11.10.1944
Sameinað þing: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (5977)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Ég tel, að þótt hv. frsm. meiri hl. vitni í reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, sem veita eigi upplýsingar, og þótt hann fullyrði, að hún hafi gefið upplýsingar, þá sé langt frá, að það sé rétt, því að hún er ekki farin að fá einn einasta reikning enn, sem ekki er von, því að hún var stofnuð árið sem leið og hefur enn enga fjárveitingu til að vinna fyrir. En þess er að vænta, að hún fái það í fjárl. nú, svo að hún geti farið að vinna á næsta ári. Þegar þessi n. því fer að starfa, getur hún stuðzt við upplýsingar frá henni, líkt og sex manna n. studdist við niðurstöður búreikningaskrifstofunnar. Þess vegna held ég, að hv. frsm. megi athuga sig betur, áður en hann vitnar í upplýsingar, sem liggi fyrir frá þessari skrifstofu, þar sem hún hefur enga reikninga fengið enn.

Ég tel, að þessi rannsókn sé mjög brýn og verði því brýnni sem lengra líður og megi alls ekki dragast. Ég legg því til, að till. verði samþ., en með þeirri breyt., að heimilt sé að veita fé í fjárl. til starfa n., eftir því sem þurfa þykir.