10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í D-deild Alþingistíðinda. (5971)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil ekki trúa öðru að óreyndu en að þessar mótbárur hv. þm. N-Ísf. hafi sprottið, eins og vant er, af fljótfærni hans og hvatvísi, en ekki illvilja til málsins.

Hann telur nefndarskipun óþarfa, af því að til sé sérstök mþn. í sjávarútvegsmálum og ekki komi annað til mála en hún leysi þessi vandamál og vinni áður þessar rannsóknir. Það er nú svo. Og til áréttingar þessu hefur hann stóryrði sín og málblóm eins og skrípaleikur, og væri ekki verra fyrir hann að venja sig af slíku í þingræðum.

En ég verð að minna hann á, að mþn. hefur svo mörg og flókin viðfangsefni og þýðingarmikil, að efasamt er, að tími hennar leyfi að sinna þessum sérstöku verkefnum á þessu ári, þótt hún sé þegar búin að halda 51 fund. Og möguleikar hennar til að fá sér aukna starfskrafta eru takmarkaðir.

Í öðru lagi álít ég, að þessi hlutlausa grundvallarrannsókn sé betur komin í höndum hagfræðilegrar, ópólitískrar n. en hinnar pólitísku mþn. Nokkuð svipuð leið var farin í fyrra til að reikna út verðþarfir landbúnaðarins, og má hér styðjast við þá reynslu.

Oft hefur mþn. fengið hagfræðingum verkefni til úrlausnar fyrir sig og það gefið góða raun. En þessi verkefni eru stærri en svo, að hægt sé að heimta þau leyst nema af nm. með óskertri ábyrgð.

Hefði hv. þm. N-Ísf. óskað eftir umbótum á till., sem fyrir liggur, mátti það koma að gagni og koma fram hjá honum skætingslaust. Ég trúi því satt að segja ekki, að hann líti svo smátt á þessi mál, að hann láti sér í augum vaxa, þótt fjórir menn séu settir þar til nauðsynlegra rannsókna. Álíti hann, að það sé of dýrt, finnst mér það lýsa hjá honum óhæfilegri þröngsýni. Og málið er brýnt. Þeir, sem stunda sjávarútveg kringum land, geta ekki snúið við til ástands friðartíma án aðstoðar, sem byggjast verður á þessari rannsókn.