21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í D-deild Alþingistíðinda. (6021)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Páll Zóphóníasson:

Mig langar til að fá skýringar á tveim hlutum varðandi þessa till., áður en kemur til að greiða atkv. Það standa að henni svo margir menn, að ég geri ráð fyrir, að ekki standi á svörum.

Það, sem mig langar til að spyrja um, er það, hvar þessi hátíðahöld eiga að vera, hvort þau eiga að vera í hverri sveit á Íslandi eða í einhverjum landsfjórðungum. Ég geri ráð fyrir, að menn séu búnir að hugsa um þetta og hafi svarið á reiðum höndum. — Hitt er um það, hvað þessi hátíðahöld kosta.

Alþingishátíðin kostaði allmikið fé. Og fyrir stuttu var talað um að verja 2 millj. kr. til ákveðinna hluta, sem ekki var gert ráð fyrir á fjárl. Fjmrh. tilkynnti þá, að þess væri ekki að vænta, að tekjuafgangur yrði á fjárl. þessa árs, og rökstuddi það, eftir því sem hann og ríkisstj. leit á það mál. Nú geri ég ekki ráð fyrir, að þessi hátíð kosti eins mikið og Alþingishátíðin kostaði. En talsvert fé hlýtur hún samt að kosta — og því meir, því vandaðri sem hátíðahöldin munu verða. Hefur breytzt eitthvað með fjárhag ríkissjóðs, frá því að hæstv. ráðh. flutti ræðu sínu hér um daginn, svo að ríkissjóður geti nú tekið á sig veruleg aukaútgjöld? Telur hæstv. ráðh. meira fé til afgangs en þegar hann talaði hérna um daginn? Þetta langaði mig til að vita, áður en ég greiddi atkv. með þessu. Annars er algengt að vísa till. til ríkisstj. til þess að fá þar hægt andlát.