21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (6025)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Þetta er í raun og veru alls ekkert nýtt mál, sem hér hefur verið fjallað um. Ég veit ekki annað en það hafi alltaf verið gert ráð fyrir þessum hátíðahöldum, og það hefur verið rætt a. m. k. í Sjálfstfl. Og mér skilst, að frá upphafi hafi verið gott samkomulag um það, að Alþ. efndi til einhverra hátíðahalda í sambandi við gildistöku lýðveldisins og skilnaðarins við Dani. Ég hygg, að víxlspor í þessu máli hafi aldrei verið nein stigin, fyrr en upp kom þessi hópur dansklundaðra manna, sem fóru að sýna sjálfstæðismálinu tilræði. Það hefur aldrei verið minnzt á það fyrr, að nokkur hlutur ætti að geta raskað því, að efnt yrði til hátíðahalda í sambandi við þennan merkilega atburð. Það var gert ráð fyrir, að Alþ. mundi gangast fyrir þeim, eins og sjálfsagt er. Ég sé ekki heldur ástæðu til þess, að Alþ. fari að fela þetta einhverjum og einhverjum öðrum en það sjálft kýs, að undirbúa þessi hátíðahöld, sem Alþ. á sjálft að bera alla ábyrgð á, hvernig til verði stofnað og fram kunna að fara.

Hæstv. forsrh., sem bar fram ósk um, að þessu máli yrði vísað til ríkisstj., lýsti yfir því, að ríkisstj. mundi þá skipa fjóra menn í undirbúningsn. fyrir þessi hátíðahöld eftir tilnefningu þingflokkanna og einn án tilnefningar. Ef fimm menn verða í þessari n., — og það er ekkert aðalatriði, hvort þeir verða fimm eða fleiri, — þá fyndist mér mjög vel viðeigandi, að þeir verði skipaðir á þennan hátt, og ég hef aldrei látið mér annað til hugar koma. Mér finnst sjálfsagt, að þingflokkarnir eigi fulltrúa í þessari n. og ríkisstj. líka, eins og hv. þm. Borgf. tók fram á undan mér, að honum þætti hlýða. En ef hæstv. ríkisstj. þætti þetta ekki koma nógu skýrt fram í þáltill., þá sýndist mér miklu beinni leið og betri málsmeðferð, að þáltill. væri breytt á þann hátt, að þar kæmi fram, að eftir þessum reglum yrði n. skipuð. — Það var líka hugsanleg önnur breyt., þó að ég hefði verið á móti henni, að í þáltill. væri tekið fram, að ríkisstj. væri falið að skipa þessa n. og þá eftir þeim reglum, sem þar væru til greindar.

En að vísa slíkri till. frá, — því að ef henni er vísað til ríkisstj., þá er henni vísað frá Alþ., — það eru þau undur, sem ég er sannfærður um, að eiga sér ekkert fordæmi. Þetta er till., sem borin er fram af 13 hv. þm., — sem er að vísu ekki talin nein happatala, — og að leggja til að vísa henni frá, finnst mér ekki ná nokkurri átt. Ég held, að það sé í raun og veru ekki hægt að vísa þessari þáltill. frá afgreiðslu Alþ., því að það kemur í bága við rökrétta hugsun. Og þar að auki er ég alveg viss um, að það mundi vekja hreint og beint þjóðarhneyksli, ef Alþ. vísar frá sér að gangast fyrir hlut slíkum sem þessum.

En nú er því sjálfsagt ekki til að dreifa, að ástæðan fyrir ósk ríkisstj. stafi af því, að við nánari athugun hafi mönnum þótt þetta betur við eiga, að Alþ. hefði ekki með þessi hátíðahöld að gera, heldur ríkisstj. Ástæðan er engin önnur en sú, — sem er opinbert mál og fram tekið í Alþýðublaðinu, — að nokkrum mönnum hefur af einhverjum ástæðum sýnzt sér henta og sæma að berjast á móti sjálfstæðismálinu eins og Alþ. hafði hugsað sér að leiða það til lykta, og þeir menn hafa auðvitað heimtað þessa málsmeðferð. Alþýðublaðið hefur heimtað, að ákvæðið um, að hátíðahöldin væru miðuð við 17. júní, væri tekið burt úr þáltill., sem stendur í till., að eigi að vera í tilefni af gildistöku stjskr. þann dag. Það er m. ö. o. þannig, að þessi hópur manna, sem ég vona, að sé nú ekki stór, hann heimtar, að hæstv. Alþ. taki þetta aftur, éti þetta ofan í sig. Og það er einmitt þetta, sem hér er verið að beygja sig fyrir. — Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara neitt sérstaklega mörgum orðum um þetta. Það er frá mínu sjónarmiði svo langt fyrir neðan allar hellur. Og ég endurtek það, að ég er sannfærður um, að það vekur alþjóðarhneyksli, ef Alþ. gengur undir slíkt jarðarmen.

Út af þeim ummælum hæstv. forsrh., að það væri eðlilegt áframhald að vísa þessu máli nú til ríkisstj., þannig að hún hefði með þessi hátíðahöld að gera, eðlilegt áframhald af því, að ríkisstj. bar fram till. til þál. um niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins og frv. um lýðveldisstjskr., — út af þessum ummælum vil ég segja það, að allir vita, að það er þingið, sem hefur látið semja þetta hvort tveggja, þáltill. og frv., sem ég nefndi. Og það er ekki nema formsatriði, að ríkisstj. hefur borið þessi mál fram á Alþ. Þessi síðastnefnda þáltill. og frv. eru samin að tilhlutun Alþ. af alþingisskipaðri nefnd. Og að vísa þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, til ríkisstj., er því ekkert rökrétt framhald af því, að ríkisstj. bar hin málin fram á hæstv. Alþ. Þarna kemur að mínu áliti fram misskilningur hjá hæstv. forsrh., því að ef þessari þáltill. er vísað til stj., þá er hér verið að taka úr höndum Alþ. það, sem raunverulega getur ekki verið í höndum annarra aðila en þeirra, sem Alþ. skipar. Og að vísa þessu máli til ríkisstj. er eingöngu gert til þess að myrða þetta ákvæði í þáltill. um gildistöku lýðveldisstjskr. 17. júní 1944.