02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í D-deild Alþingistíðinda. (5913)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Einar Olgeirsson (frh.):

Í fyrri hluta ræðu minnar benti ég á, hve miklu meiri afli fæst á hvern háseta á stærri bátunum en þeim smærri. Á vélbátum, sem ná upp undir 35 tonn, eru afköst á mann nokkurn veginn tvöföld á við það, sem er á opnu bátunum.

Með þessari þáltill. á að breyta eldri skilningi á l. um stuðning til nýbyggingar fiskiskipa. Það er undarleg aðferð að reyna þannig að breyta raunverulegum lagaákvæðum, en gera þó ekki formlega lagabreytingu, og það er ljóst, að þáltill. stríðir algerlega gegn anda laganna. Þál. breytir ekki lögum. Í 7. gr. l. er alveg skýlaust, að átt er við stuðning stærri skipa en í þáltill., enda vissu allir, að gengið var út frá því. Og skyldu þau skip gerð eftir teikningum, sem atvmrn. samþykkti, en um opna báta mundi það varla þannig skorðað. Í 5. gr. kemur einnig í ljós, að alltaf er í l. gengið út frá stærri fiskiskipum. Tilgangurinn var, að sem allra flestir sjómenn okkar gætu fengið 50–80 tonna skip. Hitt er annað mál, að styðja þarf fiskimenn á einstöku hafnleysustöðum, þar sem ekki er hægt að hafa þessa skipastærð, til þess að koma upp smærri bátum og þ. á m. trillubátum. En því var yfir lýst, að þeim stæði opið að fá lán úr fiskveiðasjóði. Það er því alger þarfleysa að samþ. þáltill. Og hún er andstæð l., andstæð þingviljanum, eins og hann var, þegar l. voru sett, andstæð þróuninni í útvegsmálum okkar, — hverjum er þá hjálp í því að samþ. hana?

Ef till. þykir samt sem áður einhvers verð, þarf að minnsta kosti að athuga hana í n., og legg ég til fyrir mitt leyti, að henni verði vísað til allshn.