26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (5859)

224. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður Kristjánsson:

Þegar mál þetta var hér fyrst til umr. í þ., þá komu fram mjög harðar ádeilur á Siglufjarðarkaupstað út af ábyrgðarbeiðninni. Við 4 þm. höfum gerzt flm.till. á þskj. 662 um viðbótarábyrgð ríkissjóðs fyrir rafveitu Siglufjarðar og vorum þess vegna mjög fléttaðir við þær ádeilur, sem Siglufjarðarkaupstaður hlaut við þessa fyrstu umr. um málið. Það voru mjög harðar ádeilur, og Siglufjarðarkaupstaður var þar beinlínis borinn sökum um, að hann hefði af ásettu ráði prettað Alþ. og væri áframhaldandi á þeirri braut. Hann hefði prettað Alþ. til þess að taka á sig ábyrgð á fjárhæð, sem ekki gæti komið til greina eða a. m. k. mjög litlar líkur væru til, að kaupstaðurinn mundi sjálfur geta eða láta sér detta í hug að geta risið undir, og hlyti þess vegna að verða fjárhagslegur skellur fyrir ríkissjóð.

Nú er það út af fyrir sig ekki vel skiljanlegt mál, að kaupstaður eða yfir höfuð nokkur vildi stofna til þess sjálfum sér meðvitandi að gera sjálfum sér fjárhagslegt tjón og gera sér óbært með að standa undir skuldbindingum sínum. Ég þekki engin dæmi þess, að menn með fullu viti né formenn fyrir fyrirtækjum stofni til þess af ásettu ráði að vinna sjálfum sér eða fyrirtækjum þeim, sem þeir veita forstöðu, fjárhagslegt tjón. En þessu var hér haldið fram, og þá voru auðvitað flm. þessarar till. á þskj. 662 óaðskiljanlegur hluti í þessari svikamyllu, og ég er nú einn þeirra. Ég hef ákaflega ríka ástæðu og hvöt til þess að andmæla þessari þungu ásökun, sem vitanlega snertir mig og okkur flm. alla, en ég hugsaði sem svo, að við meðferð málsins mundi það að líkindum komast á allt annan umræðugrundvöll, að menn kynnu þá að falla frá þessum aðdróttunum og æsingum í málinu og ræða það á skynsamlegum og hóflegum grundvelli, — og þetta hefur orðið reyndin.

Fjvn. hefur haft málið til meðferðar, eins og búið er að lýsa hér af frsm. þriggja minni hluta. Hefur hún aflað sér þeirra upplýsinga, sem hægt var að fá frá Rafmagnseftirlitinu, um málið, og árangurinn hefur orðið sá, að það er ekki mjög mikið, sem skilur þessa þrjá minni hluta, og 1. og 2. minni hluta má nú heita, að skilji ekki neitt. Við, sem erum flm.till. á þskj. 662, getum þess vegna verið sæmilega ánægðir með það, hvernig mál þetta hefur snúizt, og einkanlega vegna þess, að það mun ekki vera neinn vafi á því, að Alþ. gangi þannig frá málinu, að Siglufjarðarkaupstað verði kleift að byrja rekstur þessa fyrirtækis, sem byrjar sennilega nú eftir fáa daga, á sæmilega fjárhagslega öruggum grundvelli. Það er mjög athyglisvert, þegar farið er fram á jafnháa ábyrgð og þessa, hvernig til fyrirtækisins er stofnað, hver þörfin er og hvaða líkur eru fyrir því, að fyrirtækið muni geta borið sig. Það þarf ekki um það að deila, að Siglufjarðarkaupstaður hefur mjög ríka þörf fyrir raforku, og ég efast um, að þeir hv. þm., sem í upphafi veittu þessu máli allmikla andspyrnu, hafi gert sér grein fyrir því, hve óeðlilegt er, að kaupstaður þessi færi að bíða kannske í áratugi eftir því að fá rafmagn að öðrum leiðum, eins og hér hefur verið minnzt á í umr. Því hefur sem sagt verið haldið fram af einstökum hv. þm., að Siglufjarðarkaupstaður ætti að bíða eftir leiðslu kerfis, sem gengi um sveitabyggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar, og verði eins konar endastöð í því kerfi. Nú veit enginn maður um, hve fljótt þetta gæti tekizt. Það er ekki ólíklegt, að það gætu orðið áratugir og kannske lengra þangað til þetta kæmi, og þar að auki virðist mjög óeðlilegt, að kaupstaður þessi ætti að eiga einungis undir þessu raforkukerfi, hvort hann hefur fullnægjandi rafmagn, því að flestir kaupstaðir hafa talið sér nauðsynlegt að hafa einnig varaveitu, og það má vel vera, að Siglufirði nægi ekki, þegar til kemur, þessi rafveita og hann komi inn í þetta fyrirhugaða rafveitukerfi, en honum veitir sennilega ekki af að hafa þessa Fljótaárvirkjun til öryggis. Það er sem sé vitað um Siglufjörð, að þótt ekki sé talið, að hann hafi nema um 3 þús. íbúa, þá eru íbúar Siglufjarðar miklu fleiri. Yfir sumartímann vinnur þar við verksmiðjurnar mikill fjöldi manna, nokkur hundruð eða jafnvel þúsund, og Siglufjörður er þess vegna í raun og veru miklu stærri kaupstaður en fólkstala hans á manntalsskýrslunni hermir, en þar að auki er á Siglufirði mesti iðnaður í hlutfalli við íbúatölu, sem til er á Íslandi. Ég fékk skýrslu um það, hvað Siglufjörður hefði framleitt mikið á s. l. ári, 1944. Að sönnu var náttúrlega ekki hægt að tæma það alveg, en eftir útflutningsskýrslum, þá var komið fram um 22¾ millj. kr. Þetta eru hér um bil allt saman iðnaðarvörur, og það er ekki hægt að neita því, að í hlutfalli við framleiðslu alls á landinu er þetta alveg gífurlegt, og ef ætti að neita svona stað um rafveitu, þá er það svo fjarri allri sanngirni, og ég held öllu viti, að ég skil ekki í, að menn gætu til lengdar haldið við þá ákvörðun, enda er svo komið, að mér skilst, að Alþ. muni nokkurn veginn verða sammála um, að Siglufjörður verði að fá rafveitu og það nú strax.

Þegar um það er að ræða, hvaða áhættu ríkið leggi á sig með því að ganga í ábyrgð fyrir fyrirtækið, þá kemur auðvitað fyrst til greina, hvort líkur eru til þess, að fyrirtækið beri sig. Það, sem kynni að vera tekið fram yfir þá ástæðu, væri hin mjög brýna þörf fyrir að veita aðstoð, þó að af henni kynni að verða fjárhagsleg útgjöld. Ég held, að Siglufjörður hafi nú einmitt þetta hvort tveggja, að það er svo merkileg starfræksla, sem um er að ræða, og staðurinn svo mikilsvarðandi fyrir framleiðslu á Íslandi, að jafnvel þótt ríkið þyrfti að fórna meira en áður í að ljá nafn sitt sem ábyrgð fyrir láninu, þá mundi það vel leggjandi í sölurnar, en þar að auki skilst mér, að fyrir liggi nú þegar mjög sterk rök fyrir því, ef ekki fullar sannanir, að Siglufjörður geti vel staðið straum af þessu fyrirtæki, ef það verður ekki dýrara í rekstri en þörf er á, þ. e. a. s. að ríkið láti ekki stofnkostnaðinn verða með þyngri kjörum heldur en orðið getur, ef ríkið veitir þessa ábyrgð.

Það er upplýst af Rafmagnseftirliti ríkisins, að áætlað verð á rafmagni á Siglufirði til almennings sé ekki hærra en það, sem fólk virðist vilja á sig taka og dæmi eru til, að rafmagnsverðið hafi verið fyrir stríð á sumum stöðum hér á landi, og það munu jafnvel vera dæmi þess, að menn verði að borga rafmagn á einstökum stöðum hér á landi upp undir það tvöfalt dýrara en áætlað er, að almenningur þurfi að borga rafmagn á Siglufirði. Sumir eru í nokkrum vafa um það, hvort markaður verði fyrir allt það rafmagn, sem framleitt verður við Fljótaá við Skeiðfossa, og um það er náttúrlega ekki svo auðvelt að dæma, en eitt er alveg víst og margrannsakað, að fyrir það, að rafmagn er komið á einhvern stað, verður eftirspurnin eftir því miklu meiri en nokkurn hefði fyrirfram grunað. Það vaknar svo margt upp einmitt við það, að orkan er fáanleg, sem mönnum hefur ekki áður dottið í hug, svo að markaðurinn verður ætíð miklu meiri en ráð var gert fyrir. Ég efast ekki um, að í öðrum eins iðnaðarbæ og Siglufirði muni þessi verða reynslan.

Það hefur verið haft mikið á orði hér, að rafmagnskostnaðurinn við þessa rafveitu hafi orðið óeðlilega mikill eða hækkað óeðlilega mikið frá því, sem upphaflega var áætlað. Nú er það svo, að fyrsta áætlun um þessa rafveitu var 6 millj. kr., og var þá gert ráð fyrir að virkja 2350 hestöfl eða eitthvað um það bil. Nú er þessi kostnaðaráætlun 13 millj. kr. og gert ráð fyrir að virkja 4800 hestöfl eða nokkuð meir en tvöfalt við þá upphaflegu áætlun. Við höfum nú á þessu þ., sem nú stendur yfir, haft ákaflega mikinn fjölda af ábyrgðarbeiðnum til rafveitna, bæði til virkjunar og til að leggja línur. Mikið af þessu hefur áður verið áformað og áætlað, og ég held, að ég fari ekki rangt með, að það sé mjög algengt, að áætlanirnar hafi tvöfaldazt frá því, sem var fyrir stríð eða í stríðsbyrjun. Ég sé þess vegna ekki, að þessi áætlun hafi hækkað neitt fram úr því verulega, sem eru mörg dæmi til, að orðið hefur, en hins vegar hefði átt að mega gera ráð fyrir, að slík stórvirkjun sem þessi hefði fengið gagngerðari og nákvæmari undirbúning en smærri virkjanir, og það er áreiðanlega víst, að enginn, sem nálægt þessu máli hefur komið, vill mæla á móti því, að úr skugga sé gengið um það, hvort þessi hækkun á kostnaði við virkjunina sé eðlileg eða ekki eðlileg. Ég legg engan dóm á það. Ég skal skýra frá því, að áður en ég gekk inn á að vera flm.till. á þskj. 662, þá bað ég um margar upplýsingar og þar með grg. fyrir viðbótarláni, að þessi rannsókn færi fram. Mér voru fengin í hendur hér allmörg skjöl frá verktaka, og þar er margvíslegur fróðleikur og mjög merkilegur, sem ég tel að sönnu ekki tíma til að rekja hér og síður ástæða til, af því að það er einhliða grg. verktaka, þó að mig bresti þekkingu eða getu til þess að véfengja nokkuð af því, sem þar er sagt, svo að ég ætla ekki að fara að tefja tímann á að lesa það upp hér, en ég held, að það væri ákaflega hollt fyrir þá menn, sem hafa haft nokkuð stór orð hér um þessa hækkun, að kynna sér þessar ástæður.

Ég fékk auðvitað einnig upplýsingar um, hve langt verkið væri komið, og veit ég, að til stendur að taka stöðina í notkun næstu daga. Sömuleiðis fékk ég margar skýringar á því, hve nauðsynlegt væri, að verkið væri ekki tafið, og að því athuguðu var ég sannfærður um, að það væri skylda mín að vera flm. málsins og gera það, sem ég gæti, til að koma mönnum í skilning um, að þetta væri bæði heilbrigt og nauðsynlegt mál. Nú er mér mikið gleðiefni, að fjvn. hefur, eftir að hafa lagt mikla alúð við að kynna sér þetta mál, komizt að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður eigi að takast þessa ábyrgð á hendur, og enda þótt ég telji ekki mjög mikið atriði, hvor leiðin verður farin, 1. eða 2. minni hl., þá vil ég samt sem áður með tilvitnun til ummæla hæstv. atvmrh. eindregið mælast til þess, að hv. þm. fallist á að samþykkja till. 1. minni hl. Það er alveg víst, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að hann mun leita sér þeirra upplýsinga og afla sér þeirrar tryggingar, sem báðir þessir minni hlutar hafa óskað eftir, en ef sú leið er farin, sem 1. minni hl. fer fram á, þá er það víst, að það greiði götu Siglufjarðar sjálfs, og þess vegna legg ég mikla áherzlu á, að hv. þm. fallist á að samþykkja þá till.