24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í D-deild Alþingistíðinda. (6001)

236. mál, húsaleiguvísitala

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Þessari till. fylgir engin grg., en þrátt fyrir það mun ég fara mjög hóflega í að gera grein fyrir henni við þessa umr. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur verið nokkur óánægja út af húsaleigul., þau hafa þótt koma hart niður á ýmsum mönnum. Það eru einmitt dýrtíðarráðstafanirnar, sem hafa sett eignir manna niður í verði og að verulegu leyti tekið umráðaréttinn yfir eignunum af mönnum til að verðleggja eignirnar eða ráða leigu af þeim. Nú held ég, að það séu ekki skiptar skoðanir um það hér á Alþ., að þetta sé að sönnu ill nauðsyn, en þó svo mikil nauðsyn, að ekki muni vera fært að afnema þessi l. að sinni. Hitt er annað mál, að Alþ. ber skylda til, þegar sett eru slík þvingunarl., að gera sitt ýtrasta til þess, að þau komi sem jafnast niður, og það sé ekki gerður mjög ójafn réttur þegnanna og raska sem allra minnst eðlilegri þróun hlutanna. Nú er ekki hægt að neita því, að ýmsir húseigendur hafa í þessu efni ástæðu til að kæra yfir málum sínum. Þegar þessi l. voru sett á Alþ. 1943, held ég, að það hafi verið sýnt með þau, þegar þau voru steypt upp aftur. Þá var n., sem starfað hafði að undirbúningi málsins, ósammála um ýmis veruleg og þýðingarmikil atriði. Meðal þess var það, hver ætti að vera grundvöllur undir útreikningi húsaleiguvísitölunnar. Það segir í grg. frv., að n. hafi ekki verið alveg sammála um þennan hlut. Og það er talsvert mikilsvert, að í grg. frv. og í athugasemd við það frá ríkisstj. er tekið fram, að í Reykjavík séu 300 manns, sem hafi tekjur sínar að mestu leyti af húsaleigu. Þetta eru menn, sem hafa sparað saman í húsþak yfir höfuð sér á langri starfsleið. Þessir menn hafa á heilbrigðum tímum haft sæmilega afkomu. En svo kemur stríðið og löggjafarvaldið og raskar hlutfallinu milli tekna og kostnaðar af þessari lífsframfærslu. Þegar litið er á mál þessara manna, má ekki minna vera en grundvöllur vísitölunnar sé réttur. En það segir einmitt í grg. frv., að það hafi orðið að flýta málinu svo mikið, að ekki hafi tekizt að grandskoða þetta. Og það er viðurkennt, að gengið sé út frá því, að kostnaður og viðhald við húseignir sé 50% efni og 50% vinna, en víst sé, að þetta sé ekki rétt. Og í tilefni þess mun jafnvel ríkisstj. hafa haft orð á því og jafnvel lofað, að þetta yrði tekið til nýrrar rannsóknar. Nú hef ég verið svo hófsamur í till. minni, að ég hef ekki farið fram á aðra breyt. á þessum l. en þessi grundvöllur á útreikningi húsaleiguvísitölunnar verði rannsakaður og það tryggt, að hann sé réttur. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. hafi nokkuð á móti því að gera hlutina rétt, ef það er unnt að breyta við þessa menn þannig, að þeir séu ekki beittir beinum rangindum í því að reikna þeirra tekjuúttekt eftir falskri vísitölu. Ég meina ekki falskri í þeirri merkingu, að það sé vísvitandi farið rangt með af þeim, sem reikna út vísitöluna, heldur það, að fölsunin stafi af því, að það sé ekki réttur grundvöllur, sem reiknað er eftir. Ég geri ekki ráð fyrir því, að þetta atriði verði til ágreinings, og ætla ég ekki að flytja mál mitt með neinum áróðri og læt því máli mínu lokið.