02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í D-deild Alþingistíðinda. (6009)

236. mál, húsaleiguvísitala

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Maður verður sjálfsagt að taka því, sem að höndum ber, og þar með að verða nú að gera grein fyrir þessu máli, án þess að þeir, sem eiga að ráða úrslitum þess með atkv. sínum, séu viðlátnir. Þetta er í raun og veru ákaflega leiðinlegt og alls ekki skv. tilgangi þingskapa um meðferð mála. Ég efast stórlega um það, að þm. hafi yfirleitt sett sig inn í þetta mál. Ég held þvert á móti, að þeir þyrftu grg. fyrir því og það sé í raun og veru það eina, sem þeir geta bundið sig við, því að hv. þm. munu tæplega hafa fyrir því að afla sér upplýsinga utan þings um mál, sem þeir búast við að verði skýrt innan þingsalanna. Ég var nú svo óforsjáll, að ég lét ekki fylgja langa grg., því að mér leiðist, að menn séu að rubba upp langri grg., þegar þeir ætla hvort sem er að skýra málin munnlega. Ég ætlaði að láta mínar skýringar koma fram munnlega og bjóst ekki við, að málið mundi bera svo að, að það þyrfti að gera fyrir svo að segja tómu húsi.

Allshn. hefur haft þann hátt á, að hún hefur birt á þskj. 1023 órökstuddar staðhæfingar og líklega ætlað sér að fara að eins og ég að gefa nánari skýringu munnlega, en þær skýringar skella hér á auðum veggjum, ef þær koma fram.

Ég hlýt þó að byrja á byrjuninni, sem er húsaleigul. Það er kunnugt, að þegar hæstv. Alþingi var að leitast við að koma í veg fyrir aukna dýrtíð og verðbólgu, þá var ráð þess m. a. það að taka að verulegu leyti af mönnum umráðarétt yfir einni eign þeirra, húseigninni.

Ég held, að það sé óhætt að segja, að þessu, að taka svo að segja gersamlega af mönnum umráðarétt yfir eign þeirra, hafi ekki verið beitt við aðra en húseigendur. Sjálfsagt hefur mörgum húseigendum þótt þetta hart og möglað yfir því, þó ekki mikið, því að þeir munu hafa gert ráð fyrir því, að þetta kæmi ekki niður á þeim einum. Þetta afnám umráðaréttarins var út af fyrir sig. Menn máttu ekki ráða yfir húseignum sínum sjálfir, nema fyrir sjálfa sig, foreldra eða börn. En síðar var líka tekinn af mönnum að verulegu leyti eignarrétturinn á þann hátt, að menn gátu ekki ráðið yfir því, hvað þeir gerðu sér úr þessari eign sinni. Settar voru mjög strangar reglur um það, að menn mættu ekki hækka leiguna á þessum eignum, og það eru víst einu eignir landsmanna, sem slíkar reginkvaðir hafa verið lagðar á. Nú var mikill meiri hluti Alþingis þeirrar skoðunar, að þetta væri nauðsynlegt og annað mundi leiða til stórra vandræða. En ég held, að enginn háttv. þm. sé svo óréttsýnn, að hann ekki viðurkenni, að þetta var afar hart. Þetta var gert vegna brýnnar nauðsynjar, en ekki fyrir það, að húseigendurnir væru ekki geysilega hart leiknir, og þetta kemur beinlínis fram í þeirri rannsókn, sem fram fór á málinu, og í grg. fyrir frv., sem flutt var hér 1943, þar sem segir, að það séu nokkur hundruð menn hér í Reykjavík, sem hafi svo að segja allt lífsframfæri sitt af húsaleigutekjum. Og það vita allir, hvers konar menn það eru. Það eru yfirleitt gamlir menn, sem hafa á langri ævi og með miklu striti sparað saman fé til húsakaupa, til þess að geta dregið fram lífið í ellinni með því að leigja einhvern hluta af húsi sínu, en þegar að því kemur, að þeir þurfa 10 peninga fyrir 1 til að geta lifað, en mega ekki fá nema 1 fyrir 10 í leigutekjur, þá fer svo fyrir þessum mönnum, að þeir lenda á vonarvöl. En það er annar hópur manna, sem ræður yfir húseignum sínum núna. Það eru menn, sem hafa byggt í stríðinu eða hafa fundið krókaleiðir framhjá húsaleigul. og hafa því haft miklar húsaleigutekjur. Þessi l. koma ekki við þá menn, sem hafa smogið l., og ekki heldur við þá, sem hafa byggt á stríðstímanum.

Það eru þess vegna eingöngu þeir rólegu, löghlýðnu borgarar, sem l. koma í raun og veru niður á.

Þegar húsaleigul. voru sett, þá tóku þeir sig saman, fasteignaeigendur hér í bæ, um það að félag þeirra leitaðist við að finna grundvöll fyrir þessa húsaleiguvísitölu, og mér skilst, að þeir hafi farið skynsamlega og ráðvandlega að þessu. Þeir leituðu til hlutlausra byggingameistara og báðu þá að gefa upplýsingar um þetta eftir sinni fagþekkingu og völdu til þess menn, sem sérstaklega voru kunnugir viðhaldi húsa, og síðan fá þeir skýrslu um viðhald hjá 20 húseigendum, og þeir taka langt tímabil. Þeir vilja binda sig við meðaltal af 10 árum. Þegar þessi skýrsla kemur fram, þá verður útkoman af rannsókninni á þessum húsum, sem þeir velja af ýmsum gerðum, steinhús og timburhús eða nýleg hús og gömul hús, og meðaltal af því verður vísitalan 24,57, en eftir skýrslu byggingameistaranna á húsaleiguvísitalan að vera 23,5. Munurinn er sem sagt ákaflega lítill. Kauplagsn. hafði aðra aðferð. Hún leitaði bara til Skattstofunnar, og það má vel vera, að það séu áreiðanlegar skýrslur, sem Skattstofan fær, en eftir þeim upplýsingum, sem hún fær, á þetta að vera 16%, og ráðh., sem þá er og hefur barizt mikið fyrir húsaleigul., setur markið bara 15%, virðist ekki hugsa neitt um málið annað en þetta sé alveg nóg. Hann byggði það ekki á neinum upplýsingum um málið, en lét handahóf ráða.

Mikil gremja hefur komið fram hjá húseigendum. Fasteignaeigendafélagið hefur margsinnis skrifað bæði kauplagsnefnd og ríkisstj. og kvartað undan því, að þessi grundvöllur sé ekki réttur.

Þegar svo húsaleigul. voru endurskoðuð 1943, þá er tekið fram í grg. fyrir þeim l., að það hafi farið fram aðeins bráðabirgðarannsókn á þessu, en ekki verið tími til þess að gera ýtarlegar rannsóknir. Það lá svo mikið á að koma l. í kring, að ekki vannst tími til að rannsaka þetta til hlítar. Í grg. frv. var sagt, að bráðabirgðarannsóknin á húsaleiguvísitölunni hafi leitt í ljós nauðsyn á því að endurskoða grundvöll vísitölunnar. Í þessu felst í rauninni loforð um það, að þetta skuli gert. Nú skyldi maður ætla, að eitthvað hafi orðið úr framkvæmdum. Svo var þó ekki. Það er viðurkennt af ríkisstj., að bráðabirgðarannsóknin hafi leitt í ljós, að það þurfi að endurskoða grundvöllinn. Ég get ekki skilið, hvers vegna Alþingi á að vera svo mjög á móti skapi, að málið fái endurskoðun, fyrst ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að bráðabirgðarannsókn hafi leitt í ljós, að þess væri þörf. Ég skil ekki, hvers vegna Alþingi ætti að setja sig upp á móti þessum óskum frá vel metnum borgurum, sem viðurkenndar eru af ríkisstj. að vera réttmætar.

Ég hef flutt þessa till., og hv. allshn. hefur leitað til kauplagsn. Það kemur í ljós, að milli kauplagsnefndar og fasteignaeigenda er mikill ágreiningur. Þeim kemur ekki saman um neitt. Það hafði auðvitað allt farið milli þeirra með kurteisi og hæversku sem vera ber, en ágreiningur var allmikill. Fasteignaeigendafélagið hefur hvað eftir annað skrifað n. og hvað eftir annað sent henni gögn, en kauplagsn. hafði bara sagt, að hún gæti ekki tekið þetta til greina. Hún hefur skýrt allshn. frá, að það sé ekki mikill ágreiningur um vísitöluna, en á sama tíma birtir hún, að hún álíti byggingarvísitöluna vera 338, en Fasteignaeigendafélagið þykist hafa sannanir fyrir því, að hún sé 600. Kauplagsn. segir, að hlutfallið milli vinnu og efnis sé 58,7 á móti 48,3, en Fasteignaeigendafél. telur vinnuna 70% og efnið 30%, og við, sem þurfum að sjá um viðhald á húsum, þurfum ekki að láta segja okkur um þetta, við þurfum ekki að láta vísa málinu til hinnar háu allshn. til að segja okkur, hve geysilega fer fjarri, að hlutfallið milli vinnu og efnis sé eins og kauplagsn. segir. Viðhald kostar oft næstum eingöngu vinnu. Ég hef oft fengið nokkur hundruð króna reikning fyrir viðhald húss, þar sem efni er ekki nema nokkrir tugir kr., hér um bil allt saman vinna. Allshn. segist byggja till. sína um frávísun till. minnar á því, að hún hafi ekki fengið nægilegar skýrslur eða sannanir fyrir því frá húseigendum, hvað þeir borga í raun og veru fyrir viðhald húsanna, hvað þeir kosti miklu til þess, og grunar, að mér skilst, að þeir haldi ekki húsunum við eins og þarf. En ég vil spyrja hv. form. n., en hann er sá eini úr n., sem er hér, annar af tveimur hv. þm., sem hér sitja: Álítur hann, að það sé ódýrara að trassa viðhaldið heldur en að gera árlega við? Er ekki dýrasta viðhaldið, sem menn ekki megna að framkvæma á réttum tíma? Mín reynsla er a. m. k. sú, að það er tvöfalt dýrara að halda húsinu ekki við en að gera það, og enginn vafi er á því, að ef viðhald er dregið svo að árum skiptir, verður það margfalt dýrara. En það verða einmitt þeir menn að gera, sem hafa tekjur sínar að mestu leyti af leigu, en fá ekki leiguna í neinu samræmi við dýrtíðina. Þeir eru þess ekki megnugir að halda húsunum við og verða að láta þau níðast niður og hafa þar af leiðandi miklu dýrara viðhald.

Ég sé nú enga ástæðu til að vera að þreyta þessa hv. tvo þm. hér með langri ræðu. (Forsrh.: Hv. þm. telur ekki hæstv. forseta! — Forseti: Og ekki hæstv. forsrh.) Ég gerði ekki ráð fyrir, að rök mín gengju inn um bakið á hæstv. forsrh., því að hann sneri við mér bakinu, en annars tel ég hann a. m. k. tíu þm. ígildi, en ég vil ekki heldur þreyta hæstv. forsrh., og læt máli mínu lokið með þeim ummælum, að mér skilst, að það komi ekki neinum að meini, þó að húsaleiguvísitalan verði rannsökuð. Ég get ekki trúað öðru en hæstv. Alþingi vilji verða við þessari mjög svo kurteisu og hóflegu beiðni Fasteignaeigendafél., með því að fyrir liggur fyrirheit frá hæstv. fyrrv. ríkisstj. um það, að hún vilji láta þessa rannsókn fara fram, og þau ummæli fylgdu í grg. hennar við endurnýjun frv. 1943, að bráðabirgðarannsókn hafi leitt í ljós brýna þörf á rannsókn málsins. Þess vegna vil ég ekki öðru trúa en hæstv. Alþingi fallist á þessa hóflegu beiðni þeirra manna, sem vissulega hafa verið leiknir einna harðast, hvað eignarétt snertir, allra manna í þjóðfélaginu.