02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í D-deild Alþingistíðinda. (5914)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður. En það eru í fyrsta lagi fjögur atriði, sem ég verð að mótmæla.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að till. væri borin fram af illri nauðsyn. Í rauninni er málið flutt inn í þ. fyrir einskæran misskilning á málinu í heild. Þegar rætt var í n., hvort veita ætti lán til opinna vélbáta, gátu 4 nm. ekki fengið þann skilning inn í l., að til þess væri ætlazt. Þá hélt n. fund með framkvæmdastjóra fiskveiðasjóðs, og fékkst það samkomulag, að hann tæki að sér að fullnægja þessari þörf með lánum úr lánadeild sjóðsins, sem lánar e. t. v. með nokkru hagkvæmari kjörum fyrir smábátaeigendur. Lánin eru afborganalaus fyrstu 5 árin, veitt til 10 ára. En úr þessum sjóði, sem hér er deilt um, er ekki hægt að veita lán, nema fá fyrstu afborgun strax árið eftir. Þetta gerir þann mun, að þrátt fyrir nokkru erfiðari vaxtakjör verða lánin úr fiskveiðasjóði smábátaeigendum mun hentugri en hin. N. hefur því alveg leyst þetta spursmál, svo að hreinn óþarfi er að samþ. till. Þar með hef ég fullsvarað öllum ásökunum, sem hér hafa fallið til mín um fjandskap við smábátaútgerðina, enda mega menn vita, að þær ásakanir voru tilhæfulausar. Að öðru leyti mótmæli ég því, að ég hafi sagt nokkuð um það, hvort heppilegt væri að styðja smábátaútveginn á Íslandi eða ekki. Ég hef ekki gefið neina yfirlýsingu um það, eins og hv. 2. þm. Eyf. hélt fram. Ég skýrði aðeins frá skilyrðum n. Það var 7. þm. Reykv., sem gaf slíka yfirlýsingu, en hann gerði það ekki fyrir minn munn. Ég vil eindregið mótmæla því, að n. hafi úthlutað þessu fé af handahófi. Það undrar mig, að nokkur þm. skuli láta slíkt út úr sér, án þess að athuga, hvað hann er að segja. Það er hvorki meira né minna en það, að úthlutað hafi verið 5 millj. kr. af handahófi. Þetta eru stór orð. Og ég get ekki undir neinum kringumstæðum látið þeim ómótmælt. N. athugaði hverja beiðni rækilega, og engin beiðni var veitt, fyrr en hún hafði verið samþ. af Fiskifélagi Íslands. Og ef þetta fé hefur verið veitt af handahófi, þá ber einnig stjórn Fiskifélagsins ábyrgð á því, en í henni eiga sæti hv. þm. Borgf. og fyrri þm. S.-M.

Þá vil ég leyfa mér að svara þeim ummælum hv. 7. þm. Reykv., þar sem hann bar á mig, að ég hefði brugðizt skyldu minni í n. Hv. þm. hefur þarna blandað saman tveim óskyldum málum og byggði á því alla ræðu sína. Ef hann hefði munað rétt, hefði hann getað sparað sér öll ummælin. Hann er að blanda saman umr., sem fóru fram, þegar fyrir lá frv. til l. um breyt. á l. um fiskveiðasjóð árið 1943. Þá voru veittar 2 millj. kr. í sérstakan sjóð við fiskveiðasjóð, en hann er styrktardeild við fiskveiðasjóð, síðan á ? af öllu útflutningsgjaldi að renna í sjóðinn, meðan l. standa óbreytt. Mun það nema 1 millj. kr. á ári. Átök urðu um það hér á Alþ., hvort gefa ætti féð eða lána það. Ég er mótfallinn því, að féð sé gefið. Ég er ekki mótfallinn því af fjandskap við útgerðina. Það er skoðun mín, að miklu lengur sé hægt að hafa not af sjóðnum, ef lánað er út úr honum, því að þá kemur féð aftur inn í sjóðinn. Ef féð getur komið í sjóðinn, þá ætti það að koma úr þeim fyrirtækjum, sem það er lánað til. Ef féð er gefið, kemur það aldrei aftur. Um þetta urðu átök á Alþ. 1943. Þá varð að samkomulagi á þinginu, að látnar skyldu sem styrkir 2 millj. kr., en lán allt, sem kæmi inn í sjóðinn með útflutningsgjaldinu. Það er það fé, sem lánadeild fiskveiðasjóðs hefur upp á að hlaupa á hverjum tíma. Nú stendur í l., að styrkja eða lána beri til þessara báta. Og það er það, sem n. telur sig hafa haft heimild til að gera, þ. e. að ákveða, hvort veitt væri lán eða styrkur. Og hún hefur ákveðið með flestum atkvæðum, að féð væri ekki gefið, aðeins lánað. Ég skal viðurkenna, að þetta er mótfallið till. fiskveiðafél., sem vildi, að féð væri bæði lánað og veitt sem styrkur. Ég veit, að hv. þm. Borgf. og 7. þm. Reykv. hafa alltaf viljað, að þetta væri gjöf. Og ég gæti sagt hv. þm. Borgf., ef hann væri hér, að það er einungis vegna þess, að hann hefur haft aðstöðu til að nota féð til síns kjördæmis. Ég óska, að hann vildi leggja fram lista yfir þá menn, sem fengu gjafir 1943 úr þessum 2 millj. Það er ekki mikið fé, sem farið hefur út fyrir Faxaflóa. Ég man eftir öðru máli, l. um hafnarbótasjóð, sem hv. þm. barðist mjög fyrir, því að þau voru fyrir hagsmuni Akraness. En hv. þm. mun komast að raun um, að aðrir hafa réttara fyrir sér en hann, ef ætlunin er, að sjóðurinn eigi að verða landinu til gagns um lengri tíma. Það er alveg óþarfi fyrir hann að segja, að ég vilji koma mér hjá því að bera þær skyldur, sem mér voru lagðar á herðar í n. Ég hef hagað mér í n. eins og ég sagði mínum flokksmönnum, að ég mundi gera, áður en ég var skipaður í hana. Og ég hef margboðizt til að víkja úr n. Ég álít það útveginum til miska, ef féð er gefið í staðinn fyrir lánað. En það er munur fyrir einstaka menn að fá féð gefið eða lánað.

Ég tel, að málið breytist lítið, hvort sem till. er samþ. eða ekki. Það er búið að veita öllu fé úr sjóðnum nú. Ég veit ekki um það, hvort n. kann að fá meira fé. Það er ákveðið í fjárl., að verja skuli til fiskiskipastóls landsmanna 5 millj. kr. 1945. En þess ber að gæta, að ekki er víst, að n. fái þetta fé til úthlutunar, og ekki er víst, að féð verði fyrir hendi, nema ef lán er tekið til að uppfylla skilyrðið. Og það hefði verið miklu eðlilegra, að þessir hv. þm. hefðu komið með brtt. við það mál, látið þessar 5 millj. kr. ganga í styrki eða lán til smáútvegsins. Þetta er hugsanlegur möguleiki.

Ég vil svo að endingu leyfa mér að geta þess, að aðalrökin fyrir því, að n. treysti sér ekki til þess að lána eða styrkja trillubáta, eru þau, að þeir eru ekki eins vel veðhæfir og aðrir bátar. Þeir eru ekki skrásettir. Það er hægt að flytja þá til, án þess að nokkur maður viti, hvert þeir fara, eins og húsgögn.

Ég vil lýsa yfir því fyrir mína hönd, að ég mun ekki breyta afstöðu minni í n., hvort sem till. er samþ. eða ekki. Hún getur ekki lagt þær skyldur á herðar nm. að skilja l. öðruvísi en þeir eru menn til þess að skilja þau. Það er því sama, hvort till. er samþ. eða ekki.