11.10.1944
Sameinað þing: 53. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (5978)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Ég get ekki þakkað n. allri fyrir meðferð þessarar till., þó að ég sé minni hl. þakklátur fyrir góða meðferð málsins.

Ég er hissa, hvaða tregðu þessi till. hefur mætt í allshn. Hv. frsm. meiri hl. segir, að það hafi verið borið undir flm. síðasta vetur, hvort hann vildi fremur, að till. væri vísað frá eða felld, eða þá að hún væri ekki afgr. frá n. Ég hygg, að einn af nm. hafi komið að máli við mig á síðasta vetri og sagt, að ekki væri vel tekið í till. í n. og ef hún væri afgr. þá, mundi það væntanlega verða með þeim hætti, að henni yrði vísað frá. Ég lét þá þau orð falla, að ég vildi þá heldur, að málinn yrði frestað, til að vita, hvort því ykist ekki byr. Það er því furðulegt, að hv. frsm. meiri hl. skuli segja, að afstaða mín hafi verið sú, að ég hafi óskað eftir, að till. fengi hægt andlát. Það er tilhæfulaust, að ég hafi viljað, að till. fengi ekki þinglega afgreiðslu, heldur hafði ég áhuga á, að hún fengi afgreiðslu í þinginu. Hitt er rétt hjá honum, að ég hafði ekki áhuga á, að farið væri að fella till. í vetur, en það var í trausti þess, að mönnum snerist hugur. Nú hefur það ekki orðið, og hv. meiri hl. er ráðinn í því að vísa till. frá, og rökin eru þau, að þetta verk verði unnið af öðrum. En þetta er mesti misskilningur, því að rannsóknarefni þessarar till. er miklu víðtækara en svo, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins geti innt það af höndum. Mér er vel kunnugt um þetta, þar sem ég átti mikinn þátt í því á sínum tíma, að l. um reikningaskrifstofu sjávarútvegsins voru sett. Henni er ætlað að safna gögnum frá útgerðarmönnum, helzt að taka reikninga frá sem flestum og gera yfirlit um þá reikninga og afkomu útvegsins samkv. þeim. En verkefni það, sem rannsaka á samkv. þessari till., er miklu víðtækara. Það er að vísu gert ráð fyrir, að hún leysi þetta verkefni af hendi, en það þarf að leggja í það miklu meiri vinnu en reikningaskrifstofan getur af hendi leyst og seilast lengra í athugunum en hún hefur rétt til, — lengra aftur í tímann. Enn fremur er gert ráð fyrir, að rannsakað verði, hvaða áhrif dýrtíðin hefur haft á framleiðsluna. Sem sagt, það á að gefa hagfræðilegt yfirlit um þessa atvinnugrein, svo að af því megi ráða, hvaða áhrif dýrtíðin hefur á sjávarútveginn og hvaða áhrif breyt. á dýrtíðinni hefði, t. d. ef dýrtíðin lækkaði eða ef dýrtíðin hækkaði. Þetta er alls ekki verkefni reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Hún getur ekki innt það af hendi samkv. eðli málsins. Það er því út í hött að ætla að vísa till. frá með þeim forsendum, að reikningaskrifstofan vinni þetta starf.

Ég hygg, að hv. þm. sé ljóst, að till. er fram borin til að fá hagfræðilegar upplýsingar um afkomu sjávarútvegsins, en þær upplýsingar fást ekki með starfi reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, heldur þarf miklu frekari athugun en fæst með því starfi einu. Spurningin er þá bara sú, hvort óþarft sé eða þýðingarlaust að gera slíka athugun. Vil ég þá fyrst víkja að því, sem hv. þm. Barð. sagði um hvatir mínar til að bera þessa till. fram. Hann segir, að hún sé flutt aðeins af því, að hv. 6. landsk. (LJós) flutti annað mál varðandi sjávarútveginn. Þessi hv. þm. getur ekki lesið í hug mér, enda er þetta gersamlega út í bláinn og ósæmilegt fyrir form. í n. að fleygja fram slíkum fullyrðingum og sleggjudómum. Nei, það er af allt öðru, og skal ég greina frá því með örfáum orðum. Till. er flutt beinlínis af því, að ég vonaði, að ef þessi rannsókn færi fram, t. d. undir stjórn hagstofustjóra Íslands, þá mundi slíkt hagfræðilegt álit verða til þess, að bæði á Alþ. og annars staðar yrðu menn að horfa framan í þær staðreyndir, hvaða áhrif það hefur haft á sjávarútveginn, sem gert hefur verið í dýrtíðarmálunum undanfarin ár, og enn fremur, að menn fengjust til að horfast í augu við, hvernig nú er komið í mörgum greinum sjávarútvegsins vegna þess, hvernig á málunum hefur verið haldið. Ég gerði mér vonir um, að fengju menn hlutlausar skýrslur um það, sem ég er sannfærður um, að er rétt, að nú þurfi vélbátar að fiska með afbrigðum vel, til þess að afkoma hlutarsjómanna, sem á þeim vinna, sé sæmileg með því verði, sem nú er á fiskinum, — ég gerði mér vonir um, ef upplýsingar fengjust um þetta frá aðilum, sem menn fengjust til að trúa, að það gæti haft áhrif á afgreiðslu dýrtíðarmálsins í heild. Og ef þessar skýrslur fengjust gerðar hlutlaust, þá er ég sannfærður um, að sannast mundi, að hlutur þeirra, sem vinna upp á hlut á vélbátaflotanum, er miklu lakari en þeirra, sem vinna ómerkari störf en þeir. Ef slíkar skýrslur lægju fyrir, mundu menn ekki vaða áfram jafnblindandi í þessum efnum og verið hefur. Ég gerði mér vonir um, ef þessar niðurstöður fengjust, að verða mundi auðveldara á allan hátt að fást við dýrtíðarmálin í framtíðinni en verið hefur undanfarið og skilningur manna á þörfinni á því að halda dýrtíðinni í skefjum verða miklu almennari en nú er.

Menn tala um, að afkoma sjávarútvegsins megi ekki við meiri dýrtíð og að tekjur hlutarsjómanna séu minni en tekjur annarra manna og þar fram eftir götum. En um það liggja ekki fyrir upplýsingar, sem örugglega sé hægt að vísa til og ekki verða vefengdar, og það er það, sem okkur hefur vantað í sambandi við meðferð þessara mála. Að ég vildi, að hér væri n. manna, sem starfaði að þessu, en þessari skýrslusöfnun ekki kastað einhliða í einhverja stofnun, eins og t. d. reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, er af því, að hér er hagfræðilegt yfirlit, sem þarf að fá, og álít ég, að hagstofustjóri geti verið hlutlaus í þessu máli og því rétt, að hann safnaði skýrslunum. Og ég vildi til þessa máls einnig kveðja til aðila frá sjávarútveginum með því að tiltaka, að einn nm. skyldi vera skipaður samkv. tilnefningu Fiskifélags Íslands. Þá vildi ég líka, að fulltrúi væri í þessari n. frá verkalýðssamtökunum, og lagði því til, að einn nm. væri skipaður samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands, sem kynnti sér ýtarlega í sambandi við þessi störf, hvernig háttað væri um afkomu sjávarútvegsins. Og ég var svo barnalegur að gera mér vonir um, að ef fulltrúi frá Alþýðusambandinu tæki þátt í þessum störfum, þá yrðu niðurstöður af rannsóknum þessarar n. síður vefengdar af launastéttunum í landinu, þegar farið væri að athuga, hvað útgerðin þyldi hátt kaupgjald og mikinn framleiðslukostnað almennt. Það var nokkuð svipuð hugsun, sem vakti fyrir mér varðandi hlutarsjómenn eins og vakti fyrir þeim, sem gerðu till. um sex manna n., sem fjallaði um landbúnaðarverðlagið. Og þó að miklar deilur hafi orðið um niðurstöður þeirrar n., þá var starf hennar stórkostlega þýðingarmikið til þess að veita vitneskju um laun launastéttanna í landinu og afkomu landbúnaðarins. Og ég er sannfærður um, að sama mundi verða niðurstaðan af athugun þeirra aðila, sem ég geri í þáltill. till. um, að fjalli um þessa athugun.

Ég vil ekki endilega halda fram, að ég hafi hitt á það rétta um val manna til þess að gera hagfræðilega skýrslu um afkomu sjávarútvegsins, en það hefði þá mátt gera brtt. um skipun þessara trúnaðarmanna, ef menn eru ekki ánægðir með það, sem fram var lagt að því leyti.

Það, sem ég legg til með þáltill. minni, að gert verði, hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. En betra er seint en aldrei. Og eins og hv. frsm. minni hl. n. (PZ) gat um, er mjög þýðingarmikið, að þetta verði gert nú, þegar við gerum helzt ráð fyrir, að við stöndum á tímamótum að þessu leyti. Ég er óánægður með þá afgreiðslu, sem hv. meiri hl. n. vill hafa á þessu máli, og ég lýsi hreint og beint undrun minni yfir því, að ekki fékkst í n. samkomulag um að skipa n. trúnaðarmanna til þess að athuga framleiðslukostnað sjávarafurða og afkomu sjávarútvegsins á svipaða lund og ég hafði lagt til í þáltill. minni.