02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í D-deild Alþingistíðinda. (5869)

224. mál, virkjun Fljótaár

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Ég flutti við fyrri umr. brtt. við till., sem fjallar um að fella niður það ákvæði, að ábyrgðarheimildin skuli bundin því skilyrði, að fram komi fullnægjandi skýring á því, hvers vegna kostnaður við verkið hafi farið svo mjög fram úr áætlun. Eins og ég tók fram við fyrri umr., kom yfirlýsing frá samgmrh. um það, að þessi rannsókn mundi fara fram, og ég upplýsti, að bæjarstj. væri tilbúin að leggja fram öll gögn, þegar óskað yrði, og væri því engin ástæða til þess að hafa þetta í till. sjálfri. Þess vegna vil ég ítreka það, að þetta verði fellt niður úr till. Þá er komin brtt. frá hv. þm. Barð. um það að fella inn í till., að ábyrgðarheimildin sé bundin þeim skilyrðum, að yfirumsjón með verkinu sé falin manni, sem ráðuneytið samþykki. Um þessa till. er það að segja, að bæjarstjórn Siglufjarðar hefur aldrei hindrað ráðuneytið í því að hafa allt það eftirlit með verkinu, sem það hefur óskað eftir, — og það er alls ekki Siglufirði að kenna, að eftirlitið var ekki meira en það var. Ég álít till. hv. þm. Barð. því tilgangslausa og til þess fallna eingöngu að orsaka óþarfa ýfingar.