26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í D-deild Alþingistíðinda. (5941)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Síðan þessi till. á þskj. 254 var fram borin, hafa ýmsir atburðir gerzt, og eins og hv. þm. öllum er kunnugt, hafa síðan orðið stjórnarskipti. Og í stefnuyfirlýsingu hæstv. núv. ríkisstj., sem gerð er af flokkum þeim, sem að henni standa, er fram tekið það, sem ég nú skal lesa með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið, að hafin verði nú þegar endurskoðun stjórnarskrárinnar, með það m. a. fyrir augum, að sett verði ótvíræð ákvæði um réttindi allra þegna þjóðfélagsins til atvinnu eða þess framfæris, sem tryggingarlöggjöfin ákveður, félagslegs öryggis, almennrar menntunar og jafns kosningaréttar.

Auk þess verði sett þar skýr fyrirmæli um verndun og eflingu lýðræðisins og um varnir gegn þeim öflum, sem vilja vinna gegn því. Endurskoðun þessari verði lokið svo fljótt, að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi áður en kosningar fara fram og eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar, og leggur stjórnin og flokkar þeir, er að henni standa, kapp á, að frumvarp þetta verði endursamþykkt á Alþingi að afloknum kosningum.

Stjórnin beitir sér fyrir, að sett verði nefnd, skipuð fulltrúum frá ýmsum almennum samtökum, stjórnarskrárnefnd til ráðgjafar.“

Eins og hv. þm. mega greina af þessum upplestri, þá er megnið af efnismálsgr. þáltill. tekið upp í stefnuskrá hæstv. ríkisstj. Og sú brtt., sem meiri hl. skilnaðarn. flytur á þskj. 1186, er til framkvæmda á þessu samkomulagsatriði. En þar, í brtt., er lagt til, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að skipa tólf manna n., þrjá eftir tilnefningu hvers þingflokks, sem verði mþn. í stjórnarskrármálinu til aðstoðar og ráðgjafar.

Ég skal geta þess, að gengið er út frá því, að flokkarnir gæti þess við tilnefningu í n. að haga tilnefningunni þannig, að sem flest sjónarmið eigi sinn málsvara í n. Enn fremur er lagt til í brtt., að stjskrn. sé heimilað með samþykki ríkisstj. að ráða sérfróðan mann til öflunar gagna og undirbúnings málsins. Það þykir sýnt, að til þess að svo verði vandað til þessara vinnubragða sem nauðsyn er, verði óhjákvæmilegt að ráða mann til þess að afla gagna og kynna sér stjórnarskrárákvæði annarra ríkja og þær stefnur, sem helzt eru uppi um það, hversu tryggja skuli réttindi einstaklingsins í þjóðfélaginu og rétt þjóðfélagsheildarinnar í sjálfri stjskr. — Með tilvísun til þessa er það, að meiri, hl. n. leggur til, að brtt. á þskj. 1186 verði samþ. í stað þeirrar orðunar, sem er á henni á þskj. 254.