21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í D-deild Alþingistíðinda. (6023)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Það var gert samkomulag um það milli þriggja flokka í þinginu að flytja þessa þáltill., sem hér liggur fyrir. Flm. hennar eru allir fulltrúar þessara flokka í stjórnarskrárnefnd og í lýðveldisnefndinni, sem á að verða. Það var ætlazt til þess í þessari þáltill., að Alþ. gerði þann undirbúning, sem þyrfti, til þess að hátíðahöld færu fram 17. júní 1944 í tilefni af stofnun lýðveldis á Íslandi. Það var búið að ræða allmikið í n. um undirbúning þessa máls og loks að koma sér niður á að flytja þetta mál með þeim, að því er þótti, virðulega hætti, að svo margir þm., sem þarna standa að, skyldu vera flm. málsins á Alþ. Og það var bundizt samtökum milli þessara flokka um að samþ. þessa þáltill. og meira að segja rætt nokkuð um að hafa nokkur samráð um það, hvaða menn yrðu í n. settir.

Þegar svo þessi þáltill. kemur til fyrri umr., þá heyri ég á ræðum hv. þm., sem ásamt mér eru þrír af hinum fremstu flm. hennar, að búið er að gera samkomulag um að svíkja þessa þáltill., þannig að hún skuli ekki samþ. á Alþ., þ. e. að Alþ. skuli ekki annast þetta verk og Alþ. skuli þannig ekki heldur gefa yfirlýsingu um, að stofna skuli lýðveldi og halda hátíð í sambandi við það 17. júní 1944 á Þingvöllum. — Mér mundi þykja þetta mikilli furðu gegna, ef ég hefði ekki upplifað önnur svik nýlega af hálfu þessara manna. En mér þykir þetta samt furðu gegna, að svo langt skuli gengið, að sú yfirlýsing skuli koma fram, sem hér hefur verið gefin í sambandi við þessa þáltill. Að þessi þáltill. er komin fram þetta snemma, stafar af því, að þegar verið var að ræða í stjskrn. að rjúfa það samkomulag, sem gert var af flokkunum um, að gildistökudagur stjskr. yrði 17. júní, þá átti að reyna að bæta þessi rof á samkomulaginu upp með því að flytja nú þegar þessa þáltill. — Þá gerast þau tíðindi, að eitt blað hér í bænum, sem sérstaklega hefur barizt á móti sjálfstæðismálinu, heimtaði, að ákvæðið um gildistöku stjskr. 17. júní yrði tekið út úr þessari þáltill. og hætt sé við að samþ. það. Og þegar svo þáltill. þessi kemur til umr. hér í þinginu, stendur hæstv. forsrh. upp og leggur til, að þáltill. verði vísað til ríkisstj., sem eins og kunnugt er, er ekkert annað en form fyrir því að svæfa mál og drepa á nokkuð mannúðlegan hátt. Það er auðséð, hvað hér er á ferð. Þessi þáltill., sem lögð var fram af þremur þingflokkum til þess að staðfesta það af hálfu Sjálfstfl. og Framsfl., að þeir meintu það, að þeir stæðu saman um, að gildistaka stjskr. yrði 17. júní 1944, þeir svíkjast nú þegar við fyrri umr. málsins frá þeirri yfirlýsingu.

Mig furðar á því, að hæstv. ríkisstj. skuli láta hafa sig til þess í þessu sambandi að vera nokkurs konar dula fyrir þessa flokka í þessum skrípaleik til þess að þurrka af sér brigðmælgi. — (Forsrh: Dula?) Já, dula, hæstv. forsrh., ég sagði það. Mig furðar á, að hæstv. ríkisstj. skuli lýsa yfir í þessu máli, að Alþ. hafi ekki mannrænu í sér til þess að samþ. till. og að af því að Alþ. gefist upp á því, þá skuli stj. bjarga þessu við. Hún skuli útnefna menn í þessa n., fyrst þingið hafi ekki dug í sér til þess sjálft. Hún skuli vera svo góð að taka till. til greina og taka einhverja menn frá þingflokkunum í n. — Ég verð að segja, að mér finnst leitt, að hæstv. ríkisstj. skuli vera að blanda sér inn í mál, sem hún veit vel, að er allhatrammt deilumál milli þeirra flokka, sem að þeirri stjskr. standa, er nú að fara að samþ. á þessu þingi. Og hæstv. ríkisstj. gerir það auðsjáanlega ekki til þess að miðla málum á nokkurn hátt. Hæstv. forsrh. hefur t. d. ekki talað við Sósfl. um þessa till. og veit þó vel, að við erum ekki síður flm. að henni en þm. Sjálfstfl. og Framsfl., sem að henni standa. En hitt þykist ég viss um, að þessi till. hæstv. forsrh. muni ekki vera ókunn formönnum Framsfl. og Sjálfstfl., þegar hún er borin fram hér á Alþ. Ríkisstj. er þannig auðsjáanlega að reka erindi þeirra manna, sem komið hafa sér saman um að svíkja samkomulag það, sem þarna var gert. Og ég hafði ekki búizt við, að hæstv. ríkisstj. mundi gera það. Við erum ekki vanir því, þm. Sósfl., þegar ríkisstj. skipar n., að tekið sé tillit til þess, sem við viljum. Við búumst ekki við því, að hún muni heldur gera það í þessu sambandi, að taka slíkt tillit, og við mundum ekki heldur kæra okkur um það. Ég hef þótzt vinna að því eins og hver annar, að sem bezt gæti gengið afgreiðsla sjálfstæðismálanna — og ekki sízt hvað snertir undirbúning þjóðhátíðar á Þingvöllum. Ég hef lagt fram till. um það fyrir tveimur mánuðum án þess að geta komið því máli lengra áleiðis. Og mér er kunnugt um, hve mikil þörf er á, ekki aðeins samheldni, heldur líka skapandi krafti. Ég álít því, ef fara á með málið eins og hæstv. forsrh. og formenn Sjálfstfl. og Framsfl. vilja, að þá sé illa farið, — ef Alþ. á þannig að verða sér til skammar og láta málið úr höndunum á sér á þann hátt. Hæstv. Alþ. er þess fullkomlega umkomið að láta undirbúa og framkvæma hátíðahöld á Þingvöllum.

Það hefur verið rætt um það af hv. þm. Borgf., að ríkisstj. ætti að hafa fulltrúa í þessari undirbúningsnefnd. Og það var minnzt á það, þegar þessi þáltill. var lögð fram, og ekkert hefur verið haft á móti því út af fyrir sig. En það var hins vegar ákveðið að leggja till. fram eins og gert var, því að það var álitið, að ekki mundi verða að deiluatriði, hvort ríkisstj. ætti fulltrúa í n. eða ekki. En hitt er aðalatriðið, að þetta er verk, sem Alþ. á að vinna og því er treystandi til að vinna.

Ég vil nú skora á hæstv. forsrh. að taka til baka till. sína um, að málinu verði vísað til ríkisstj. Geri ég það út frá því, að þingflokkarnir hafa komið sér saman um að bera þetta mál fram, og út frá því, að þetta er mál, sem hæstv. Alþ. sjálft á að hafa með að gera, sem það hins vegar getur haft góða samvinnu um við ríkisstj. og vel má framkvæma, ef ríkisstj. álítur það heppilegra, með því að breyta till. ofurlítið, þannig að einn maður gæti verið í n. frá ríkisstj. En ég vil algerlega mótmæla því, að þáltill. sé vísað til ríkisstj. Ég vil lýsa því hér, að ég álít það brot á því samkomulagi, sem gert var á milli flm. till., ef gera ætti slíkt. Og mér þykir ákaflega leitt, ef ríkisstj. lætur hafa sig til þess að vera eins konar skjól fyrir rof á slíku samkomulagi. Ég vil því eindregið beina því til hæstv. forsrh. að taka þá till. til baka, að málinu verði vísað til ríkisstj.