06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (6062)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, þegar þetta mál, sem hér liggur fyrir, var rætt fyrsta sinni, og hef aðeins séð frásagnir blaðanna um þetta mál, sem ekki eru nákvæmar. En í sjálfu sér finnst mér talsvert megi ræða um útvarpið yfirleitt og ýmsa afstöðu þess á undanförnum árum, og hefur mér stundum fundizt meiri ástæða til gagnrýni á útvarpið og fréttaflutning þess en nú á allra síðustu tímum. En vegna þess, að ég álít, að ýmsir eigi þar högg í annars garð og alveg óvíst, að sá flokkur, sem stendur að þeirri till., sem hér er flutt, sé flokka hreinastur í þeim efnum, þá tel ég ekki sérstaka ástæðu til þess, að till. verði samþ. með þeirri grg., sem henni fylgir af hendi hv. flm. Get ég fyrir mitt leyti tekið undir það, að það væri íhugunarefni, hvort réttsýnn athugandi ætti ekki að aðgæta fréttaflutning útvarpsins og ýmsar frásagnir til þess að hindra, að eftirleiðis, eins og stundum áður, verði framin mjög ákveðin hlutleysisbrot. Sjálfur hef ég orðið fyrir barðinu í þeim efnum, ekki einungis frá tveim stjórnmálaflokkum, heldur einnig að mínu viti af hálfu útvarpsins. Ég get í raun og veru ekki séð, að útvarpið þurfi nokkru sinni, þar sem n. starfar eftir ákveðnum, föstum reglum, að hlíta fyrirmælum frá ríkisstj. um að brjóta hlutleysi sitt, — að hlíta því, a. m. k. á annan hátt en þann að gera fyrirvara af sinni hálfu, ef af hálfu ríkisstj. er lagt fyrir útvarpið til birtingar það, sem heyrir undir hlutleysisbrot, eins og gert var í ársbyrjun 1942 meðal annars. Ég hirði svo ekki að fara út í það nánar, ég hygg, að það sé alþjóð manna kunnugt, en út af því tilefni vil ég segja það, að sökin er ekki eingöngu þeirra flokka eða manna, sem skipa ríkisstj., heldur sýnir t. d. dæmið frá ársbyrjun 1942, að þá var orðið við fyrirmælum stjórnarvaldanna, án þess að útvarpsstjóri eða útvarpsráð hefði manndóm eða karlmennsku til þess að gera aths. við það, sem flutt var. Ég ásaka stjórn útvarpsins fyrir að hlíta slíkum fyrirmælum. Ég vil láta þessar almennu aths. koma fram, en vegna þess að ég tel, að sá flokkur, sem stendur á bak við þessa till., hafi ekki hreinan skjöld í þessu efni, get ég fyrir mitt leyti sætt mig við það, að till. sé vísað til stj. í trausti þess, að allar þessar umr., sem till. þessi vakti, verði til þess, að hæstv. ríkisstj. gæti þess gagnvart útvarpinu, að það haldi fast við hlutleysi sitt, bæði hvað snertir erlent og innlent efni, og það verði líka áminning til stj. útvarpsins að halda betur settar reglur. Útvarpið heldur aldrei uppi virðingu sinni, ef það hlýðir möglunarlaust hverju því, sem fyrir það er lagt af hendi stjórnarvaldanna, en sýnir aldrei, að það hafi vilja eða manndóm til þess að fylgja þeim reglum, sem því ber að fylgja.