21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í D-deild Alþingistíðinda. (6032)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hæstv. dómsmrh. minntist á það, að ríkisstj. hefði ekki beðið um að flytja stjskrfrv. og þál. Ég orðaði þetta þannig, að ríkisstj. hefði beðið um þetta, farið fram á það. Ég skal rökstyðja, að þetta var rétt hjá mér. — Ríkisstj. ætlaði sér ekki að leggja fram stjskrfrv. mþn. Það var annað stjskrfrv. Það var eftir samkomulagi við þessa þrjá flokka, að ríkisstj. flutti frv., og þessir flokkar settu það skilyrði, að hún flytti það eins og það kom frá stjskrn. Það er því misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., ef hann heldur, að það hafi ekki verið í samráði við þessa flokka, að það var flutt. Ríkisstj. hefur að heita má samið við flokkana um þetta.

Hv. þm. V-Húnv. sagði um þetta, að það hefði ekki verið gert samkomulag milli þriggja flokka. Ég veit ekki, hve oft samkomulag hefur verið gert þannig, að allir séu sammála, en undarlegt er það orðið, ef maður má ekki treysta því, þegar 13 þm. flytja þál. sem fulltrúar síns flokks. Og þegar ekki færri en 5 þm. Framsfl. eru flm. till., þá held ég, að það sé ekki nein goðgá að segja, að það sé samkomulag milli flokka um þetta. Og ef gera má ráð fyrir, að það sé samkomulag milli flokka, þá held ég, að segja megi, að það hafi verið samkomulag milli þriggja flokka, sem þar hefur verið rofið. En í öllu falli er þó þarna um að ræða samkomulag milli 13 manna, og það samkomulag hefur verið rofið.

Ég sé það, að hv. þm. G-K. vill fara út í það að ræða önnur mál, og ég er reiðubúinn til þess. Ég vil gjarnan gera upp þessi sjálfstæðismál og alla framkomu Sjálfstfl., ef þessi hv. þm. æskir eftir. Ég þori að leggja fram afstöðu Sósfl. í öllum þessum málum, frá því að byrjað var að ræða þau, og ég þori að bera hana saman við það, sem hv. þm. hefur gert í þessu máli. Hv. þm. er með þessu að storka mér, tala um, að við viljum vera einhver forystuflokkur. Ég held, að það hafi verið ég sjálfur, sem sagði við 1. umr. stjskrn., að enginn flokkur vildi telja sig forystuflokk í þessu máli, heldur hefði Alþ. forystuna. Ég mun því við síðari umr. rekja þessi mál með þeirri afstöðu, sem okkar flokkur hefur tekið, frá því að það var fyrst lagt fram.