26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (5887)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Ég skrifaði með fyrirvara undir þetta nál. sökum þess, að ég tel ekki heppilegt, að ríkið eigi jarðirnar. Ég er á móti því, að ríkið noti sér erfiða aðstöðu bænda til þess að sölsa undir sig jarðir.

En ég hygg þó, að þetta atriði sé ekki svo stórt, sérstaklega eftir að fjvn. breytti till. í það horf, að það er á valdi ríkisstj., hvaða mat hún leggur á jörð þessa.

Hitt ætla ég, að sé rangt, sem hv. þm. Barð. sagði og vakti mikinn gleðskap, að þetta væri stórfellt gróðabrall, heldur hefur Búnaðarbankinn gert þarna umbætur, byggt íbúðarhús, hlöðu og peningshús, og er verðið miðað við byggingar þessar. En hér verður sama afleiðingin og hjá öllum bændum, að sá, sem byggir, þarf að afskrifa mikinn hluta byggingarkostnaðarins.

Þetta sýnir einungis, hvernig atvinnulífið er í sveitum landsins, að atvinnuvegurinn þolir ekki, að bændur búi við sæmilegan húsakost.

Hitt er rétt, að ekkert eftirlit er með jarðeignum ríkisins, svo að þær níðast niður, þótt til séu heiðarlegar undantekningar.

Hins vegar eru hér uppi raddir um að veita fé til byggðahverfa og gera tilraun með, hvort þau séu ekki heppileg. Og ég verð að segja, að ég tel æskilegt að reyna þetta, og þá kann að vera, að þetta land væri ekki illa fallið til slíkra tilrauna. Sökum þessa tók ég ekki skarpari afstöðu gegn þessari till.