24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í D-deild Alþingistíðinda. (5878)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Jakob Möller:

Hv. flm. vísaði til þess, að það væru greinileg fskj. sem fylgdu þessu máli, en mér finnst á skorta. Eftir því, sem ég hef tekið eftir, vantar alveg, að nokkur hugmynd sé gerð um það, hvað jörðin á að kosta. Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að höfuðástæðan, sem færð er fram fyrir því, að ríkið seilist eftir þessari jörð, er sú, að á þessu svæði sé líklegt, að upp komi nýbýli. Það er allmikið landflæmi umhverfis, sem ríkið á, og meðan hreint ekkert hefur verið gert í þá átt að hefja þessa nýbýlastofnun, fæ ég ekki betur séð en halda mætti að sér höndum um þessi jarðakaup um sinn. Þess er einnig að geta, að frá því, að vakið var máls á því, að ríkið eignaðist þessa jörð, hefur það skeð, að byggð hafa verið nýbýli á jörðinni, sem sennilega hæfa alls ekki þeirri notkun, sem ráð er gert fyrir í framtíðinni, því að það skiptir jörðinni í smábýli, og mér skilst, að einmitt þessar byggingar, sem reistar hafa verið á jörðinni, muni hleypa verðinu stórkostlega fram, þar sem þær voru einmitt reistar á þessum síðustu tímum, enda er í bréfi bankastjóra Búnaðarbankans ekki dregin fjöður yfir það, að þær muni hafa orðið alldýrar.

Ég er ekki að andmæla því, að málið fari til n., en ég vænti þess, að það komi þó glöggari grg. frá hv. fjvn. um málið en ég hef getað séð, að fylgdi því.