21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (6035)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Mig undrar nokkuð sá þytur, sem orðið hefur út af þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, þar sem mér skilst, að um málefnið sjálft hafi í raun og veru enginn ágreiningur komið fram við umr. og eingöngu er um að ræða mjög óverulegan ágreining um form til þess að hrinda því fram, sem fyrir öllum þingheimi virðist vaka.

Ef litið er á þá þáltill., sem hér liggur fyrir, þá er hún eðli málsins samkvæmt ekki annað en áskorun til hæstv. ríkisstj. um að greiða nauðsynlegt fé úr ríkissjóði, til þess að af ríkisins hálfu verði efnt til hátíðahalda á Þingvöllum og víðar um landið 17. júní, þegar gildistaka stjskr. er ráðgerð, og að Alþ. ætli sér að kjósa forstöðunefnd þessara hátíðahalda. Jafnframt þessu hefur svo komið fram af hálfu allra aðila, sem hér hafa talað, að þótt í þáltill. sjálfri sé ráðgert, að Alþ. kjósi hátíðanefndina, þá er af öllum talið sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. skuli eiga þess kost að eiga fulltrúa í n., og enginn hefur nokkru sinni haft á móti því. Meira að segja er hægt að upplýsa það af hálfu flm., að það er beinlínis ráðgert og þess óskað, að allir flokkar þingsins taki sæti í þessari n. Og var þó erfitt að koma hvoru tveggja þessu við, ef hlutfallskosning ætti sér stað um þetta, eins og í þáltill. segir. Þess vegna var það, að þáltill. var borin fram meira sem tilraun um það, hvort ekki væri hægt að sameina alla flokka Alþ. og ríkisstj. um það að tilnefna menn í þessa n., heldur en það, að till. ætti að vera það endanlega orð flm. um, hvernig þessari nefndarskipun skyldi háttað. Þegar svo þáltill. kemur hér til umr., skeður það þegar í upphafi umr, og án þess að nokkur atkvgr. þurfi að fara fram um það, að hæstv. forsrh. lýsir yfir því fyrir hönd ríkisstj., að það sé óþarfi af Alþ. að skora á ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði í þessu skyni. Einungis ef þingið vill hafa þá einföldu málsmeðferð að vísa málinu til ríkisstj., þá muni ríkisstj, skoða það sem nægan þingvilja fyrir þeirri fjárveitingu, að þessi þáltill. er komin fram. Ríkisstj. vill m. ö. o. taka á sig ábyrgð á því að greiða fé úr ríkissjóði í þessu skyni. En það verður ekki greitt nema annaðhvort með fjárl. eða fjáraukal. En hæstv. forsrh. lýsir því sem svo miklu áhugamáli ríkisstj., að þetta verði gert, að hann telur, þar sem yfirgnæfandi þingvilji sé fyrir því og vilji ríkisstj., að full trygging sé fyrir því, að formleg fjárveiting fáist á sínum tíma fyrir þessum fjárgreiðslum, þó að till. sé vísað nú til ríkisstj. Og mér virðist þessi aðferð hæstv. ríkisstj. sízt vera til þess að gefa í skyn, að verið sé að grafa þessa þáltill., heldur til þess að sýna enn ríkari áhuga um, að til hátíðar verði efnt, en fyrir fram var jafnvel hægt að búast við. Og hæstv. ríkisstj. lýsir yfir því, að hún muni jafnvel óska eftir að eiga fulltrúa í hátíðanefndinni og óska eftir því, að miðstjórnir flokkanna tilnefni menn í hátíðanefndina. Þetta er nákvæmlega það sama og fyrir okkur vakti og við treystum okkur ekki til að orða í till., vegna þess að við á því stigi málsins vissum ekki, hvort allir flokkar þingsins mundu vera fáanlegir til að gera þetta. Ef hæstv. ríkisstj. vill taka á sig að gera þessar umleitanir og vill gangast fyrir því, að n. verði skipuð á þennan veg, þá skilst mér, að málinu sé nú frekar hraðað, svo að það nái fram að ganga, heldur en við flm. till. gátum vonazt eftir. Mér finnst það gróði fyrir þá, sem að þessari þáltill. hafa staðið, að fengin er yfirlýsing og ósk hæstv. forsrh. um, að till. verði nú að efni til samþ., eins og hæstv. forsrh. leggur til, með því að vísa henni til ríkisstj., svo að hún getur í dag eða á morgun snúið sér til flokkanna og óskað eftir tilnefningu þeirra í þessa n. — Mér virðist, að þetta allt, sem fram er komið, sé full trygging fyrir því, að það náist, sem við höfum óskað eftir.

Varðandi gildistökudag stjskr. í þessu sambandi þá var það einnig, að hæstv. forsrh., — ef ég tók rétt eftir, — taldi sjálfsagt, að hátíðarundirbúningnum yrði svo háttað, að hátíðin yrði haldin á þeim degi, sem vitað væri, að meiri hl. þm. vildi, að yrði gildistökudagur stjskr. Nú er vitað mál, að a. m. k. 45 eða e. t. v. fleiri af hv. alþm. hafa þegar margfaldlega lýst yfir, að fyrir því muni þeir berjast, að gildistökudagur stjskr. verði 17. júní 1944. Í yfirlýsingu hæstv. forsrh. felst því það, að ríkisstj. ásamt n., sem skipuð verður, og okkur þessum 45 þm. a. m. k. ætlar að sjá til þess, að þessi hátíðahöld verði við það miðuð, að hátíð geti orðið 17. júní n. k., eins og í till. segir. Ég get því ekki annað sagt, þegar fyrir hendi er þessi yfirlýsing hæstv. ríkisstj. og þegar litið er á það, hvað fram á er farið í þáltill., en að það sé greiðfærari leið, sem hæstv. ríkisstj. stingur upp á í þessu máli en jafnvel að samþ. till. formlega. Bókstaflega öll atriði till. eru tryggð með till. ríkisstj. Og þess vegna hlýtur það, eins og tekið hefur verið fram í þessum umr., að vekja grun um, að verið sé að leita að ágreiningsefnum, ef farið er að gera þessa málsmeðferð út af fyrir sig að ágreiningsefni. En hins vegar gat hæstv. ríkisstj. komið í veg fyrir þessi hátíðahöld með því að neita að greiða fé til þeirra úr ríkissjóðnum, þó að till. hefði verið samþ.

Þetta, sem ég hef fram tekið, gerir það að verkum, að ég mun óhikað greiða atkv. með till. hæstv. forsrh. og það í dag, í því trausti, að undinn verði bráður bugur að því að hrinda málinu áleiðis.

Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa orðið. Hér hafa nokkuð flogið hnútur um borð í þessu, eins og vill nú verða. Og brigzlyrði hafa komið fram um það, að verið væri að rjúfa samkomulag, og brigzl um svik og annað slíkt. Mér kemur allt slíkt tal mjög ókunnuglega fyrir sjónir, þar sem í þessu tilfelli er búið að tryggja, að það náist, sem samkv. þáltill. átti að nást. Ég þoli slík svikabrigzl ósköp vel varðandi sjálfstæðismálið, ef þau eru í þá átt, að okkur hafi tekizt að hrinda málinu betur áleiðis en vonir stóðu til um. Enda hefur þingheimur getað sameinazt um bæði að samþ. þáltill. um skilnaðarmálið og einnig stjskrmálið, og ég er ekki skuldbundinn til að halda svo á máli þessu, að útilokað sé, að þeir, sem vilja vera með málinu, fái að vera með því. Ef það eru svik, þá eru það svik, sem ég tel mér til lofs, en ekki lasts. Og þessi afstaða mín er allt annað en það, sem fyrir þeim vakti, sem bera þessi brigzlyrði fram og horfa meira á aukaatriðin en aðalatriðin í málinu.

Hv. 1. þm. Skagf. (SÞ) talaði hógvært, en þó með fullri alvöru og ekki laust við illkvittni í garð þeirra, sem væru að gefa Alþfl. kost á einhverjum svokölluðum varnarsigri. Það er fyrst hægt að tala um varnarsigur eða ósigur í þessu máli, ef það kemur í ljós, að frá því hafi verið horfið, að stjskr. verði lögleidd á þeim tíma, sem við bundumst samtökum um 1. desember eða 30. nóvember s. l. (1943). Ef það kemur í ljós, að einn einasti hv. þm., þeirra sem gengust þá undir skuldbindingu um að hrinda málinu fram með þessum hætti, sem mest hefur verið um rætt, hefur horfið frá þessari skuldbindingu, þá er fyrst tími til að tala um sigur eða ósigur í þessu sambandi og bera mönnum á brýn svik eða önnur óheilindi í málinu. En hitt verður ekki lagt okkur til lasts, eins og það verður ekki heldur lagt Alþfl. til lasts, þó að hann hafi gengið til samkomulags við okkur um málið. Ég tel það þvert á móti vera einn hinn ánægjulegasta viðburð í stjórnmálasögu okkar fyrr og síðar, ef það tekst að halda svo á þessu máli, að allur þingheimur geti orðið sammála um afgreiðslu þess. Og ég efa ekki, — ef allur þingheimur verður nú sammála um afgreiðslu þáltill. um niðurfellingu danskíslenzka sambandslagasamningsins og afgreiðslu stjskrfrv., — að þá kemur svo eindreginn þjóðarvilji fram við atkvgr. í maí þ. á., að allur þingheimur verður ekki síður sammála um málin í júní en fyrr um að afgreiða málin í einu hljóði. Og mér virðist nauðsynlegra að vinna að því, að þetta takmark náist, en að vera með smáskítleg illindi af engu tilefni.