05.01.1945
Sameinað þing: 81. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (5851)

224. mál, virkjun Fljótaár

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég get því miður ekki orðið við tilmælum hæstv. forseta um að falla frá því að taka til máls. Mér þykir þetta merkilegt mál, sem þarf töluverðrar athugunar við, áður en það fer í n. Einkum vegna þess, að þegar umr. fóru fram um þetta mál í þinginu, að sumu leyti mjög merkilegar umr., var fjmrh. ekki viðstaddur og enginn úr fjvn. og enginn hv. flm. þál. Og mér þykir það alvöruleysi undarlegt hjá hæstv. Alþ. um jafnmerkilegt mál, ef ekki fara fram að einhverju leyti athugasemdir um málið í áheyrn þeirra aðila, sem eiga nú að taka ákvörðun um það, hvort halda beri áfram með það eða ekki. Þetta er táknrænt fyrir það alvöruleysi, sem ríkir hér á hæstv. Alþ. með umr. um mál og framgang mála. Og ég tel, að tími sé til kominn að snúa við inn á þá braut að meðhöndla málin með meiri alvöru en þetta mál.

Ég mun fyrst leyfa mér að gera athugasemdir við þá áætlun, sem látin er fylgja þál., ef form. fjvn. vildi taka þær til athugunar að einhverju leyti, þegar hann tekur málið til meðferðar í n. Í þál. er byggt á því, að gjöldin í næstu 25 ár verði kr. 1,080,000.00 árlega. Ég vil benda á það, að hér skakkar ekki svo litlu samanborið við áætlun landsveitunnar, eða 0,4%, hvað gjöldin eru minni við hana. Í Siglufjarðaráætluninni er alveg sleppt tryggingunum, en í landsveituáætluninni er það reiknað 1 prósent. En það mun gera 168,000.00 kr. útgjöld árlega næstu 25 árin við rafveitu Siglufjarðar.

Ég vil einnig gera nokkurn samanburð á rekstrarkostnaðinum. Vil ég þá fyrst láta undrun mína í ljós á þeirri undarlegu fullyrðingu hæstv. atvmrh., þar sem hann heldur því fram, að landsveituáætlunin sé helmingi dýrari en Siglufjarðarrafveitan. Ég hef farið í gegnum þau gögn, sem hér liggja fyrir, og sé ekki annað, eftir þeim að dæma, en Siglufjarðarveitan sé þó nokkru dýrari, miðað við þá áætlun, þar sem gert er ráð fyrir 12 millj. kr. kostnaði, heldur en gert er ráð fyrir að landsveitan kosti. Þætti mér vænt um, ef hæstv. ráðh. leiðrétti þessa missögn, eða að öðrum kosti viðurkennir hann, að hann hafi ekki farið með rétt mál. Gert er ráð fyrir, að 90 þús. manna njóti landsveitunnar, og landsveitan er talin kosta tæplega 300 millj. kr., eða rúmlega 3 þús. kr. á hvern mann í landinu, sem nýtur hennar. Siglufjarðarrafveitan mun aðeins ná til 2790 manna, en mun kosta 12 millj. kr., ef ekki 13–14 millj. kr. eða miklu meira. Og það þarf ekki nema einfaldan barnalærdóm til að sjá það, að ef deilt er í þessa upphæð, kemur hærri útkoma en hjá landsveitunni. Enn fremur vil ég benda á í þessu sambandi, að tekjuáætlun Steingríms Jónssonar getur engan veginn staðizt. M. a. er þar reiknað með 25 aura gjaldi fyrir verksmiðjur. En það er sama sem að útiloka það, að verksmiðjur kaupi þar rafmagn. Ég vil benda á, að gjaldskráin fyrir Reykjavík er þannig, að stóriðjan greiðir allt niður í 4 aura á kwst. Það rafmagn, sem notað er við síldariðnaðinn á Siglufirði, fellur að langmestu leyti undir stóriðju. Hraðfrystihúsin greiða allt niður í 10–15 aura eftir því, hvað þau taka mikið. Svo að það er annað, sem þau koma til með að greiða eftir þeirri gjaldskrá, sem gert er ráð fyrir í áætluninni fyrir Siglufjörð. Og ef hugmyndin er að reisa lýsisherzlustöð á Siglufirði, þá er þetta ekki lítið atriði. Ég vil benda á, að í áætlun, sem Trausti Ólafsson gerði 1937 um allan kostnað við að herða lýsi á Íslandi, reiknaði hann kwst. á 4 aura til jafnaðar við herzluna. Þá á rafmagnsliðurinn að kosta 18 kr. á tonn. Þessi liður kostar nú 6 sinnum meira samkv. Siglufjarðaráætluninni. En það er sama sem að útiloka, að reist verði lýsisherzlustöð þar. Sem sagt, þessi áætlun er aðeins pappírsgagn eitt. Mismunurinn á því að reisa lýsisherzlustöð nú og flytja lýsið hreinsað út í stað óhreinsað, eins og fyrir stríð, er eitt pund á smálest. Svo að annað er ekki til að hlaupa upp á í þessu efni. Og ef einn liðurinn hækkar úr kr. 18.00 upp í kr. 120,00 til 140,00 á tonn. þá kemur ekki til mála, að hægt sé að vinna þessa vöru hér. Þeim, sem sækja þetta mál fast, verð ég að benda á þetta. Nú er það e. t. v. svo, að það sé ekkert aðalatriði fyrir Siglufjörð, að lýsisherzlustöðin sé reist þar. Það má alveg eins reisa hana einhvers staðar annars staðar. En mér þótti rétt að benda á þessi atriði. Ég hef reiknað það út, að ef farið væri eftir því, sem áætlað er hjá landsveitunni, mundi hver notandi af 3 þús. íbúum aðeins nota 500 wött á ári til jafnaðar. Ef reiknað er með því, að árskwst. kosti 273 kr., þá yrðu tekjurnar aðeins 359 þús. og 500 kr. vegna allra nota fólksins, jafnvel til hitunar og smáiðnaðar. Sama upphæð og nú er greidd á Siglufirði með því að selja rafmagnið á kr. 1,20 kwst. Mismunurinn á 360 þús. kr. og 1100 þús. kr., sem þarf, til þess að virkjunin geti borið sig. verður að koma frá stóriðnaðinum og margfaldast frá því, sem nokkur von er til um, að verði. Mér þykir rétt að taka þetta fram til þess að benda fjvn. á þetta atriði, og ég get rökstutt þessar tölur mínar við n., til þess að tefja ekki málið hér. Ég tel það skipta miklu máli, hverja afgreiðslu mál þetta hlýtur á þ. Þetta er fyrsta málið, sem þarf að leysa, og ég tel ekki rétt að láta það hafa áhrif á þetta mál, að einhverjir kunni að óttast, að ef til vill verði ekki eins auðvelt að fá ábyrgð fyrir aðra staði, þegar þar að kemur. Hygg ég, að þar valdi mestu um hræðslan um það, að ef settur væri fótur fyrir þetta mál, yrði erfitt að koma fram ábyrgð fyrir önnur héruð á landinu. Mál þetta er í heild sinni komið í það horf, að ekki er annað sjáanlegt en ríkið verði að grípa inn í til þess að bjarga því, sem bjargað verður, og algerlega óverjandi að veita heimild, eins og farið er fram á í þessari þáltill., skilyrðislaust, eins og málinu nú er komið.