10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í D-deild Alþingistíðinda. (5973)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég skil ósköp vel önuglyndi hv. 2. þm. S-M. út af þeim undirtektum, sem till. hans mætti og hann kennir hvatvísi minni og fljótræði. Honum hefði komið betur, að ekki væri bent á þann leik, sem hann er að leika í þessu máli.

En mér hefði þótt mannlegra af honum að játa, af hverjum ástæðum þessi till. hans er sprottin. Það vita allir og sjá, að till. er ekkert annað en aumlegur eltingaleikur við hv. 6. landsk. (LJós), aumleg tilraun til að líkja eftir þál.hugmynd hans, sem er keppinautur hans í kjördæmi. Hv. 2. þm. S-M. taldi, að mþn. gæti ekki sinnt þessu verki. En henni er a. m. k. skylt að sinna því, hvort sem hún ætlar að gera það eða ekki. Henni var fyrir lagt að starfa að því að endurskoða og gera till. um löggjöf, sem sjávarútveginn varðar. — Varðar kannski verkefni till. sjávarútveginn ekkert? — Einnig skyldi hún athuga, á hvern hátt stuðningi ríkisins við þann atvinnuveg yrði bezt fyrir komið. Getur mönnum blandazt hugur um, að verkefni þessarar n. liggur allt á sviði mþn.?

Þegar mþn. eru skipaðar, kveðja þær auðvitað kunnáttumenn til aðstoðar eftir þörfum. Ég skil vel, að þessi mþn. hefur mikla þörf á því, enda hefur hún gert það. — Í sambandi við ummæli hv. 2. þm. S-M. um verkefni n. yfirleitt má segja, að það sé enginn vandi að finna verkefni fyrir þúsund n., ef menn settu sig út til að grafa upp handa þeim verkefni, og ég veit vel, að þessi hv. þm. er fundvís á þau verkefni. — Um till. hans skal ég ekki fjölyrða. Ég tel sjálfsagt, að hún fái að ganga til n., en fásinna að samþ. hana að mínu áliti.

Hv. 6. landsk. var mér sammála um, að verkefni þessarar n. félli undir verkefni mþn. þeirrar, er nú er starfandi í sjávarútvegsmálum, en taldi sig þó standa á breiðari grundvelli. Ég bendi á, er hann talar um, að þessi mþn. eigi ekki að ræða launakjör sjómanna og útvegsmanna, að ég tel, að hún eigi að fjalla um allt varðandi þann atvinnuveg, og hygg ég, að allir sjái, að launin eru honum ekki óviðkomandi. Auk þess bendi ég á, að þessi mþn. hefur haft til meðferðar tryggingamál sjómanna og útgerðarmanna, og á síðasta þingi voru samþ. l. um hlutatryggingar, er mþn. hefur fjallað um. Og svo á að skipa aðra n. til að vinna að þessum málum. Ég hygg því, að ég hafi sannað, að hv. 6. landsk. hefur með þessari till. sinni seilzt inn á svið þeirrar n., sem hann er sjálfur starfandi í.

Sannleikurinn er sá, að sumir þm. eru eins og haldnir nefndafári, eru eilíflega að peðra úr sér till. um n. og ný útgjöld í sambandi við þær án þess að líta á þörf þjóðfélagsins.

Ég þykist nú hafa fært rök fyrir því, að báðar þessar till. séu ófyrirsynju fram komnar, þar eð verkefni þeirra falla undir verksvið þeirrar mþn., er báðir flm. eru starfandi í.