26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (5890)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. 2. þm. N.-M. Það var hv. 2. þm. Rang., sem greip fram í og spurði, hvernig húsakostur væri á Reykhólum. En þegar ég ræddi um húsakost á því höfuðbóli, þar sem fólkið verður að flytja sig úr einu herbergi í annað eftir áttum, átti ég ekki við Reykhóla. Sú eign er lengi búin að vera í eigu ríkissjóðs, og ríkissjóður hefur ekki í 10–20 ár rausnazt til að hlúa að hinu stóra og góða steinhúsi, sem einu sinni var þar byggt. Ég get sagt, hvaða jörð þetta er. Það er Breiðavík í Rauðasandshreppi, og hv. þm. getur sjálfur farið þangað til að kynna sér, hvernig þau húsakynni eru. (PZ: Ég hef komið þangað.)

Ég get líka sagt þessum hv. þm., að ég hef komið á fleiri ríkisjarðir í Barðastrandarsýslu, þar sem svipað er ástatt eða jafnvel enn þá verr en á þessu höfuðbóli. Hefur einatt verið kvartað undan þessum húsakynnum og oft beðið um fé, en ávallt verið neitað.

Mér fyndist því réttmætt, að eitthvað væri gert til að bæta fyrir þær syndir, sem ríkisstj. á hverjum tíma gerir sig seka um gagnvart ábúendum sínum. Þessi stefna hefur mjög verið rekin af Framsfl. og á þann hátt, að engum mundi líðast það öðrum en ríkinu.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að Þórustaðir væru inni á milli annarra jarða ríkisins. Það hefur nú verið upplýst af hv. 2. þm. N.-M., að þeir eru aðeins í jaðrinum. Og ef það á að vera stefna að kaupa allar jarðir, sem eru í jaðrinum og ríkissjóður hefur keypt, má alltaf halda áfram.