05.10.1944
Sameinað þing: 52. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í D-deild Alþingistíðinda. (6042)

151. mál, póstsamband milli Íslands og Ameríku

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef hér á þskj. 375 flutt þál. um að fela ríkisstj. að leita nú þegar samninga við Bandaríkjastjórn um að koma á bættum póstsamgöngum milli Íslands og Bandaríkjanna. Eftir að síðustu verzlunarsamningar voru gerðir við Bandaríkin, mun óhætt að fullyrða, að um 80% af öllum innflutningi til landsins komi frá Vesturheimi. Það hefði verið eðlilegt, að í sambandi við þessa verzlunarsamninga hefði einnig verið samið um bættar póstsamgöngur milli þessara landa, en þetta hefur ekki tekizt. Ég er með þessu ekki að ásaka hæstv. ríkisstj., heldur eru ástæðurnar þær, að það er nauðsynlegt að fá stórkostlega bætt úr þessu. Það tekur nú um tvo mánuði að fá bréflegt svar frá Ameríku, en í verzlunarviðskiptum er alls ekki hægt að nota eingöngu ritsímasamband eða slíkar skeytasendingar, heldur verður einnig að nota mjög bréfaviðskipti. Ef Alþ. sjálft ber fram eindregnar óskir um að fá úr þessu bætt, þá þykir mér mjög líklegt, að Bandaríkjastjórn muni taka vel í þau tilmæli, eftir alla þá velvild, sem Bandaríkin sýndu í okkar garð í sambandi við lýðveldisstofnunina s. l. vor, og það hlýtur öllum að vera ljóst, hve áríðandi það er, að skjótt og gott samband sé á milli þessara landa, sem eiga svo mikil viðskipti saman. Það er vitað, að þótt það taki venjulega um tvo mánuði að koma bréfum milli þessara landa, þá sjást hér í Reykjavík amerísk blöð og einkabréf, sem eru ekki nema 2–3 daga gömul. Það er vitað, að miklar flugsamgöngur eru á milli þessara landa með flugvélum hersins og það jafnvel stundum daglegar ferðir. Það þyrfti því nauðsynlega að koma því svo fyrir, að allur bréfapóstur yrði sendur sem mest loftleiðis. Einnig þyrfti að koma því í kring, að skoðun á póstinum tæki sem allra minnstan tíma.

Ég geri ráð fyrir því, að nú muni vera auðveldara að fá þessu breytt en var fyrir 1–2 árum. Ég geri ráð fyrir því, að senda þurfi út mann héðan til þess að ræða við póststjórn Bandaríkjanna, og væri þá eðlilegast, að það yrði póst- og símamálastjóri. Og þótt það hafi að sjálfsögðu nokkurn kostnað í för með sér, þá er þetta svo áríðandi mál, að ekki er í slíkt horfandi. Ég vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir, og vona, að hæstv. utanrrh. taki málið þegar til meðferðar og geri allt, sem í hans valdi stendur, til þess að greiða fyrir því. Ég veit ekki, hvort ástæða er til þess að vísa málinu til n., og mun ég ekki gera till. um það, en legg það á vald hæstv. forseta.