05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

143. mál, fjárlög 1945

Einar Olgeirsson:

Herra forseti — Hv. 2. þm. S.-M. kvartaði um, að Sósfl. hefði ekki myndað stj. með Framsókn. Sósfl. hefur verið reiðubúinn til að mynda róttæka umbótastj. Þetta var reynt um nokkurt skeið með samningsumleitunum við Framsókn, sem margir héldu þá, að væri umbótaflokkur. En þegar farið var að tala við Framsókn um róttækar umbætur, kom það brátt í ljós, að hún var ekki aldeilis á því að fallast á slíkar umbætur. Allir samningar strönduðu á einu skilyrði Framsóknar, skilyrði, sem Framsókn alla tíð hefur haldið fast við: skilyrðinu um kauplækkun hjá verkamönnum. Það voru róttæku umbæturnar, sem Framsókn hugsaði sér.

Sósfl. þakkaði fyrir slík tilboð til verkalýðsins. Hann lét Framsfl. eiga sig með sínar eilífu kröfur um launalækkun, sína gömlu afturhaldspólitík. Það sýndi sig í reyndinni, að Framsfl., sem gengið hafði til kosninga sem vinstriflokkur, var afturhaldssamasti flokkur landsins.

Og nú þykist þessi versti afturhaldsflokkur landsins ætla að halda eldhúsdag yfir framsæknustu stj., sem að völdum hefur setzt á Íslandi. Og hann reynir að skera upp herör meðal allra íhaldsafla í þjóðfélaginu til að espa þau gegn stj., af því að hún sé allt of framsækin, allt of stórhuga, allt of djörf, — hún ætli sér að umskapa íslenzkan sjávarútveg, hún ætli sér að reyna að tryggja öllum Íslendingum góða afkomu með því að tryggja þeim öllum sem arðbærasta vinnu. Slíkt má aldrei verða — hrópar Framsókn, þeir sem fylgi svona stj., taki á sig ægilega ábyrgð, ábyrgð á hruninu, sem óhjákvæmilega hljóti að leiða af svona stjórnarstefnu.

Hrun verður að koma strax, — hrópar Framsókn. Það verður strax að lækka kaupið, — og þegar búið er að lækka kaupið, þá getum við farið að tala um útgerðina.

Já, — við skulum nú athuga ofur lítið feril Framsóknar í þessum útgerðarmálum. Ef til vill getur reynslan sagt okkur eitthvað um það, hvers konar kauplækkanir Framsókn telji nauðsynlegar, til þess að það megi fara að kaupa tæki til útvegsins, — og hvernig Framsókn mundi þá breyta, ef hún réði. Og ef til vill kemur það þá í ljós, hvort það sé ekki meiri þörf á allsherjareldhúsdegi íslenzku þjóðarinnar yfir Framsókn en á eldhúsdegi Framsóknar yfir róttækustu stj., sem Alþingi Íslendinga hefur myndað.

Dagsbrúnarkaupið er nú kr. 2.45 um tímann, grunnkaupið, með 8 stunda vinnudegi — eða kr. 6.60 með dýrtíðaruppbót. Hvað skyldi nú Framsókn álíta, að Dagsbrúnarkaup eða kaupið á togurum yrði að lækka til þess að ráðlegt væri að kaupa nýja togara? Hver skyldi vera heilbrigði grundvöllurinn, sem EystJ var að tala um? Væri nóg, að kaupið lækkaði niður í 5 kr., 4 kr., 3 kr., 2 kr., — eða þyrfti máske grunnkaupið að lækka niður í kr. 1.45, eins og það var fyrir stríð, svo að Framsókn væri ánægð?

Hvernig var það þá fyrir stríð? Þótti Framsókn kaupið nógu lágt þá? Fannst henni þá tími til kominn að auka sjávarútveginn, stofna ný félög til atvinnurekstrar í útgerð, því að ekki vantar, að allt`af hafi henni verið ljós þörfin á nýsköpun atvinnulífsins, segir EystJ. Reyndi hann þá að einbeita orku þjóðarinnar að eflingu sjávarútvegsins? Við skulum athuga málið.

Enginn mótmælir því, að sjávarútvegurinn fyrst og fremst flytji þjóðinni lífsafkomu hennar, sé sá grundvöllur, sem þjóðarbúskapurinn byggist á, hvernig svo sem sú útgerð á hverjum tíma ber sig fyrir eigendur tækjanna reikningslega. Fyrir þjóðarheildina hefur hún alltaf borgað sig, alla þessa öld verið aflgjafi framfara hennar og menningarviðleitni. Og stórvirkustu tækin í sjávarútveginum hafa alltaf verið togararnir. Það hefur því alltaf legið í augum uppi, að efling sjávarútvegsins og sérstaklega togaraútgerðarinnar hlaut að vera meginstefna hverrar stjórnar, sem vildi framför með þjóðinni.

Það eru nú 17 ár, síðan Framsókn tók við völdum á Íslandi, — 17 ár, sem hún sem stærsti og ráðandi flokkur landsins hefur haft tækifæri til þess að sýna sig og stefnu sína og nýsköpunaráhuga sinn í íslenzkum sjávarútvegi. Þegar Framsókn tók við völdum 1927, voru 48 togarar á Íslandi. Þeim hafði fjölgað um 30 á 8 árum þar áður, voru aðeins 19 árið 1919. Kaupið var vafalaust nógu lágt að áliti Framsóknar. Dagsbrúnarkaupið var kr. 1.20, sjómannskaupið í vissu samræmi við það. Í 12 ár fékk Framsókn að ráða, án þess að nokkurt stríð kæmi til. Eftir þau 12 ár, árið 1939, var tala togaranna komin niður í 36. Floti, sem var í röð beztu flota árið 1927, var á leiðinni að verða ryðkláfasamsafn, sem ekki fékkst endurnýjaður.

Bar togaraútgerðin sig á þessum valdaárum Framsóknar fyrir stríð, 1927–39? Hún bar sig fyrir þjóðarheildina. En fyrir eigendurna? Meginið af togurunum var rekið fyrir lánsfé úr bönkunum. Framsókn réð bönkunum og vöxtunum, sem þeir tóku af útgerðinni. Vextirnir voru 6–8%. Það mun láta nærri á þessu tímabili, að vaxtafúlgan, sem togararnir greiddu til ríkisins, hafi verið álíka og „tapið“ á þeim. En Framsóknarvaldinu datt ekki í hug að slaka á vaxtaklónni. Það hrópaði bara, að kaupið væri of hátt. Og það sá með pólitík sinni um það, að ekki var lagt í að kaupa nýja togara, þannig að togaraflotinn ykist. Og þó að menn vildu reyna að fá sér önnur fiskiskip, þá stóð Framsóknarvaldið líka á móti. Hvað eftir annað var neitað um gjaldeyri fyrir fiskiskipum.

Þegar við sósíalistar fluttum till. hér á þingi fyrir stríð um, að ríkið styddi fiskimenn til kaupa á dieselvélbátum 50–125 tonna, þá steindrap Framsóknarvaldið þær till. Þetta var umhyggjan fyrir nýsköpuninni í sjávarútveginum, þegar Framsókn réð og kaupið var sem lægst.

Tjónið, sem þjóðinni hefur verið bakað með þessu afturhaldi, verður seint of hátt metið. Og hver er ástæðan? Hin raunverulega ástæða er, að Framsókn er fjandsamleg þróun sjávarútvegsins og mun svo lengi sem hún er til reyna að finna átyllu til þess að stöðva hana. Hún vill ekki, að Íslendingar einbeiti sér að sjávarútveginum, sem er sá atvinnuvegur, sem gefur þjóðinni mest í aðra hönd. Framsókn óttast vöxt bæjanna og hatast við hann, af því að hún finnur, að hún missir pólitísk tök á því fólki, sem til bæjanna flyzt. Þess vegna stendur hún í veginum fyrir eðlilegri þróun atvinnuveganna á Íslandi. EystJ reynir að verja afturhald Framsóknar með gjaldeyrisskorti. Gjaldeyririnn var til. Sjávarútvegurinn sá fyrir því. Gjaldeyririnn var ekki mikill, en nógur til þess, að hægt var að flytja inn hitt og þetta, líka vélar og framleiðslutæki.

Og Framsókn úthlutaði gjaldeyrinum. Og það þótti mikil náð að fá gjaldeyri til nýrra fyrirtækja. Og það þótti helzt vænlegt að fá þann gjaldeyri, ef framsóknarmaður var með í félaginu, sem um gjaldeyrisleyfi sótti. Það bar ekki á því, að framsóknarmenn kærðu sig um að fara í félög til þess að reka útgerð. Því meir lögðu þeir upp úr að fara í félög, sem framleiddu hitt og þetta í skjóli innflutningshafta, t.d. rándýrar vörur til að selja þeim, sem unnu við sjávarútveginn og framleiddu gjaldeyrinn. En ef útvegsmenn vildu fá að flytja inn skip og borga þau með gjaldeyrinum, sem þeir framleiddu með þeim, þá lagði Framsókn blátt bann við.

Hatrið til sjávarútvegsins gerði það að verkum, að pólitík Framsóknar varð þjóðinni beinlínis fjandsamleg. Heill og framtíð þjóðarheildarinnar var fórnað fyrir pólitíska hagsmuni og völd framsóknarbroddanna. Svo hatramur var þessi ótti við vöxt bæjanna, þetta hatur til vaxandi sjávarútvegs, að í hvert skipti, sem að kreppti í bæjunum, kvað við sama ópið frá Framsókn: Yfirgefið bæina! — Hún heimtaði, að fólkið flyttist upp í sveit, þó að nákvæmlega sama kreppan og vandræðin væru þar og fólkið alltaf að flosna upp.

Þegar húsnæðisvandræði og atvinnuleysi voru hér í Reykjavík á árunum fyrir stríð og auðsætt virtist að reyna að bæta úr hvoru tveggja með því að láta atvinnulausa byggingarverkamenn reisa hús, þá setti einn fyrrv. ráðh. Framsóknar fram þá kröfu, að bankarnir yrðu að stöðva lán til húsbygginga í Reykjavík, — Reykjavík mætti ekki stækka meir.

Og hvað hafði Framsókn svo að bjóða þessu fólki, sem hún vildi reka upp í sveitirnar?

Það er líklega enn í manna minnum, þegar ungur, áhugasamur framsóknarmaður skrifaði grein til Tímans til þess að spyrja, hvað hann ætti að gera. Hann vildi fara að gifta sig og reisa bú í sveit, en skorti efni. Einn þáverandi þm. Framsóknar svaraði honum í Tímanum. Svarið var: Far þið hjónin í vist í sveit. Vinnið þar nokkuð mörg ár. Það er gott fyrir bóndann, og þið getið eignazt nokkrar rollur, — og máske getið þið þá seinna fengið jörð. Þetta voru framtíðarhorfurnar, sem Framsókn bauð fólkinu, meðan kaupið var lágt, aðeins 1/4 hluti þess, sem það er nú að fara upp í sveit og vinna fyrir enn þá lægra kaupi, — helzt sem matvinnungar.

Og þessi Framsfl., sem aðeins hafði svona horfur upp á að bjóða, hann er nú að reyna að hræða þjóðina frá nýsköpuninni með því að hrópa: Það kemur bara hrun og öngþveiti, — fáið þið okkur framsóknarmönnum heldur völdin.

Hvenær hefur þjóðin á friðartímum þekkt annað en hrun og öngþveiti, kreppu og taprekstur, ef Framsókn hefur haft völdin?

Sumir vilja máske halda, að það að búa þannig að sjávarútveginum og bæjunum hafi verið einhver búhyggindi Framsóknar fyrir hönd bændastéttarinnar. En því fer fjarri. Efling íslenzks landbúnaðar og batnandi afkoma íslenzkra bænda byggist einmitt á vaxandi mannfjölda í bæjunum og góðri afkomu bæjarbúa, svo að bændur fái þar góðan markað fyrir vörur sínar. Fyrir alla aðila er því hin þröngsýna pólitík Framsóknar skaðleg — þessi pólitík, sem undir því yfirskini að hjálpa bændum vill binda þá við sveitina í þeirri von, að þeir styðji Framsókn til valda.

En hvernig stendur á því, að flokkur, sem svona er innrættur, skuli hafa getað náð miklu fylgi um tíma með þjóðinni og jafnvel verið álitinn vinstri flokkur og blekkt róttæka sveitamenn til fylgis við sig? Framsfl. hefur frá upphafi falsað á sér heimildir. Þegar hann hóf göngu sína, þóttist hann vera hinn framsækni, víðsýni framfaraflokkur bæja og sveita. Aðalleiðtogi hans JJ kallaði hann þá oft „vinstrimannaflokk“ Ég skal lofa ykkur að heyra, hvað JJ sagði um Framsókn, þegar hún hóf göngu sína. Það getur að lesa í grein hans: Nýr landnámsgrundvöllur, í Rétti 1918. Þar stendur:

„Þó að vinstrimannaflokkurinn spretti í skjóli bændaflokkanna, getur hann engan veginn orðið „agrar“-flokkur. Þröngsýnir og smásálarlegir bændur og sveitavinir geta ekki átt þar heima. Þeir lenda sjálfkrafa í fylkingarbrjósti hægrimennskunnar.“

Þannig voru loforðin, þegar Framsókn hóf göngu sína. Með svona loforðum var róttæk sveitaalþýða ginnt til fylgis við Framsókn.

Nú hefur Framsókn kastað framfaragrímunni. Nú státar hún af þröngsýninni, elur á smásálarskapnum, ber sér á brjóst og hrópar: Við erum sveitavinirnir, einu sveitavinirnir, — allir aðrir eru óvinir sveitanna. — Enda hefur Framsfl. nú sjálfkrafa lent í „fylkingarbrjósti hægrimennskunnar“, og þar stendur hún í dag, eins og menn hafa heyrt greinilega í þessum útvarpsumr.

Og nú setur Framsfl. alla sína von á það að hindra nýsköpun atvinnulífsins. Þessi flokkur, sem kallar sig „framsækinn“ flokk, „vinstri“ flokk, flokk sveitaalþýðu, — hann leggst í þessum umr. á kné og grátbiður peningamenn bæjanna, „stríðsgróðamennina“, um að leggja umfram allt ekki fé í ný framleiðslufyrirtæki, — þeir geti tapað á því, ótætis verkalýðurinn vilji ekki lækka kaupið og það sé þess vegna öldungis ófært, að blessaðir stríðsgróðamennirnir fari að hætta auði sínum, sem þeir hafi aflað í sveita síns andlitis, í ný skip, þótt þjóðinni liggi á því.

Framsókn brýzt svo um á hæl og hnakka til að hindra nýsköpun atvinnulífsins, að engu er líkara en hún vilji segja við peningamenn Reykjavíkur: Leggið fé ykkar í fasteignir, braskið með hús, sprengið verð þeirra upp úr öllu valdi, kaupið jarðir, og komið jarðarverðinu í geip, setjið fé ykkar í heildsölufyrirtæki, og rakið saman auði á því, en setjið það ekki í ný skip, nýjar verksmiðjur, ný framleiðslufyrirtæki. Þetta er bæn Framsóknar til stríðsgróðavaldsins í dag. Hver maður sér, að hið fyrra er þjóðinni til bölvunar, hið síðara er lífsskilyrði hennar. Framsókn getur vart sýnt þjóðhollustu sína rækilegar en með þessu.

Það er aumkunarverð sjón að sjá þennan flokk, sem einu sinni þóttist ætla að leiða sveitaalþýðuna í bræðralag við alþýðu bæjanna til frelsis og farsældar, knékrjúpa nú gróðamönnum bæjanna og heita á þá að bregðast þegnlegri skyldu sinni við þjóðfélagið, til þess að Framsfl. geti fengið tækifæri til þess að reyna enn einu sinni kaupkúgunaraðferðina: gerðardóm og ríkislögreglu, — fengið að gera úrslitatilraun til að hefta þróun íslenzks atvinnulífs og frelsis íslenzkrar alþýðu með því að keyra hvort tveggja í þrældómsfjötra.

En þetta er sjónin, sem blasir við allri þjóðinni í þessum umr. Hvað segja þeir róttæku sveitamenn, sem ár eftir ár hafa kosið framsókn sem vinstri flokk, um þetta?

En þó er þetta ef til vill ekki allra aumkunarverðasta sjónin, þegar litið er á Framsfl. og svipbreytingar hans í sögu nútímans. Framsfl. hefur við hverjar kosningar, sem fram hafa farið, boðað þjóð sinni, að hann hefði einu háleitu hlutverki að gegna, þýðingarmesta hlutverkinu, sem nokkur flokkur hefur gegnt í Íslandssögu síðustu alda. Foringi Framsóknar hefur tilkynnt fagnaðarboðskapinn eitthvað á þessa leið, hvað innihald snertir:

Sjá, í þjóðfélaginu berjast auðmenn og verkamenn. Þessi stéttastyrjöld er þjóðfélaginu stórhættuleg. Vér framsóknarmenn viljum vera mannasættir. Vér viljum bera vopn á klæðin. Vér stöndum á milli hinna andstæðu fylkinga og skorum á þá að sliðra sverðin. —

Og fyrir þrem árum náði þessi fjálgleiki Framsóknar hámarki sínu. Þá var sagt eitthvað á þessa leið, hvað innihaldið snertir:

Íslenzka þjóðfélagið er komið í mesta vanda, sem það hefur átt í síðan árið 1000. Þá lá við, að kristnir og heiðnir r,nenn berðust og ryfu friðinn, — og nú liggur við, að kapítalistar og verkamenn berjist og rjúfi friðinn. Þá var það Þorgeir Ljósvetningagoði, sem barg friðnum og íslenzku þjóðinni. Nú er það Framsfl., sem ætlar að leika hið göfuga hlutverk Þorgeirs, að bjarga friðnum, sætta andstæðingana og bjarga þjóðinni. — Svo hljóðaði hinn fjálgi boðskapur Framsóknarleiðtoganna.

Og sjá! Framsókn skreið undir feldinn hans Þorgeirs — og lá þar lengi, hugsaði mikið og hugsaði djúpt — dreymdi stóra drauma.

Meðan Framsóknargoðinn lá undir feldinum, gerðust þau tíðindi, að verkamenn og auðmenn, hinar andstæðu fylkingar, kristnir og heiðnir menn 20. aldarinnar, tóku upp á því að sættast án milligöngu Framsóknar, slíðruðu sverðin, af því að þjóðarheill krafðist þess.

Og svo kom Framsóknargoðinn fram undan feldinum og sá, hvað gerzt hafði. Og hvernig brá hinum sjálfskipaða eftirmanni Þorgeirs Ljósvetningagoða við sættina, við uppfyllingu sinna dýru hugsjóna? Framsóknargoðinn ærðist. Hann hrópaði til þjóðarinnar: Þetta eru svik, þetta er samsæri gegn þjóðinni! Og hann hófst tafarlaust handa um að reyna að spilla sættunum, að reyna að æsa hvern flokkinn upp gegn öðrum, eina stéttina gegn annarri og bændur gegn þeim öllum.

Framsóknargoðinn hrópar í dag til verkamanna: Rjúfið griðin. Kæfið atvinnurekendur með nógu háum sköttum. Og til atvinnurekenda æpir Framsókn héðan úr þingsölunum: Brjótið verkalýðinn á bak aftur. Kúgið verkamenn til kauplækkunar með atvinnustöðvun og hruni. Þá skulum við hjálpa til með gerðardómsl. og her.

Og innan stjórnarflokkanna hamast Framsókn, allt hvað hún má. Hún vonaðist eftir að geta hindrað samstarf Alþfl. og Sósfl. í ríkisstj., af því að hún ætti einhver ítök í nokkrum mönnum innan Alþfl., sem andstæðir voru þessu samstarfi. Allt hefur þetta mistekizt fyrir henni. Smáerfiðleikum getur hún vafalaust komið af stað öðru hverju, — en eyðileggingu ekki. Til þess er leiðtogum stjórnarflokkanna allt of vel ljóst, hvert hún stefnir með þeim rógburði sí~um, sem eigi hefur linnt, síðan sættir urðu um fyrstu stjórnarmyndun íslenzka lýðveldisins.

Framsóknargoðinn, sem aldrei fann nógu fjálgleg orð um, hve vel honum færi að leika hlutverk Þorgeirs Ljósvetningagoða, hefur umhverfzt á einu augnabliki í Mörð Valgarðsson og linnir nú ekki að rægja á milli þeirra, sem hann vill, að rjúfi griðin og taki að berjast að nýju, unz arfasátan logi og yfir ljúki.

Þetta mun vera einhver ljótasta myndbreyting, sem fram hefur farið á sjónarsviði íslenzkrar stjórnmálasögu.

Framsókn hefði aldrei átt að fara undir feldinn hans Þorgeirs. Þá hefði fallið niður í Mörð orðið minna.