28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í D-deild Alþingistíðinda. (5902)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Ég skal vera stuttorður. Hér fyrir nokkru voru veittar 2 millj. kr. til stuðnings nýbyggingu fiskiflotans. Þessum peningum var úthlutað af Fiskveiðasjóði Íslands eftir till. Fiskifélagsins og fiskimálan., og var þetta fé notað jöfnum höndum til þess að styðja smíði báta af öllum stærðum. Síðan voru veittar 5 millj. kr. úr framkvæmdasjóði, og var þá sett sérstök löggjöf um það, hvernig styðja skyldi smíði báta. Í þeirri löggjöf var ekkert tekið fram um stærð skipa eða fiskiskipa, heldur aðeins samþ. ákvæði um það, hvernig styrkurinn yrði greiddur.

Nú hef ég og fleiri orðið þess varir, að n., sem kosin var til þess að úthluta þessu fé, muni sennilega líta svo á, að það sé kannske tæplega heimilt að styrkja eða styðja smíði smábáta af þessu fé. En það er skoðun okkar, sem flytjum þessa þáltill., að það hafi verið ætlunin með setningu löggjafarinnar um styrkúthlutunina, að ekki væri á neinn hátt útilokað að styðja smíði smábáta, þ. e. opinna vélbáta. Fiskifélag Íslands hefur lagt til, að smíði opinna vélbáta væri studd með lánveitingu, eins og smíði stærri báta. En n., sem ræður yfir þessu fé, hefur ekki fallizt á þessa skoðun. Nú er það skoðun okkar, að það eigi að veita af þessu fé til þess að styðja smíði opinna vélbáta, og þess vegna förum við fram á, að hæstv. Alþ. láti uppi skoðun sína um það, hvernig það telur heppilegt að haga þessum framkvæmdum.

Ég hef orðið var við það, að n. hefur haft áhuga á því, að fiskveiðasjóður tæki að sér að lána út á opna vélbáta. Það mætti náttúrlega út af fyrir sig takast, að fiskveiðasjóður hefði það með höndum, eftir l., eins og þau eru um fiskveiðasjóð, en þá er þess að gæta, að lán úr fiskveiðasjóði, þótt veitt væru, eru allt annars eðlis en lán, sem veitast eiga úr styrktar- og lánasjóði fiskiskipa, sem hugsuð eru þannig, að ekki komi til mála, að reksturinn verði stöðvaður þess vegna. Og þess vegna eru þau lán veitt með sérstökum hætti. Við viljum, að hér gangi hið sama yfir hina smærri og stærri báta. Auk þess er þetta lítið fjárhagslegt atriði fyrir sjóðinn, því að fjárhæðin, sem hver fengi, yrði mjög lág, þannig að sú fjárhæð, sem veitt væri til 20–25 lítilla báta, færi í einn stóran bát. Með þessari breyt. yrði þess vegna ekki þrengt neitt að smíði stærri báta.

Það er á einstöku stöðum, sem þannig hagar til, að heppilegt er að hafa litla opna vélbáta til veiða, sem ég veit, að öllum hv. þm. er kunnugt um.

Nú er ákaflega áliðið þings, og hér er náttúrlega um einfalt mál að ræða. Ég geri ekki till. um n., en beiti mér ekki á móti því, að málið fari til allshn., ef einhverjum þætti það nauðsynlegt, en þó með því móti, að samkomulag sé um það, að n. skili áliti a. m. k. fyrir síðasta fund sameinaðs þings, og ekki verði tafið fyrir málinu, svo að það geti komið til atkv. með einhverju móti. Um þetta ætti að geta verið samkomulag, ef mönnum sýnist, að málið fari í n.