26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (5942)

79. mál, endurskoðun stjórnskipunarlaga

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. — Hv. frsm. meiri hl. n. hefur nú lýst að nokkru meðferð þessa máls í skilnaðarn., og tel ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.

Eins og till. var upphaflega um þetta mál, fer hún fyrst fram á, að bætt sé í mþn. um endurskoðun stjórnskipunarl. 10 mönnum. Meiri hl. skilnaðarn. hefur hins vegar komið fram með brtt. við þetta, sem hann ber nú fram hér á hæstv. Alþ., um að þessu verði breytt þann veg, að skipuð verði nú n. til endurskoðunar stjórnskipunarl. eða réttara sagt til aðstoðar og ráðgjafar við þá endurskoðun.

Við, sem skipum minni hl. n., höfum skilað áliti á þskj. 1237, þar sem við getum á það fallizt, að eitthvað verði fjölgað í þeirri n., sem nú situr, sem er skipuð 8 mönnum og hafði áður til meðferðar þá stjórnlagabreyt., sem framkvæmd var, og er þannig skipuð, að tveir menn eru tilnefndir af hverjum flokki. Þó að við teljum það ekki mjög nauðsynlegt, að í n. verði fjölgað, getum við á það sjónarmið fallizt hjá hv. flm. þáltill., að það margra sjónarmiða sé að gæta í þessu sambandi, að ekki sé óeðlilegt, þó að lítilsháttar væri fjölgað í þessari n. Höfum við því lagt til, að fjórum mönnum verði bætt við í n., þannig að einn sé tilnefndur af hverjum þingfl. Hins vegar álítum við það síður en svo til bóta, að skipuð sé önnur n., fjölmenn n., við hliðina á þeirri fjölmennu n., sem fyrir er, til þess að hafa með höndum endurskoðun á hinu sama máli. Og það mun vera algert einsdæmi, að tvær mþn. séu skipaðar til þess að hafa til meðferðar undirbúning á hinu sama máli, og það svo fjölmennar mþn. eins og hér er farið fram á, að önnur sé skipuð átta mönnum og hin tólf mönnum, eða báðar tuttugu mönnum samtals. Það er vitanlegt, að þetta getur ekki orðið til þess að bæta vinnubrögð í n., að þarna séu skipaðir tveir aðilar, sem eigi að framkvæma þessa endurskoðun, og getur það vitanlega valdið margvíslegum árekstrum. Væri skömm skárra að hafa þetta eina n. og þá svo fjölmenna sem hér er farið fram á, þannig að samstarf gæti verið milli allra þessara manna í n., sem eiga að framkvæma hið sama verk, heldur en að skipa mönnum þessum í tvær deildir til þess að framkvæma þetta. Það hefur hingað til þótt mjög til tafar að hafa n. fjölmennari heldur en nauðsyn ber til. Og vitanlega er þó miklu fráleitara að skipa þeim í tvær n., sem mætti hugsa sér, að væru settar svo að segja hvor annarri til höfuðs í þessum efnum. — Ef það væri vegna þess, að þeirri skipun, sem nú er á mþn. til endurskoðunar stjórnskipunarl., væri þannig háttað, að það væri talin nauðsyn að fá fulltrúa fyrir einhver fleiri sjónarmið í n. við þessa endurskoðun, virðist okkur sjálfsagt og einhlítt, að þá ætti að bæta einhverjum starfskröftum við n. sjálfa, en ekki skipa aðra n. til ráðagerðar og aðstoðar, sem í raun og veru hefur ekkert úrskurðarvald í þessum efnum. Við höfum því borið fram þessa brtt. á þskj. 1237 um að bæta við fjórum mönnum í n., og verður hún þá skipuð 12 mönnum alls.

Þá virðist það vera nokkur mótsögn í brtt. hv. meiri hl. n., þar sem segir í 2. lið þeirrar brtt., að stjskrn. sé heimilað „með samþykki ríkisstjórnarinnar“ að ráða sérfróðan mann til öflunar gagna og undirbúnings málsins. Því að það er ekki annað vitað en mþn. sé jafnan heimilt, án nokkurrar samþykktar frá ríkisstj. hálfu, að ráða menn sér til aðstoðar til þess að leysa þau verkefni, sem þær hafa með höndum, án þess það sé til tekið í þál., sem n. eru skipaðar samkvæmt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að svo komnu máli, en vænti þess, að hæstv. Alþ. geti á það fallizt, að miklu hentugra fyrirkomulag sé það, sem við í minni hl. n. leggjum til í þessu efni.