05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

143. mál, fjárlög 1945

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Hv. 2. þm. S.-M., sem venjulega er fremur rökfastur, hefur nú brugðið af þeirri venju sinni og það svo mjög, að hann virðist alls ekki vita skil á réttu og röngu.

Hann sagði hér áðan, að dýrtíðinni hefði verið sleppt lausri haustið 1941–42 með andstöðu gerðardómsl. En í gær voru færð hér rök að því, að Framsfl. steig fyrsta skrefið til hækkunar dýrtíðinni með því að draga landbúnaðarvörurnar út úr haustið 1941.

Næsta skrefið voru gerðardómsl. í ársbyrjun 1942. Þá höfðu nokkrir iðnaðarmenn, meðal annarra járnsmiðir og blikksmiðir, farið fram á 15% kauphækkun. Þetta var ekki mikið, og yfirleitt var ástandið þannig, að verkalýðurinn var ánægður. Viðbrigðin frá atvinnuleysinu áður voru svo mikil, að menn kröfðust ekki mikils. En setning gerðardómsl. í ársbyrjun 1942 hafði þau áhrif, að iðnaðarmenn og verkamenn hófu skæruhernað, sem lyfti mjög undir dýrtíðina. Alþfl. varaði þá við þessum aðgerðum og dró þeirra vegna ráðh. sinn út úr stj. Ætlunin var að kúga verkalýðinn til hlýðni, og fyrir því var Stefáni Jóhanni Stefánssyni neitað um að gera grein fyrir afstöðu sinni til gerðardómsl. í útvarpinu. Það fór því í rauninni saman tvennt: annars vegar, að tilraun var gerð til að kæfa málfrelsi eins ráðh. í ríkisstj., og hins vegar lúaleg tilraun til að lögfesta kaup þvert ofan í vilja vinnandi stétta í landinu. — Mér þótti vænt um að heyra hv. 6. þm. Reykv. tala hér um það, hve óviðkunnanlegt það væri, að setja l. um kaupgjald þvert ofan í vilja verkaníanna. Ég lít á þetta sem viðurkenningu á því, að það hafi verið misráðið að setja gerðardómsl. Og það hryggir mig, að hv. 2. þm. S.-M. og flokksmenn hans, t.d. hv. þm. Str., sem talaði hér í gærkvöld, skuli enn halda fast við þá skoðun, að rétt sé að setja slík l. í landinu þvert ofan í verkalýðsfélögin, þó að reynslan hafi sýnt, að slíkt er ógerningur.

Hv. þm. Str. sagði í gærkvöld, að ríkisstj. væri á undanhaldi í kaupgjaldsmálum. Hvað meinar hann með undanhaldi í kaupgjaldsmálum? Það er auðsætt á öðru, sem þeir félagar hafa sagt hér, að með þessu eiga þeir við það, að ríkisstj. hafi látið fara fram falska samninga milli Alþýðusambandsins og vinnuveitenda um þessi mál.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) sagði, að það undarlega hefði skeð í þessu máli, að Alþfl. hefði gengið til samstarfs við höfuðfjendur sína gegn loforðum um framkvæmdir á nokkrum áhugamálum hans. Það er svo að sjá sem framsóknarmenn haldi, að þeir eigi einhvern einkarétt á því að gera málefnasamninga við andstæðinga sína. Má í þessu sambandi minna á, að Framsfl. virðist ekki hafa elskað Sjálfstfl. sérstaklega nema í samvinnu með honum.

Hæstv. samgmrh. hefur rakið mjög skilmerkilega, hvaða mál það voru, sem Alþfl. taldi sér svo mikils virði, þegar hann gekk til þessarar samvinnu, að hann áleit rétt að taka þátt í þessari stjórnarmyndun. Þ. á m. voru launal., endurskoðun stjskr. og ýmis önnur mál, sem Alþfl. hefur barizt fyrir á undanförnum árum. Ég tel fyrir mitt leyti, að nýafstaðnir samningar um stjórnarmyndun séu í ýmsum atriðum allmiklu róttækari en samningar þeir, sem Alþfl. gerði við Framsfl. árið 1934. Þegar þetta er athugað, þarf engan að undra, þó að Alþfl. láti ekki gamlan ágreining um ýmis stefnumál verða því til fyrirstöðu, að gert verði samkomulag um ýmis mál, sem beinlínis geta orðið til þess að bæta lífskjör alþýðunnar í landinu, ef þau koma til framkvæmda.

Mér virðist, að hv. þm. sé ýmist að hálfvona eða jafnvel óska, að það verði hrun í landinu, af því að ekki fáist samningar um sölu á innlendri vöru til útlanda, eða hálfráðleggja peningamönnum í landinu að leggja ekki fé í atvinnufyrirtæki, af því að þau geti ekki borgað sig og féð hljóti því að tapast. Ég vil helzt ekki skilja hv. þm. á þessa leið, en því miður virðist ekki vera hægt að túlka ræðu hans á annan hátt. Nú má vel vera, að vandkvæði nokkur verði á því að selja með föstum samningum afurðir fyrir sama verð og samið hefur verið um undanfarin ár, og ég veit, að hv. 2. þm. S.-M. eru kunnir þeir erfiðleikar, sem á því eru. Annað mál er það, að þótt þetta geti valdið allmiklum vandkvæðum, þarf það ekki frá mínu sjónarmiði að valda neinum vandræðum, vegna þess að við höfum hingað til ekki grætt fé á þeim afurðum, sem seldar hafa verið úr landi með föstum samningum. Það eru aðeins undantekningar. Undanfarin ár var selt síldarmjöl og síldarlýsi með föstum samningum, og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er mjög hæpið, að fyrir það fáist sama verð og fengizt hefði fyrir það á frjálsum markaði, ef hægt hefði verið að flytja það út. Enn má benda á það, að seldur hefur verið fiskur kominn um borð í skip með föstu verði, og virðist á þann hátt aldrei hafa fengizt sambærilegt verð við það, sem fengizt hefði fyrir fiskinn með því að selja hann á frjálsum markaði í Englandi um sama leyti. Ég vona því, að eitthvað fari að rætast úr þessu, þegar hægt verður að selja fiskinn á frjálsum markaði.

Ég gat þess áðan, að sú stefna ríkisstj. að bæta úr atvinnuleysi og lífskjörum almennings ætti sér formælendur víða um lönd og væri uppi alls staðar hjá hinum frjálsu, sameinuðu þjóðum. Bandaríkjamenn, sem höfðu lofað kauphækkun, stöðvuðu kaupið af styrjaldarástæðum. Nýjar fréttir frá Bandaríkjunum herma, að nú þegar verði byrjað að hækka kaupið, þó að ófriðnum við Þýzkaland sé ekki lokið. Þetta gera þjóðir, sem eiga í styrjöld og eiga við mikla örðugleika að etja, en telja sér þó ekki vænlegt annað en fara þegar að efna loforðin um kauphækkun, sem þó ætti ekki að koma til framkvæmda fyrr en í stríðslok. Eftir sömu heimildum hefur verið lögð fyrir þing Bandaríkjanna löggjöf um almennar tryggingar, lækkun skatta á lágtekjumönnum og ýmsar ráðstafanir til að auka markaðinn.

Bandaríkjastjórn virðist vera nákvæmlega á þeirri sömu leið og hv. 2. þm. S.-M. reynir að gera nýju ríkisstj. tortryggilega fyrir í augum landsmanna.

Um leið og ég lýk máli mínu, verð ég að segja það, að ég óska hv. 2. þm. S.-M. betra hlutskiptis en hann hefur hér í kvöld.