26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (5888)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki segja mikið, mönnum er kunnugt um afstöðu mína til jarðasölumálsins, og þarf ég ekki að lýsa henni. En það, sem ég vildi benda á, er það, hversu samvinnan er góð milli stjórnarflokkanna. Menn vita um afstöðu Sjálfstfl. í þessu, og nú heyrðu menn líka orð hv. 2. landsk. Út af orðum hv. þm. Barð. vil ég segja það, að það er ekki hægt að draga neinar ályktanir að óséðu út af því, sem hér um ræðir. — Og þessi jarðakaup eru ekki sambærileg við nein önnur, því að það er skoðun margra, að þarna komi samliggjandi byggðahverfi.

Það er því ekki heppilegt að taka Breiðuvík sem dæmi og hve illa þar er hýst og að fólkið þar þurfi að flytja sig eftir áttum. Sama er að segja um Reykhóla. Sannleikurinn er nefnilega sá, að Reykhólar eru ein af þeim fáu jörðum, sem ríkið á, sem ekki hefur verið hægt að gera neitt við. Þess vegna hefur aldrei verið slegið neinu föstu um það, hvað eigi að gera við þá. Það hefur komið til orða að setja þar upp tilraunastöð, húsmæðraskóla og jafnvel héraðsskóla, og það hefur verið talað um að gera svo margt og mikið við Reykhóla. En þar hefur aldrei verið ábúandi, sem fengið hefur erfðaábúð og hefur farið með jörðina eins og hann ætti hana sjálfur og þar af leiðandi ekki farið að standa í því að útvega lán til þess að dytta að húsakynnum, þar sem alltaf hefur legið við borð, að það opinbera tæki jörðina og gerði eitthvað við hana.

Þess vegna nær engri átt að taka Reykhóla sem dæmi um það, hvernig byggt er á ríkisjörðum.