25.10.1944
Sameinað þing: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í D-deild Alþingistíðinda. (5962)

176. mál, vantraust á núverandi ríkisstjórn

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þegar núverandi stj. var tilkynnt á Alþ. s. l. laugardag, var upplýst, að þrjátíu og tveir þm. styddu stj. Elzti þm. þessa hóps flutti ríkisstj. einkar hlýja kveðju og lýsti skilningi stuðningsmanna hennar á þeim vanda, sem hennar biði, og vilja stuðningsmannanna til að greiða götu stj. í hvívetna og að standa sem fastast með henni. Formaður þingflokks Framsfl. lýsti í hóflegri ræðu afstöðu Framsfl. og kvað flokkinn vantrúaðan á, að stj. fengi leyst þann vanda, sem hún hefði sér á herðar lagt. Hv. 2. þm. Skagf. lýsti yfir f. h. fimm nafngreindra þm. úr Sjálfstfl., að þeir bæru ekki ábyrgð á stj. og hefðu óbundnar hendur gagnvart henni. Með þessu var dregin upp alveg skýr og ótvíræð mynd af afstöðu Alþ. til stj. Ég veit ekki til, að það svo mikið sem leiki grunur á, að nokkur hlutur hafi breytzt í þessum efnum. Samt sem áður er nú borin hér fram af hv. þm. S.-Þ. vantrauststill. þegar á 3. eða 4. degi ríkisstj. — Allir hv. alþm. og raunar þjóðin öll skilur, að þetta hlýtur að vera gert fyrst og fremst í þeim tilgangi að nota útvarpið til flutnings á hinni löngu, en ekki að sama skapi sannsöglu grg. þáltill. og til þess að reyna að nota Alþ. sem vettvang illvígra deilna, gersamlega að ástæðulausu.

Ríkisstj. veit, að þjóðin hefur fengið alveg nóg af deilum í bili. Ríkisstj. veit, að Alþ. réttir nú ekki hlut sinn með rifrildi, heldur með jákvæðum aðgerðum. Ríkisstj. vill þess vegna engan stuðning veita hv. flm. þessarar vantrauststill. í fyrrgreindum ásetningi hans og lætur sig engu skipta ádeilur hans og rökvillur.

Ég skal þó aðeins leyfa mér með tveim eða þrem setningum, ádeilu- og áreitnislausum, að gereyða hinni löngu ræðu hv. þm. S.-Þ. Ef umbúðunum er svipt af, þá stendur aðeins eftir þessi kjarni:

Í fyrsta lagi: Ríkisstj. ætlar að byggja framleiðslutæki fyrir 300 millj. kr., án þess að tryggt sé eða jafnvel líklegt, að þessi fyrirtæki geti borið sig. Af þessu hlýtur að leiða, segir hv. flm., byltingu og hrun í þjóðfélaginu. — Má ég leyfa mér að minna þennan hv. alþm. á, að hans eigin flokkur gerir um þetta till., sem í því einu að verulegu leyti sýnist víkja frá till. okkar í ríkisstj., að hv. Framsfl. ræðir þar um 460 eða 480 eða 490 millj. kr. í þessu efni í stað 300 millj. kr., sem við ræðum um. Ég vil ráðleggja þessum hv. þm. (JJ) að byrja á því að bera fram svartsýni og gagnrýni innan sinna eigin flokkslegu heimilisveggja í þessum efnum. — Þessi er önnur og kannske aðalhlið hans löngu ræðu.

Hin er, að hann spyr mig: Hvernig getur forsrh. varið það að vinna í bandalagi við sósíalista? Ég skal tala við þennan hv. þm. á máli, sem hann skilur. Ég hef gert bandalag við verri mann en meðráðh. mína nú og sem ég hef minni ástæðu til að treysta en öllum sósíalistum til samans. Og það bandalag hefur blessazt þannig, að það veitir mér sannfæringu um, að það sé skylda mín að gera það bandalag, sem þjóðarnauðsyn býður mér að gera við mína hörðu andstæðinga, sósíalistana. — Ég vona, að þetta nægi til þess að létta áhyggjum af hv. þm. S.-Þ.

Ég vil ekki gera hans stefnu í utanríkismálum að umtalsefni nú, og ég álít ekki rétt af honum að vera með slíkar yfirlýsingar sem hann hefur verið hér með í þeim efnum. Enda hefur það verið venja að tala um utanríkismál í öðrum tón en mál, sem snerta aðeins okkur sjálfa hér í landinu.

Ég þakka fyrir þær áhyggjur, sem hv. þm. S.-Þ. hefur haft vegna mín og míns flokks út af því að ganga til samstarfs við sósíalista í ríkisstj. í sambandi við að geta haldið saman Sjálfstfl. — Ég vona þá líka, að honum takist að halda vel saman þeim flokki, sem hann hefur svo lengi verið formaður í.