13.10.1944
Sameinað þing: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í D-deild Alþingistíðinda. (5981)

28. mál, afkoma sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Varðandi aths. hv. frsm. meiri hl. allshn. vil ég benda á það, að ég sagði um daginn, að ekki væri viðeigandi að gera mönnum upp hvatir alveg út í bláinn, eins og hann gerði í það sinnið. Hv. þm. Barð. telur sér ekki vandara um en hv. þm. N.-Ísf., sem bar mér á brýn fyrir mörgum mánuðum, að ég flytti þessa till. í samkeppni við annan þm., en það bætir ekki um fyrir hv. þm. Barð., þótt einhver hafi áður gert sig sekan um slíkt. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að athuga efni till., en mig grunar, að það hafi einmitt ekki verið gert í þetta sinn, ekki athugað út frá því, sem var kjarni málsins, heldur hafi hv. þm. sett í sig kergju, af því að það voru ekki þeir, sem fluttu till. En vitanlega eru þessi ummæli jafnóviðeigandi og ummæli hv. þm. Barð. í minn garð.

Hv. þm. Barð. minntist á, að það benti til þess, að ég hefði ekki flutt till. af neinni þörf, að ég hefði átt og ætti enn sæti í mþn. í. sjávarútvegsmálum, en í stað þess hefði verið eðlilegt að leggja til, að mþn. tæki að sér að leysa þau verkefni, er till. mín fjallar um. Ég vil benda hv. þm. á það, að við fyrri umr. gerði ég grein fyrir atkvæði mínu, þar eð ég var því mótfallinn, að mþn. í sjávarútvegsmálum fengi málið til meðferðar, vegna þess að sú n. er kosin af þinginu og því pólitísk, og álít ég ekki heppilegt, að slík n. stjórni þeirri rannsókn, sem hér er farið fram á: að meta og rannsaka afkomu sjávarútvegsins og framleiðslukostnað sjávarafurða. Auk þess hefur mþn. ákveðin verkefni, sem öll eru varðandi einstök mál útvegsins, en ekki gert ráð fyrir, að hún hafi á hendi almenna rannsókn í þeirri grein, sem hér um ræðir. Viðvíkjandi því, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins geti tekið að sér að annast þetta verkefni, en til þess ætlast hv. þm. Barð., þá hef ég áður bent á, að ég tel reikningaskrifstofuna ekki einhlíta til þess að takast á hendur þetta verkefni, rök, sem hv. þm. Barð. hefur gengið fram hjá. Nefndi ég það sem dæmi, að athuganir þyrftu að ná lengra aftur í tímann, og enn fremur benti ég á, að í sambandi við það mundu koma til greina mörg mál, sem reikningaskrifstofa sjávarútvegsins mundi ekki telja sér heimilt eða skylt að gera nokkrar ályktanir um. Því að hér er ekki gert ráð fyrir, að farið sé aðeins með þurrar tölur eða statistik, heldur farið með hagfræðilegar tölur um afkomu sjávarútvegsins, sem mikils væri vert að hafa varðandi dýrtíðarmálið, sem við höfum til meðferðar hér í þinginu. Þetta getur reikningaskrifstofa sjávarútvegsins ekki gert. Hins vegar getur reikningaskrifstofa sjávarútvegsins, — sem ég átti þátt í að koma á fót, — stutt þetta starf. Ég hafði hugsað mér, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins ynni hliðstæð störf fyrir þessa n., sem hér er till. um, að skipuð verði, eins og reikningaskrifstofa landbúnaðarins vann fyrir sex manna n., sem sett var til þess að meta verðlag landbúnaðarins. Þetta hefði ég talið eðlilegt. Og ég er einnig sannfærður um, að hv. þm. Barð. hefði talið þetta eðlilegt, ef hann hefði ekki sett í sig þann þráa, sem hann hefur gert varðandi þetta mál. Og mér leikur grunur á, að hann hefði gjarnan viljað flytja það sjálfur eða einhver hefði það gert honum andlega skyldari en ég. — Ég tel mér heimilt að gizka á þetta á sama hátt og hv. þm. Barð. taldi sér heimilt að gizka á, af hvaða hvötum ég flytti þetta mál hér. En ekki mundi ég hafa komið með þessar ágizkanir um hvatir hv. þm. Barð., ef hann hefði ekki hreyft hinu.

Hv. þm. Barð. gerði nú nokkru meiri grein fyrir ástæðunum til þess, að hann treysti sér ekki til að mæla með samþykkt till., og ástæðurnar skildust mér nú vera aðallega þær, að tveir menn, sem hefðu staðið í sambandi við Alþýðusamband Íslands, hefðu ekki talið ástæðu til þess að fallast á till. og Fiskifélagið hefði ekki mælt með till. og í þriðja lagi hefði hagstofustjóri ekki viljað, að sér væri falið það verkefni, sem honum er ætlað með till. Mér fannst þetta veikar ástæður af hendi meiri hl. n. og háttv. þingm. Barð. Það er nú það fyrsta, að þetta mál hefur ekki verið sent Alþýðusambandi Íslands til umsagnar. Og þó að ég efist ekkert um, að þeir tveir menn, sem hv. þm. Barð. átti tal við og stóðu í sambandi við Alþýðusambandið, viti nokkuð um hug þeirra manna, sem fremstir standa í Alþýðusambandinu, þá leyfi ég mér að efast um, að þeir viti afstöðu þeirra til allra dægurmála, sem fram koma. Og ég er ekki í vafa um, að þeir menn innan Alþýðusambandsins, sem mestan áhuga hafa á afkomu hlutarsjómanna og annarra þeirra, sem þessi þáltill. varðar mikið, mundu gjarnan vilja, að slík athugun færi fram, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég skal alveg játa það, að mér er það ekki vel skiljanlegt, hvernig á því stendur, að stjórn Fiskifélags Íslands skuli ekki taka þessari till. með áhuga og mæla með því, að hún verði samþ. Ég skil ekki þær ástæður, sem þar liggja til grundvallar, því að ég hafði satt að segja ætlazt til þess, að stjórn þessa félags vissi vel, við hvað starf reikningaskrifstofu sjávarútvegsins er takmarkað og hver þörf sjávarútvegsins er á því, að honum séu gerð þau skil í þessu efni, sem hér er lagt til og öðrum atvinnuvegi hafa verið gerð. Hitt dettur mér ekki í hug, að taka það gilt, þó að stjórn Fiskifélagsins sýni ekki skilning á málinu. Ég álít, að þm. sé jafnskylt að hrinda í framkvæmd málum, sem þeir telja til góðs, þó að framkvæmdastjórar einhverra stofnana hafi ekki skilning á þeim. Ef ég hefði verið sannfærður um, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins gæti annazt þetta mál á þann veg, sem og gert er ráð fyrir í þáltill., þá hefði ég tafarlaust verið með því að láta fela henni þetta verk og heimila fjárframlög í því skyni. En vegna þess að mér er ljóst, að þessi vinna verður aldrei framkvæmd á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þáltill., af reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, hvað sem hv. frsm. og meiri hl. allshn. segir og hvað sem stjórn Fiskifélags Íslands segir um það, lagði ég það ekki til.

Þá er það, sem hv. þm. Barð. sagði um afstöðu hagstofustjóra. Ég veit, að hv. þm. Barð. hlýtur að skilja það, að auðvitað er hagstofustjóri ekkert sérlega glaður yfir því, að honum séu falin störf eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill. Ég vil segja sem mína skoðun, að hefði hagstofustjóri á sínum tíma verið spurður, hvort hann vildi, að honum væri falið það starf, sem honum var falið í sex manna n., þá hefði hann færzt undan því, og það hefði hver annar maður gert í hans sporum. Hver annar maður hefði viljað losna við þann vanda, sem honum var lagður þar á herðar eins og hlutlausum oddamanni. Og það er eðlilegt, að hagstofustjóri sé þess ekkert hvetjandi, að honum verði falin þessi störf í þágu sjávarútvegsins, sem hér er um að ræða, og þá sérstaklega þegar það hefur orðið bert, hverjar þakkir þeim mönnum eru valdar, sem taka að sér slík störf, þar sem þeim eru bornar á brýn hinar mestu vammir og skammir gagnvart niðurstöðum þeirra. Það er ekki undarlegt, þó að hagstofustjóri vilji, að þessu máli sé beint í annan farveg. En hagstofustjóra er vitanlega skylt sem starfsmanni ríkisins að taka að sér störf, sem Alþ. felur honum. Og ég veit, að hagstofustjóri mun gera það í þessu efni, ef Alþ. felur honum það, með sama myndarskap og hann starfaði í sex manna n. varðandi landbúnaðinn.

Hv. þm. Barð. segir, að hagstofustjóri hafi verið spurður að því, hvort hægt mundi vera að ákveða fiskverðið á þann hátt, sem gert væri ráð fyrir í þáltill., og hvort hægt væri að ákveða tekjur útvegsmanna eftir vísitöluútreikningi, og að hagstofustjóri hafi talið mikil tormerki á, að hægt væri að framkvæma þetta. Ég vil segja, að ég er hv. n., — ef hún hefur borið þetta þannig fram fyrir hagstofustjóra, — ákaflega lítið þakklátur fyrir það, því að slíkar spurningar gefa enga hugmynd um, hvaða gagns megi vænta sér af því máli, sem hér liggur fyrir. Það, sem hér liggur fyrir, er, að fram fari rannsókn á framleiðslukostnaði sjávarútvegsins og síðan sé gefið út álit um það, hvert verð þurfi að vera á sjávarafurðum, til þess að afkoma sjávarútvegsmanna verði hliðstæð við það, sem ýmsar aðrar stéttir í landinu eiga við að búa. Og við vitum ákaflega vel, að væri hagstofustjóri spurður á þá lund, hvort hægt væri að gefa út slíkt álit, þá gæti hann ekki svarað því nema á einn veg, þ. e. a. s. þannig, að það væri hægt að gefa út slíkt álit. — Svo má alltaf um það deila, hvort slíkt álit, sem gefið er af trúnaðarmönnum, sé það rétta, alveg eins og átt hefur sér stað um álit sex manna n.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði og átti að gefa í skyn, að ekki væri unnt yfirleitt að framkvæma þetta verkefni, sem þáltill. fjallar um, þá vil ég fyrst benda á, að það er ekki lítið ósamræmi í því annars vegar að segja, að þetta verk sé óframkvæmanlegt, og hins vegar að ætla að fela þetta verk reikningaskrifstofu sjávarútvegsins og halda því fram fram í rauðan dauðann, að hún sé fullfær um að framkvæma það. Það er ákaflega leiðinlegt ósamræmi í þessu tvennu. En sleppum því.

Þá vil ég minna á, að stofnuð var síðari sex manna n., sem skipuð var fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, og henni var einmitt falið að gera till. um lækkun dýrtíðarinnar og láta álit sitt í ljós um það, hvað þessir aðilar, Búnaðarfélag Íslands og Alþýðusamband Íslands, vildu til þeirra mála leggja. Það fyrsta, sem þessi n. gerði, eftir því sem nál. upplýsir, var að fá í þjónustu sína hagfræðing til þess að athuga afkomu sjávarútvegsins eins glöggt og hann gæti á stuttum tíma til þess að gefa n. álit um það, hvernig nú væri ástatt um sjávarútveginn, hvort dýrtíðin í landinu og þar með framleiðslukostnaður væri orðinn svo hár, að sjávarútvegurinn gæti ekki undir því risið. Og þessi hagfræðingur skrapaði saman gögn um þetta mál, sem birt voru með nál., þar sem hann gerir tilraun til að sýna, hversu hátt kaupgjald sjávarútvegurinn muni þola með því verði, sem þá var á útflutningsvörum sjávarútvegsins. M. ö. o., þessi hagfræðingur gekk beint að því að reyna að vinna það verkefni, sem ætlazt er til í þessari þáltill., að framkvæmt verði. Og hann gerði um þetta bráðabirgðaálit með endalausum fyrirvörum vegna þess, hve gögn hans voru ófullkomin, því að hann hafði mjög stuttan tíma til þess að safna þeim saman. — Þetta er sagt bara til þess að sýna fram á, hvort þessi þáltill. er komin fram ófyrirsynju eða hvort því verkefni muni verða sinnt, sem farið er fram á í þáltill., að unnið verði, ef hún verður samþ.

Ég hef átt þátt í samningsumleitunum um stjórnarmyndun, sem gengið hafa látlaust í tvö ár. Í þeim hefur mest verið rætt um dýrtíðarmálið og afkomuhorfur sjávarútvegsins, og þessum spurningum hefur þar sífellt verið á loft haldið: Er mögulegt, að framleiðslan geti gengið áfram, eins og dýrtíðin er nú, eða þarf að lækka dýrtíðina til þess; má hún hækka, eða er bezt, að hún standi í stað? — o. s. frv. Þessar spurningar hafa alltaf gengið í þeim viðræðum. Og það hefur alltaf kveðið við: Aðalgallinn er sá, að við höfum ekki glöggar skýrslur um það, hve mikla dýrtíð þessi útflutningsatvinnuvegur landsins þolir. — Og hvað eftir annað hefur verið talað um, að það þyrfti að bæta úr þessu með því að láta fara fram nokkra athugun í þessu efni. Ég man t. d. glöggt eftir því, að veturinn 1942–1943 var mikið rætt um, hvort nauðsynlegt væri að færa vísitöluna niður í 220 stig vegna sjávarútvegsins eða hún mætti sitja við það, sem þá var, eða hvort hún þyrfti að fara lengra niður en í 220 stig. Og þá gengu þessar sífelldu bollaleggingar um þetta sí og æ, eins og eðlilegt var. Menn voru að reyna að gera sér grein fyrir, hvað þeir menn hefðu í tekjur, sem sjávarútveg stunduðu. En upplýsingarnar um það voru svo ófullkomnar, að ekki var hægt að átta sig á því. Menn höfðu hugmynd um, að hlutarsjómenn væru farnir að dragast aftur úr um afkomu. En það var ekki heldur hægt að fá neinar fullnægjandi upplýsingar um það. Og það hefur sem sagt komið eins átakanlega í ljós og hægt er á svo stuttum tíma, hversu nauðsynin á slíkum athugunum á afkomu sjávarútvegsins er miklu meiri nú en hún var, áður en dýrtíðin kom. Og ég er alveg sannfærður um, að komið hefði fremur hik á menn við að koma á sífelldum dýrtíðarhækkunum og við að reka áfram sífelldar kauphækkanir, ef við hefðum haft þessa hluti í betra lagi í ófriðarbyrjun. — Og ég get tekið það fram við hv. þm. Barð. og aðra, að það var af þessum ástæðum, vegna þess, hvað ég hef rekið mig á þessa vöntun á undanförnum árum, að ég flutti þessa þáltill. Og það var af sömu ástæðu, að ég átti þátt í því ásamt félögum mínum í mþn. í sjávarútvegsmálum, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins var sett á fót.

Hv. þm. mega gera við þessa þáltill., hvað sem þeim sýnist. Það er sársaukalaust af minni hálfu. En það er áreiðanlega engin þjónusta við útgerðina að koma henni fyrir kattarnef á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í áliti meiri hl. allshn., eða á annan hátt. En mér þykir raunar lakara, að naglaskapur manna hér á hæstv. Alþ. standi í vegi fyrir því, að mál þetta geti fengið einróma samþykki Alþ., eins og það hefði átt að fá.