04.12.1944
Sameinað þing: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

143. mál, fjárlög 1945

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti, góðir hlustendur. — Ræða sú, sem ég mun flytja hér, er samin af hæstv. atvmrh., Áka Jakobssyni, en vegna lasleika hans hef ég tekizt á hendur að flytja hana.

Það er orðin venja að ræða stjórnmálaviðhorfið almennt í hinum svo nefndu eldhúsumr., en binda sig ekki sérstaklega við fjárl., þótt þau séu til umr. Ég mun í þessari ræðu fylgja venjunni, enda hafa viðhorf okkar sósíalista til stjórnarmyndunarinnar ekki verið rædd í útvarpi, frá því að núv. ríkisstj. tók við.

Það hefur nú loks tekizt — eftir nærri tveggja ára stjórnarkreppu — að mynda aftur stj. á Íslandi, sem styðst við meiri hl. þings. Ekki þýðir að neita því, að almenningur áfellist mjög stjórnmálaflokkana fyrir það, að þeim skyldi ekki takast að mynda ríkisstj., og af þeim sökum hefur Alþingi beðið álitshnekki, en hefur nú rétt við álit sitt strax við myndun þessarar stj.

Undanfarin tvö ár hefur setið stj., sem naut ekki stuðnings Alþ. og skipuð í trássi við Alþ. Sú stj. hóf göngu sína með hátíðlegum yfirlýsingum um baráttu gegn dýrtíðinni, en það sýndi sig fljótt, að hún hafði enga möguleika til þess að geta dregið úr dýrtíðinni. Þegar fór að líða á valdatímabil fráfarandi stj., fór henni að verða ljóst getuleysi sitt, og setti hún þá allar vonir sínar á það, að hrun og atvinnuleysi mundi skella yfir. Fyrrv. stj. taldi hrun og atvinnuleysi æskilegt, enda sleppti hún engu tækifæri, er hún lét til sín heyra, að lofa almenningi þessu lostæti.

Á árunum 1942 og 1943 hafði verkalýðshreyfingin hækkað nokkuð grunnkaup verkalýðs í landinu og stytt vinnutímann í 8 stundir. Með þessum sigrum steig íslenzka þjóðin þýðingarmikið spor fram á við á menningarbraut sinni. Frá hendi afturhaldsins var þessari kauphækkun mætt með hinni mestu háreysti, þar sem verkafólki og flokki þess var borið það á brýn, að með þessum kjarabótum væri verið að rífa niður þjóðfélagið og stofna til atvinnuhruns. Fráfarandi stj. lét einna mest að sér kveða í þessum hávaða, enda verður ekki séð, að hún hafi talið, að nokkur önnur ástæða gæti legið til dýrtíðaraukningar á Íslandi en þessar kauphækkanir. Það var aðaláhugamál fráfarandi ríkisstj. að lækka kaupið, og hún gerði allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að siga atvinnurekendum og verkamönnum saman í kaupstreitur. Það var ekki henni að þakka, að þjóðin skyldi ekki lenda nú í illvígum innbyrðisdeilum og gleyma sjálfri sér og frelsi sínu. Það voru atvinnurekendurnir sjálfir, sem höfðu vit fyrir henni, en það meðal annars leiddi til myndunar núv. stj. Allri þjóðinni var orðið ljóst getuleysi fyrrv. stj. til þess að leysa vandamál þjóðarinnar, en allt benti þó til þess, að henni ætlaði að takast að kalla yfir þjóðina hrun og atvinnuleysi með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi. Það var því ekki nema eðlilegt, að þjóðinni létti, er Alþ. tókst að mynda stj., sem setti sér það mark að koma í veg fyrir fjárhagshrun og atvinnuleysi og hefja stórfellda nýsköpun í atvinnulífi þjóðarinnar.

Þau tvö ár, sem fyrrv. stj. sat, var unnið mikið að því að skapa þingræðisstj. Fyrsta tilraunin var gerð fyrri part árs 1943, er nefndir frá Framsfl., Alþfl. og Sósfl. ræddust við. Sú tilraun varð árangurslaus, fyrst og fremst vegna þess, að það var skýlaus krafa Framsfl., að lögþvinguð kauplækkun yrði framkvæmd. Ekki er útlit fyrir, að Framsókn hafi enn fallið frá þessu skilyrði. Annars hafa öll afskipti Framsfl. af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til stjórnarmyndunar, mótazt af fylgi hans við fyrrv. ríkisstj. Áhrifamesti maður þeirrar stj., Vilhjálmur Þór, er sem kunnugt er, meðlimur miðstj. Framsfl., og þótt stj. teldist ekki studd af flokknum, fylgdi hún í öllum verulegum atriðum þeirri stefnu, sem Framsfl. gat fellt sig við. Þetta varð greinilegra eftir því, sem leið á stjórnartímabilið, enda er ekki nokkur vafi á því, að undir það síðasta var Framsfl. farinn að vinna að því beinlínis að hindra stjórnarmyndun, sem Framsfl. hefði ekki forsæti í. En þessar fyrirætlanir Framsfl. fóru herfilega út um þúfur, eins og nú er fram komið.

Grundvöllur sá, sem núv. ríkisstj. er byggð á, er samkomulag tveggja höfuðstétta þjóðfélagsins, verkalýðs og atvinnurekenda, þar sem verkalýðssamtökin skuldbinda sig til þess að gera ekki kröfur um kauphækkanir fram til 1. janúar 1946 nema til samræmingar, en atvinnurekendur skuldbinda sig til að fara ekki fram á kauplækkanir á sama tíma. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendafélagið hafa gefið yfirlýsingar um þetta, en brátt verður gengið til heildarsamninga um kaup og kjör í landinu.

Með þessu er því slegið föstu, að vandamálin skuli ekki leyst á kostnað hinna vinnandi stétta. Núv. ríkisstj. ætlar sér að leysa vandamál íslenzks atvinnulífs án þess að skerða lífskjör almennings. Hún ætlar að leitast við að auka atvinnuna svo, að allir geti haft óslitna vinnu. Þetta er það nýstárlega við þessa ríkisstj. Fyrrv. ríkisstj. sá enga aðra lausn á vandamálum okkar en kauplækkun, og stjórnarandstaðan, Framsfl., heldur því fram, að það sé hreint ábyrgðarleysi að ráðast ekki fyrst í að lækka kaupið, áður en nýbyggingarframkvæmdir séu hafnar. Fyrirætlanir stj. eru djarfar, og andstæðingar hennar spara ekki heldur hrakspár sínar.

Höfuðatriðið í stefnu ríkisstj. er uppbygging atvinnulífs á Íslandi, einkum sjávarútvegsins, og að hagnýta til þess verulegan hluta af innistæðum þjóðarinnar erlendis eða fyrst um sinn jafngildi 300 millj. ísl. kr. Megninu af þessu fé er ætlað að verja til skipakaupa, til kaupa á togurum og öðrum fiskiskipum, sem henta landsmönnum. Undirstaðan undir sjávarútveginum er stór og fullkominn skipastóll. Það hefur ekki verið ákveðið, hve mörg skip skuli keypt af hverri tegund, en augljóst er, að við þurfum að margfalda fiskiskipastól okkar, ef takast á að hafa næga atvinnu fyrir alla.

Skipastóll okkar er í hörmulegu ástandi. Togararnir eru yfirleitt gamlir ryðkláfar, sem heldur litlar líkur eru til, að geti borið sig í samkeppninni við ný skip að stríðinu loknu. Meginið af mótorskipum okkar er líka gömul og lítt hæf til samkeppni við ný skip vegna óeðlilega mikils viðhaldskostnaðar.

Á árunum fyrir stríð streittust stjórnarvöldin, þau sem með gjaldeyris- og innflutningsmál fóru, gegn því, að ný skip fengjust flutt inn. Fyrir harðfylgi nokkurra manna fengust nokkur skip flutt inn, en það voru gömul aflógaskip og verða tæpast til að bæta fiskiskipaflotann. Á árum gjaldeyrisfargansins lét ráðamaður þeirra mála, núv. hv. 2. þm. S.-M., reikna út alls konar vísindalega kvóta um hinar ýmsu vörur, sem hann taldi þjóðinni nauðsynlegt að fá. Sérstakur kvóti var hafður fyrir hinar ýmsu tegundir varnings, fyrir sælgæti alls konar og gosdrykki, silkisokka og fleira þess háttar, en það var enginn kvóti ætlaður fyrir skip. Skip voru ekki nauðsynjavarningur fyrir íslenzku þjóðina. Einn þekktur útgerðarmaður, sem nú er nýlátinn, var sektaður um 100 kr. fyrir að flytja inn ca. 100 tonna skip. Hann hafði brotið gjaldeyris- og innflutningskvóta Eysteins. Skip þetta hefur nú fært milljónir króna í þjóðarbúið. Vegna þessarar stjórnarstefnu var skipastóll okkar sérstaklega illa á sig kominn, þegar stríðið skall á. Nú er stríðið búið að standa í fimm ár, svo að skip okkar hafa elzt um þau árin, auk þess sem við höfum tapað úr flotanum ýmsum beztu skipunum, sem hafa verið skotin niður eða tapazt á stríðsárunum.

Þegar allt þetta er athugað, verður það ljóst, að íslenzku þjóðinni er það höfuðnauðsyn að afla sér nýrra fiskiskipa og það í miklu stærri stíl en áður hefur átt sér stað. Það er ekki ástæða til að nefna tölur, en það er ljóst, að því fleiri fiskiskip sem við getum gert út frá Íslandi, því meiri líkur eru til þess, að hægt sé að láta alla hafa atvinnu. Þessi nýju fiskiskip þurfa að vera fullkomlega sambærileg við beztu fiskiskip í heimi. Fram til þessa hafa fiskimenn okkar orðið að keppa við fiskimenn annarra þjóða á verri skipum en hinir höfðu, og þeir hafa staðið sig í samkeppninni framar öllum vonum. Nú verður að hætta þessu. Það verður að láta íslenzku fiskimennina fá fullkomin skip, því að undir afkomu fiskveiðanna á þjóðin alla tilveru sína.

Auk skipa þarf þjóðin að afla sér alls konar atvinnutækja til þess að vinna úr sjávarafurðum sínum. Við þörfnumst síldarverksmiðja í mjög stórum stíl, hraðfrystihúsa, niðursuðuverksmiðja, niðurlagningarverksmiðja, fiskimjöls- og beinamjölsverksmiðja og ýmissa fleiri atvinnutækja svipaðs eðlis. Það þarf að miða allar framkvæmdir í þessum efnum við það, að við getum komizt upp á að flytja út sjávarafurðir okkar fullunnar. Þetta er mikið verkefni og tekur mörg ár, en þetta verður íslenzku þjóðinni að takast.

ríkisstj., sem nú situr, er sammála um, að sjávarútvegurinn sé aðalatvinnuvegur þjóðarinnar og þjóðin eigi tilveru sína sem menningarþjóð undir því, að sjávarútveginum sé gert kleift að leysa hlutverk sitt af hendi. Það þarf svo sem ekki neinn. fræðimann til þess að sjá jafneinfaldan hlut sem þennan, en þrátt fyrir það er núv. stj. sú fyrsta, sem gerir sér þetta fullljóst og er ákveðin að haga stjórnarframkvæmdum í samræmi við það. Það bezta, sem fyrrv. stjórnir hafa gert gagnvart sjávarútveginum, hefur verið að láta hann í friði, lofa honum að þróast af sjálfum sér. En oft hefur orðið misbrestur á, að það gæti orðið. Um stuðning frá hendi hins opinbera eða örvun á einn eða annan hátt hefur ekki verið að ræða — og það á sama tíma sem stórfelldum framlögum af almannafé hefur verið beint í annan atvinnuveg þjóðarinnar, sem miklu minni þýðingu hefur. Núv. ríkisstj. er ákveðin í því, að beina höfuðathygli sinni að sjávarútveginum. Það verður yfirleitt ekki farið inn á þær brautir að styrkja þennan atvinnuveg af almannafé. Þess á ekki heldur að þurfa. En í öllum stjórnarframkvæmdum verður það haft hugfast, hvað íslenzka þjóðin á mikið undir því, að sjávarútvegurinn blómgist.

Uppbyggingaráform ríkisstj. verða framkvæmd á grundvelli núv. þjóðskipulags. Með þeim er á engan hátt verið að framkvæma sósíalisma eða kommúnisma. Hið eina, sem stj. hyggst að gera, er að auka hraða atvinnuþróunarinnar umfram það, sem verða mundi, ef atvinnuvegirnir væru látnir afskiptalausir. Atvinnurekendur, verkafólk og millistéttir hafa hver um sig beinan hag af því, og þjóðinni í heild sinni er það lífsnauðsyn að tryggja sjálfstæði sitt, gera sig sem óháðasta erlendu fjármagni.

En það er ekki nóg að kaupa skip og verksmiðjur. Það verður líka að gera skipin út og starfrækja verksmiðjurnar. Gert er ráð fyrir, að þau skip, sem inn yrðu keypt, verði seld einstaklingum, hlutafélögum, samvinnufélögum, bæjar- og hreppsfélögum og séu jafnvel gerð út af ríkinu sjálfu, sérstaklega ef ekki fengjust aðrir til þess að taka reksturinn að sér. Sama má segja um verksmiðjur og önnur atvinnutæki, sem aflað kann að verða. Þetta þýðir, að við þurfum að fá miklu stærri hluta þjóðarinnar en nú er til þess að snúa sér að sjávarútvegi. Þeir, sem peninga hafa, verða að leggja þá í skip, ef vel á að takast. Af efnamönnum þessa lands eru tiltölulega sárfáir, sem hafa áhuga á að leggja peninga sína í skip og sjávarútveg yfirleitt, eins og nú er. Meginið af þessum mönnum vill frekar leggja peninga sína í heildverzlun eða í framleiðslu á einhverjum hégóma, sem er þjóðinni gagnslaus. Það er þjóðarböl á Íslandi, að efnamenn skuli frekar vilja leggja peninga sína í coca-cola-verksmiðju t.d. en að kaupa togara. Ef þeir menn, sem peninga eiga á Íslandi, fást ekki til að leggja verulegan hluta fjármuna sinna í skip og útgerð, þá eru fyrirætlanir stj. dæmdar til að mistakast. Fari svo, þá getum við líka verið viss um, að yfir skellur fjárhagshrun með tilheyrandi atvinnuleysi, en þegar svo er komið, þá fara líka coca-cola-verksmiðjurnar að gefa minna af sér.

Ríkisstj. væntir þess, að þjóðin skilji mikilvægi sjávarútvegsins og hún reynist fús á að leggja fé sitt í þann atvinnuveg í mjög ríkum mæli, en fari svo, að þeir menn, sem féð eiga, vilji ekki leggja það fram, þá er óhjákvæmilegt, að það verði gert með opinberum ráðstöfunum. Þá verður að veita fénu í sjávarútveginn með vaxtalágum lánum til þeirra félagssamtaka eða einstaklinga, sem eru svo þjóðhollir að vilja leggja út í atvinnurekstur jafnáhættusaman og sjávarútvegurinn er.

Í fjöldamörg undanfarin ár hefur verzlunin verið arðbærasti atvinnuvegurinn á Íslandi. Eftir að stríðið byrjaði, hefur kaupgeta almennings vaxið og heildverzlunin orðið langarðbærasta atvinnugreinin, m.a. vegna þess, að hún veitir meiri möguleika til undanbragða frá skattgreiðslum en ýmsir aðrir atvinnuvegir, enda hafa heildverzlanir sprottið upp eins og gorkúlur á mykjuhaugi. Þessi útþensla verzlunarinnar er óeðlileg. Það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að hindra þennan sífellda vöxt verzlunarinnar og beina fjármagninu að þeim atvinnuvegi, sem þjóðfélag okkar byggist á, sjávarútveginum. Það er óeðlilegt, að verzlunin skuli vera arðbærasti atvinnuvegurinn á Íslandi. Það er sjávarútvegurinn, sem þarf að vera sá atvinnuvegurinn, sem mest gefur í aðra hönd. Það er þjóðinni fyrir beztu.

Ég býst við, að hver einasti verzlunarmaður geri sér ljósa hina óeðlilegu útþenslu verzlunarinnar og viðurkenni nauðsyn þess, að fjármagnið renni meira til sjávarútvegsins. En það er óvíst, að þeir verði hver um sig jafnfúsir til þess að breyta um. En við skulum þó í því sambandi gera okkur ljóst, að vegna hinnar miklu útþenslu verzlunarinnar og óþarfaiðnaðarins er vel hugsanlegt, að yfir þessa atvinnuvegi dynji hrun og vandræði, sem ekki þyrfti að snerta aðra atvinnuvegi nema að mjög litlu leyti. Það er rétt fyrir þá menn, sem hafa fjármuni sína eingöngu í þessum atvinnuvegum, að gera sér þetta ljóst, og. það væri ekki óhyggilegt af þeim að gera sjálfir ráðstafanir í tæka tíð.

Takist það að fá keypt fiskiskip og báta, þá er fyrirsjáanlegur skortur á ungum og hraustum mönnum, sem vilja fara út á skipin. Ef sænsku bátarnir, 45 að tölu, koma hingað á næsta ári, eins og samningar standa til,. ef stríðinu verður lokið, þá verður strax skortur á vélstjórum og jafnvel á mönnum í hásetapláss. Sjómannsstarfið er ekkert eftirsóknarvert, það hefur sýnt sig. Þeir eru fáir, sem ekki vilja fremur vinna í landi, jafnvel fyrir lægra kaup. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt, því að hversu góð sem skipin eru, er aðbúðin aldrei sambærileg við það að geta búið í landi og eytt frítíma sínum eftir vild sinni. Ofan á það bætist, að óhjákvæmileg hætta fylgir sjómannsstarfinu, margfalt meiri en við flest störf í landi. Ég er ekkert að lá mönnum það, þótt þeir kjósi heldur að vera í landi, ef um sömu laun er að ræða. En þjóðinni er óhjákvæmileg nauðsyn að því, að menn fáist til að stunda sjóinn. Starf sjómannanna okkar er undirstöðustarf í þjóðfélaginu. Það eru sjómennirnir okkar, sem hafa fært á land þann auð, sem við höfum gert hlutina með á undanförnum áratugum, og við getum alveg lagt árar í bát, ef sjómennirnir vilja ekki halda áfram starfi sínu.

Það er talið, að á Íslandi séu nú um 5000 sjómenn. Þessir 5000 menn skapa því nær allan okkar gjaldeyri. Þeir skapa meginið af þjóðartekjunum. Meginið af lífsnauðsynjum Íslendinga er keypt fyrir verðmæti, sem fimm þúsundir sjómanna flytja á land. Og þó er svo komið nú, að okkur veitist erfitt að fá menn til þess að fylla þessi sæti. Ef okkur skyldi auðnast að fá skip þau, sem fyrirhugað er, þá þarf að tvöfalda, kannske þrefalda tölu sjómanna á Íslandi. Það liggur því fyrir til úrlausnar mikið verkefni á þessu sviði að fá fleiri Íslendinga til að leggja fyrir sig sjómennsku.

Hvað þarf að gera til þess, að nægilega margir menn fáist til að stunda sjóinn? Það, sem gera þarf, er þetta: Þjóðfélagið þarf að viðurkenna þýðingu sjómannsstarfsins með því að launa það hærra en svipuð störf í landi. Sjómannsstörfin þurfa að verða bezt launuðu störfin í þjóðfélaginu. Þegar svo er komið, þá getum við gert okkur vonir um, að stöðugt streymi í sjómannastéttina ungir og hraustir menn til þess að leysa af hina eldri og þreyttu, djarfir menn með bjartar framtíðarvonir, sem skilja, að þeir eru brjóstfylking þjóðarinnar í sókn hennar til betra lífs og meiri menningar. — En hvernig er launakjörum sjómanna varið nú? Þeir sjómenn, sem sigla til annarra landa, hafa vegna áhættuþóknunar meiri tekjur en gerist á landi, en fiskimenn hér við strendur, hvort sem heldur er á þorskveiðum eða síldveiðum, hafa yfirleitt lægri laun en verkamenn í landi. Hin vaxandi dýrtíð, sem verkamaðurinn fær endurbætta með vísitölu mánaðarlega, hefur komið óþægilega niður á fiskimanninum. Nú er svo komið, að erfitt er að fá menn á smábátaflotann vegna þess, hvað tekjur þeirra eru lágar, a.m.k. ef ekki verður afbragðsafli.

Afturhaldið hefur reynt að hagnýta sér þessa örðugleika til þess að egna sjómenn gegn verkamönnum í landi og hafa kennt verkalýðssamtökunum um alla dýrtíðina. Þessir menn vita, að þeir eru að segja ósatt, en þeir gera þetta til þess að reyna að knýja fram kauplækkanir. Þessir menn vilja ekki bæta kjör fiskimanna. Þeir vilja aðeins rýra kjör verkamanna í landi og skapa glundroða í atvinnulífinu. Ég vil vara sjómenn við þeim röddum. Látið ekki egna ykkur til deilna við verkafólkið í landinu. Sjómenn geta verið vissir um, að verkamenn skilja þýðingu sjómannsstarfanna öllum betur og vita, hvað þeir eiga undir því, að menn fáist til að fara á sjóinn. Það er enginn vafi á því, að verkamenn munu skilja nauðsyn þess, að sjómannsstarfið sé það vel launað„ að nægilega margir menn fáist til að stunda það.

Ýmis ráð eru fyrir hendi til þess að lækka kostnaðinn við smáútgerðina og hækka þannig hlutinn, og mun ríkisstj. eftir getu stuðla að því. Þegar við höfum fengið betri skip, sem skapa möguleika til meiri afkasta, eða við höfum aukið verksmiðjur okkar, mun okkur verða kleift að senda sjávarafurðir okkar út betur unnar, þannig að þær færi okkur hærri tekjur en nú, og þá verða fiskimennirnir þeir, sem fyrstir eiga tilkall til hækkunar.

Núv. ríkisstj. hefur sett sér hærra mark en nokkur önnur stj. á Íslandi. Hún hefur ákveðið að hefja stórfelldar aðgerðir til þess að umskapa atvinnulífið á Íslandi og stórauka það. Þetta verður hin nýja sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar, sem verður að sameina alla krafta þjóðarinnar um. Það þarf bjartsýni og þor til þess að leggja inn á þessar brautir, og margir eru þeir, sem utan við standa og spá hrakspám. Heill stjórnmálaflokkur hefur neitað að vera með í þessu stóra átaki, og ekki verður annað séð en hann telji það sigur fyrir sig og stefnu sína, að allar hinar djörfu fyrirætlanir stj. mistakist. Ég vil sérstaklega beina því til fylgjenda þess flokks, að þeir eiga eins mikið í húfi og aðrir vinnandi menn í landinu, ef svo skyldi fara, að hrakspárnar rættust, og þá er illa farið fyrir þessa menn að hafa eflt þann flokk, sem stuðlar að slíkum vandræðum. Erfiðleikarnir á framkvæmd fyrirætlana stj. eru nógu margir, þótt heilir flokkar leggi sig ekki fram til þess að auka þá. Erfiðleikarnir eru óteljandi, bæði innan lands og utan, og þeir verða alveg óyfirstíganlegir, ef þjóðin stendur ekki saman sem einn maður í átökunum. Þeir menn og flokkar, sem nú standa álengdar og eru með hrakspár um árangurinn og reyna að bregða fæti fyrir nýsköpunarframkvæmdirnar, gera Íslands ógæfu einu von sína. Ef nýbyggingarfyrirætlanirnar fara út um þúfur, þá fá þessir menn það hrun, sem þeir telja, að sé nauðsynlegt til þess að afla sér fylgis, og íslenzka þjóðin örbirgð og atvinnuleysi, en takist uppbyggingin, þá er tilveru þeirra lokið sem stjórnmálamanna.

Þegar ráðizt er í önnur eins stórvirki og núv.. stj. hefur sett sér að framkvæma, þá er nauðsynlegt, að þjóðin sjálf, allt hið vinnandi fólk, leggi fram alla orku sína og krafta, til þess að fyrirætlanirnar takist. Ef ríkisstj. nýtur ekki fulls. stuðnings þjóðarinnar, ekki einasta í orði, heldur og í verki, þá er með öllu vonlaust, að fyrirætlanirnar takist. Þessi stj. er ekki mynduð til að deila við einhverja stjórnarandstöðu um það, hvort þessi eða þessi eða hinn á að fá að flytja inn bíla. Ríkisstj. er forusta fyrir alþjóðarsamtökum um það að reyna að hrinda atvinnulífinu á Íslandi á nokkrum árum svo fram á við, að öllum Íslendingum sé tryggð góð afkoma. Þetta verður þjóðin að skilja til fulls. Hver einasti einstaklingur þjóðarinnar verður að leggja niður fyrir sér: Hvað get ég gert til þess að leggja fram minn skerf til nýbyggingarinnar? Hvert einasta byggðarlag í landinu þarf að taka atvinnumálin til athugunar. Hreppsnefndirnar og bæjarstjórnirnar þurfa að láta athuga gaumgæfilega hver hjá sér, hvaða þátt viðkomandi staður getur tekið í atvinnuuppbyggingunni. Þær þurfa að athuga, hvað gera þarf til að koma í veg fyrir atvinnuleysi hver hjá sér. Verkalýðsfélögin þyrftu líka hvert á sínum stað að taka þátt í þessu starfi og leggja fram sinn skerf. Stj. þurfa að berast vísbendingar og kröfur um atvinnutæki fyrir hina ýmsu staði. Það, sem fyrst þarf að athuga, er hve mörg skip þurfi á hvern stað, af hvaða stærð þau eigi að vera, hvers konar verksmiðjur eða atvinnutæki sé þörf fyrir til vinnslu sjávarafurða, hvaða hafnarframkvæmdir þurfi o.s.frv. Hver bæjarstjórn, hver hreppsnefnd, hvert verkalýðsfélag, hver einstaklingur þarf að hafa frumkvæði og þor til að leggja út í nýbyggingarframkvæmdirnar. Sumar bæjarstjórnir eru þegar byrjaðar að útvega sér skip, sem þær ætla að láta gera út frá sínum bæ. Þetta er aðeins byrjun, fleiri þurfa á eftir að koma. Samstarf við þjóðina og samtök hennar, hverju nafni sem þau nefnast, bara ef þau vilja taka þátt í hinu nýja landnámi, er ríkisstj. bráðnauðsynlegt, ef vel á að takast.

Almenningur í sveitum er mjög undrandi yfir því, að Framsfl. skuli vera utan við stjórnarsamstarfið. Fólk í bæjum og þorpum við sjó er ekki eins hissa. Það hefur fyrir löngu fundið, hve Framsfl. lætur sér velgengni sjávarútvegsins í léttu rúmi liggja. En vegna hinnar miklu undrunar sveitafólksins yfir þessu tiltæki Framsfl. vil ég ekki láta hjá líða að fara um þetta nokkrum orðum og skýra þá jafnframt frá því, hvaða áhrif þetta getur haft fyrir þróun atvinnulífsins í sveitunum.

Svo sem kunnugt er, eru allir þm. Framsóknar og fimm þm. Sjálfstfl. úr sveitakjördæmum í stjórnarandstöðu. Það má því segja, að yfirgnæfandi meiri hluti af fulltrúum bænda á Alþingi sé andvígur stj. Það er nú að vísu svo, að þótt svo heiti, að fimmmenningarnir svo kölluðu séu sjálfstæðismenn, en ekki framsóknarmenn, þá ganga þeir yfirleitt með Framsókn til allra mála, og verður ekki á milli séð um stefnumálin.

Framsfl. hefur ráðið stjórnarstefnunni á Íslandi því nær óslitið frá því 1927. Hann hefur frá upphafi beint athygli sinni sérstaklega að landbúnaðinum, enda haft mestallt fylgi sitt í sveitum. Hann hefur sett sér það mark að stöðva strauminn úr sveitunum og litið sjávarútveg okkar óhýru auga fyrir það, að hann dragi fólkið úr sveitunum, og hann hefur reynt eftir mætti að setja fótinn fyrir þann atvinnuveg. En vegna þessarar viðleitni Framsfl., að streitast á móti eðlilegri þróun atvinnuveganna á Íslandi, hefur hann algerlega tengt tilveru sína íslenzka landbúnaðinum og það meira að segja í því ófullkomna ástandi, sem hann nú er í. Nú er svo komið, að Framsfl. ekki einasta streitist á móti framförum í sjávarútvegi, heldur er hann nú farinn að leggja sig fram til þess að viðhalda þeim dreifbýlisbúskap í sveitunum, sem ríkt hefur frá öndverðu og gerir íslenzkum landbúnaði ókleift eða a.m.k. illkleift að hagnýta sér nútímaþægindi.

Framsókn hóf stjórnarframkvæmdir sínar 1927, hvað landbúnaðinn snerti, með því að leggja út í hina svo kölluðu styrkjapólitík. Þegar kreppan skall yfir 1931 og 1932, færði Framsókn sig upp á skaftið og kom á afurðasölulögunum. Með þeim l. er farið inn á nýja braut í íslenzkum landbúnaði. Með þeim er gripið inn í sjálfa þjóðfélagsvélina. Verðið er ákveðið með l. og þannig útilokað, að verðlagið geti knúið fram atvinnuþróun í þessum atvinnuvegi. Íslenzkur sjávarútvegur þarf, hvað snertir allan útbúnað, skip og vélar, að vera samkeppnisfær við sjávarútveg annarra landa, vegna þess að annars getur hann ekki selt afurðir sínar með kostnaðarverði. Þannig verður verðið í markaðslöndunum svipa, sem keyrir áfram framfarir í sjávarútveginum. Sá, sem hlýðir ekki og hagnýtir sér nýjungarnar, getur ekki selt afurðir sínar fyrir kostnaðarverð og verður að hætta atvinnurekstrinum. Með afurðasölul. er landbúnaðurinn losaður undan þeim örvandi áhrifum afurðaverðsins, sem nýtur sín, ef um frjálsa verðmyndun er að ræða. Þetta hefði allt getað verið gott og blessað, ef framsóknarmennirnir hefðu aðeins vitað, hvað þeir voru að gera, og lagt þegar í stórfelldar aðgerðir með opinberri aðstoð til þess að auka vinnuafköstin í sveitunum og lækka verð á afurðunum. Með því að beita opinberum aðgerðum til þess að ýta undir bændur um að bæta vinnuaðferðirnar og hagnýta meiri vélar, var hægt að vinna sama verk og frjáls verðmyndun hefði annars gert. Afurðasölul. bættu hag bænda í bili, en þau áhrif þeirra að draga úr þörfinni fyrir frekari hagnýtingu vélaafls hefur orðið til þess, að íslenzkur landbúnaður stendur nú frammi fyrir miklu erfiðari vandamálum en þá er afurðasölul. voru sett. Á undanförnum stríðsárum er svo komið fyrir landbúnaðinum, að árlega hefur þurft að greiða tugi millj. kr. í uppbætur og styrki og svo kölluð niðurkaup á verði landbúnaðarafurða, til þess að bændur gætu lifað þolanlegu lífi. Með samkomulagi sex manna n. var gerð tilraun til þess að samræma kjör bænda og verkamanna. Það, sem sex manna n. leiddi í ljós, var það, að íslenzkur landbúnaður hefur á undanförnum árum sáralitlum framförum tekið, og ef bændur eiga að búa við svipuð lífskjör og verkafólk í bæjum, þá þarf verðlagið á afurðum þeirra að vera það hátt, að hætta er á, að það geri okkur lítt færa um að selja sjávarafurðir okkar á erlendum markaði samkeppnisfæru verði.

Forystumenn bænda, einkum Framsóknarþm. og fimmmenningarnir, segja bændum, að hið háa verðlag á landbúnaðarafurðum orsakist af hinu háa kaupgjaldi. Þetta eru blekkingar. Kaupgjaldið er hjá flestum bændum sáralítill liður og gæti verið miklu lægri, ef bændur gætu látið vinnumönnum sínum stórvirkari vélar í té. Öllum er ljóst, að ekki verður hægt að halda áfram milljónagreiðslum óendanlega.

Nei, það verður ekki komizt fram hjá þeirri staðreynd, að íslenzkur landbúnaður verður að hagnýta sér afl véla betur en orðið er, ef ekki á að stefna til hruns. Skoðun mín er sú, að vélarnar séu ekki einhlítar. Það verður að færa saman byggðirnar, til þess að hægt sé að nota stórvirkar vélar á samfelldu landi, brjóta landið samtímis fyrir tuttugu bændur, í stað þess að vinna með vélunum nokkra tíma eða daga á hverjum stað og eyða svo öðrum eins tíma í að flytja þær á milli. Það þarf að snúa baki við dreifbýlisstefnunni í íslenzkum landbúnaði. Það verður að byggja jarðirnar þannig, að handhægt sé að nota vélarnar, en það verður aldrei, meðan við búum við dreifbýli.

Nú munu margir segja: Er það ekki ætlun stj. að hefja nýsköpun í landbúnaði? Gert er ráð fyrir, að allmikið fé fari til uppbyggingar landbúnaðarins. Þó er gert ráð fyrir að halda áfram uppbótargreiðslum fram til 15. sept. næstkomandi. Það er ákveðið að greiða uppbætur og greiða niður verð innan lands fram til 15. sept. 1945. Talið er, að þetta nemi 18 millj. kr., og þetta urðum við sósíalistar að sætta okkur við, til þess að hægt yrði að mynda stj. Ekkert samkomulag náðist um uppbyggingu landbúnaðarins, vegna þess að fulltrúar bændanna vel flestir skárust úr leik og vildu ekki vera með í þeirri uppbyggingu, sem fyrirhuguð er. Uppbygging landbúnaðarins og nýsköpun verður ekki framkvæmd í trássi við bændur sjálfa eða samtök þeirra og fulltrúa. Þið skuluð hugleiða það, bændur. Það er þó öllum kunnugt, að atvinnuleg nýsköpun er óhjákvæmileg nauðsyn fyrir íslenzka landbúnaðinn, ef ekki á að stefna til hruns.

Framsóknarmenn og fimmmenningarnir á þingi hafa lagt fram nokkur frv. í landbúnaðarmálum. Í þeim frv. örlar ekki á nokkrum framförum. Þar er farin sama slóðin og áður og sama kákið, og það er fyrirsjáanlegt, að enginn árangur verður, þótt þessi frv. yrðu gerð að l.

Nei, bændur. Þið verðið að taka þessi mál af núv. umbjóðendum ykkar á þingi, þeim, sem nú telja sér skylt að hindra framfarir í atvinnulífi Íslendinga. Þið verðið að taka málin í eigin hendur. Ég fullyrði, að hjá núv. ríkisstj. ríki skilningur á erfiðleikum bænda, en ef nokkuð á að vera hægt að gera, þá verða bændur sjálfir að vera fúsir til samstarfs.