkvæmilegum hætti, hlýtur það að hafa sitt að segja upp á framtíðina, hvort Alþ. lætur bjóða sér slíkt. Að öðru leyti skal ég ekki lengja umr. um þetta mál. Ég vona, að hv. fjvn. taki það, sem hér hefur komið fram, til athugunar, en að lokum get ég þó ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, hvernig mál þetta er tekið hér upp í þriðja sinn. Við höfum setið hér á þ. síðan í sept., og ég dreg ekki í efa, að þeir, sem stóðu fyrir þessu máli, vissu allan tímann mjög vel, að hér þurfti stórfellda viðbótarábyrgð. Samt sem áður er dregið að koma fram með málið, þangað til ráð er fyrir gert, að aðeins séu örfáir dagar til þingslita. Það hlýtur að skjóta þeirri hugsun upp hjá mönnum, að þetta sé gert með það fyrir augum, að hægt sé í þingönnunum allra síðustu dagana að smeygja þessu máli athugunarlítið í gegnum Alþ. og þannig koma málinu í höfn og treysta því svo, sem hv. frsm. sagði, að þegar menn hefðu sagt a, yrðu menn líka að segja b. Það er þetta, sem einkennir alla meðferð málsins. Þeir hafa verið að reyna að fá menn til þess að segja a, til þess að menn síðar neyddust til þess að segja b, hvernig sem málin fara af þeirra hendi.

Ég geri það að uppástungu minni, að í þetta skipti verði ekki sagt b athugunarlaust, en beini því til fjvn., að nú verði málið athugað niður í kjölinn, öll meðferð þess hér og framkvæmdir heima fyrir, eftir því sem gögn liggja fyrir, og ef nægileg gögn eru ekki fyrir hendi, þá legg ég til, að settir verði sérstakir menn til þess að kynna sér þetta mál, áður en Alþ. segir síðasta orðið.