21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í D-deild Alþingistíðinda. (6029)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Ólafur Thors:

Ég segi, eins og ég áðan sagði, að ég tek ekki þátt í því, sem hér hefur farið fram, nema ég megi til. Ég sagði, að mér þætti það ekki auka á meðferð málsins að vera hér með slíkt að tilefnislausu. Ég sagði ekki eitt einasta orð í þá átt, að það væri óvirðuleg meðferð, að sumir hv. þm. væru á móti því að vísa þessu til ríkisstj.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni, að ég hefði talið það meðferð málsins til ávirðingar, að menn voru ekki á eitt sáttir. Þetta sannar það, sem ég áður sagði, að menn eru að leita að ágreiningsefni. Ég vil ekki vera með getsakir í garð Sósfl. og vil líta svo á, að þessi framkoma flokksins stafi af því, að flokkurinn vegna fortíðar sinnar liggi undir þeim grun að vera ekki heill í því, sem hér er aðalmergur málsins, að Íslendingar fari með þessi mál. Ég álít, að það sé einhver minnimáttarkennd, sem veldur þessari tilhneigingu til þess að „spila“ forustuflokk í þessu máli að tilefnislausu. En ég vil ekki gera flokknum þær getsakir, að hann sé skiptur í málinu.