06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í D-deild Alþingistíðinda. (6063)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Forseti (GSv):

Ég skal, áður en næsti ræðumaður tekur til máls, geta þess að gefnu tilefni frá hv. 3. þm. Reykv., að hann hefur blandað inn í þetta mál nokkrum ummælum til mín, algerlega óviðkomandi því, sem um er verið að ræða, sem sé hvernig ég kynnti ræðumenn hér við síðustu eldhúsumr., er fram fóru gegnum útvarp. Hjá honum gætti vægast sagt mikils misskilnings, sem líklega er ekki sprottinn af illvilja, heldur af einhverjum ósjálfráðum taugaóstyrk.

Það er sjálfsögð skylda forseta — undir öllum kringumstæðum — að greina rétt frá, hverjir standa að þeim, sem tala, og þess vegna eins í þessu tilfelli sem öðrum. Einnig er það vitað, að það var í samræmi við óskir þessara fimm þm. Sjálfstfl., sem ekki eru stuðningsmenn ríkisstj., sbr. áður gefnar yfirlýsingar, að ég kynnti þannig mælendur Sjálfstfl., þannig að ekki gæti orkað tvímælis, þar eð hugsanlegt var, að hlustendur úti um land byggjust við, að mælt yrði af hálfu þessara fimm þm. Skal og ekki um það sakast, þótt ekki hafi verið kleift samkv. þingsköpum, að við, sem ekki styðjum hæstv. ríkisstj., tækjum þátt í þessum umr. Hins vegar er það dálítið hlálegt, að hv. 3. þm. Reykv. skuli ekki hafa ráðgazt við formann Sjálfstfl., hæstv. forsrh., um það, hvernig hann ætti að haga sér í þessum efnum, vegna þess að þetta orðalag var einmitt upp tekið í fullu samráði við hann. Ég komst að vísu svo að orði, að stuðningsmenn ríkisstj. tækju til máls, en ég vildi einmitt áður hafa hæstv. forsrh. með í ráðum um, hvernig kynna ætti ræðumennina í þessu tilfelli úr forsetastóli. Var þetta orðalag því í fullu samráði við hann.