21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (6017)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Mér þykir rétt nú þegar að lýsa viðhorfi ríkisstj. til þessa máls.

Enda þótt ríkisstj. sé efnislega samþykk tillögu þessari, vill hún samt sem áður bera fram þá ósk, að till. verði afgr. með þeim hætti, að henni sé vísað til stj. Er þessa óskað af þeim ástæðum, að ríkisstj. telur eðlilegast, að þing og stj. standi sameiginlega að þessum hátíðahöldum. Fallist Alþ. á þessa ósk, mun ríkisstj. framkvæma till. þannig að skipa nú þegar fimm manna n. Mun verða leitazt við að velja fjóra nm. samkv. tilnefningu þingflokkanna, en einn nm. mun ríkisstj. skipa án tilnefningar. Ríkisstj. mun veita n. sérhvern þann stuðning, er hún má, og er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að n. hagi svo störfum, að hátíðin geti farið fram á þeim tíma, sem kunnugt er, að mikill meiri hl. Alþ. er ásáttur um.

Ég vildi taka þetta fram nú þegar við þessa umr.