02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í D-deild Alþingistíðinda. (5909)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Garðar Þorsteinsson:

Þessi till. gengur út á það, að Alþ. lýsi yfir skilningi sínum á l. nr. 9 frá 1944, sem eru um stuðning við fiskiskip. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að þál. geta ekki breytt l., en þm. hafa þó fullan rétt til og Alþ. að lýsa yfir ákveðnum skilningi á l., sem sameinað Alþ. hefur látið frá sér fara. Það hefur komið fram, að þessi till. er borin fram af illri nauðsyn. Það hefur upplýstst, að n., sem hafði með þetta mál að gera, hefur lýst því yfir, að hún vildi ekki skilja l. þannig, að styrkur væri veittur til opinna vélbáta, og hv. þm. Barð. hefur sagt, að hann gæti ekki skilið l. á þann veg.

En ég vil benda á það, að þessi l. hafa jafnt gengið út yfir báta og skip, og ég veit ekki til, að þessi l. eða önnur hafi takmarkað báta og skip við neina sérstaka stærð. Að vísu er ákveðið í l., t. d. með þinglýsingu, hve stórir bátar þurfi að vera til þess, að þeir færist sem fasteign. En það, sem er aðalatriðið frá bæjardyrum hv. þm. Barð., er, að það sé rangt að styðja byggingu þessara báta.

Þess vegna er það ekki að ástæðulausu, að Alþ. láti í ljós skilning sinn á því, hvernig beri að skilja þessi l. Öllum er ljóst, að það er ekki lítils virði fyrir útgerðarmenn þessa lands, að bátarnir njóti styrks, sem er óafturkræfur. Ég vil ekki sem umboðsmaður útgerðarmanna, sem stunda veiðar á litlum bátum, vinna að því, að ein n. taki sér það vald að skilja l. eftir því, sem henni þóknast. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt, að þetta mál nái fram að ganga, og hefði þá sú n., sem úthlutar þessum styrkjum, fulla vissu um það, hvaða skilning Alþ. hefur á þessum l. Hv. þm. Barð. var að tala um framtöl. Hann sagði, að það yrði að senda betri rekstraryfirlit og taldi, að þau væru óheppileg vegna þess að í þeim kæmi margt fram, sem ekki kæmi rekstri bátanna við. Þetta er út af fyrir sig rétt. En ég vil benda hv. þm. á 10. gr. l. Þar segir svo:

„Þeir, sem njóta styrks eða lána samkv. lögum þessum, skulu skyldir að láta reikningaskrifstofu sjávarútvegsins í té reikninga yfir rekstur skipanna í því formi, er reikningaskrifstofan ákveður.“

Ég er þess fullviss, að þegar Alþ. fól mþm. að veita þetta fé, þá hefur það ætlazt til, að allir nytu þar sama réttar, og ég vil ekki una því, að ein nefnd taki sér slíkt vald að veita þetta í eftir eigin geðþótta.