06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (6066)

184. mál, hlutleysi ríkisútvarpsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Það er fyrst og fremst vegna þess, að mér hefur borizt sendibréf frá útvarpsstjóra, sem ég nú að þessu sinni kveð mér hljóðs. Hv. 3. þm. Reykv. hefur tekið af mér ómakið, svo að ég þarf nú ekki að lesa bréf þetta upp, og er ég honum út af fyrir sig þakklátur fyrir það.

Ég vil í tilefni af þessu taka það fram, að ég hef ekkert að leiðrétta eins og hér er farið fram á og heldur ekkert að taka aftur af því, sem ég hef sagt hér í þessu máli og þetta bréf víkur að.

Til þess að rifja upp þetta mál, sem ég að vísu síðast gerði hér grein fyrir, skal ég taka fram, út af þeirri yfirlýsingu, er fram kom í Ríkisútvarpinu 16. okt. s. l. þess efnis, að Sjálfstfl. hefði myndað stjórn með öðrum tilteknum stjórnmálaflokkum, að við, þessir fimm þm. Sjálfstfl., fórum fram á, að birt yrði sú yfirlýsing, sem hér hefur verið rætt um. Þessu var sama dag neitað, og voru okkur sendar í bréfi tvenns konar ályktanir, sem um þetta höfðu verið gerðar: annars vegar ályktun útvarpsstjóra og hins vegar ályktun útvarpsráðs, og var efni þeirra það, að okkur var neitað um birtingu þessarar yfirlýsingar. Síðan líða nokkrir dagar, og við fáum engri vörn við komið um að koma þessari yfirlýsingu á framfæri, með hjálp þessa eina tækis, sem til er á landinu til þess að koma slíku á framfæri, þannig að þjóðin eigi þess kost að hlusta á það. Nú rennur upp hinn 21. okt. Þá mætir hæstv. ríkisstj. hér á Alþ., og stjórnarskiptin fara formlega fram. Þá er ekki lengur undankomu auðið fyrir útvarpsstjóra eða útvarpsráð og samþykktir þeirra að engu orðnar gegn því, að yfirlýsing okkar yrði birt í útvarpinu, því að þá hafði hún komið fram á Alþ., og eins og áður hefur verið tekið fram, er sérstakur maður ráðinn til þess að flytja í útvarpinu fréttir frá Alþingi. Nú skilst mér samkv. bréfi útvarpsstjóra, að fregnir af þessum fundi hafi verið birtar áður en fréttaritari Alþingis birti þær, og var það með þeim einkennilega hætti, að ræða hæstv. forsrh. var birt af plötu, þ. e. a. s. nálin í grammófóninum myndaði hljóðið á plötuna, í stað þess að fréttaritarinn segði frá þessu. Mér stendur alveg á sama, hvort útvarpið varð á undan að birta þetta eða hvort fréttaritari Alþ. gerði það, en það er aðeins af þeirri ástæðu, að yfirlýsing okkar kom fram á Alþ., sem hvorki útvarpsstjóri né útvarpsráð gátu skorazt undan að birta hana. Það var þess vegna ekki fyrr enn málið var komið á þetta stig, sem við fengum því framgengt, að yfirlýsing okkar var birt í útvarpinu, og hef ég því, eins og ég hef áður tekið fram, ekkert að leiðrétta og ekkert að taka aftur af því, sem ég hef sagt. Hins vegar gæti ég mörgu bætt við, en mun láta það hjá líða, eins og nú standa sakir.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem tók hér upp hanzkann fyrir Ríkisútvarpið og útvarpsstjóra, og út af þessari ræðu og þeim röksemdum, sem hann færði fram fyrir máli sínu, vil ég aðeins segja það, að við vissum, hvers við hefðum átt að vænta, ef þessi hv. þm. væri ráðamaður útvarpsins. Það er alveg augljóst eftir hans málflutningi, að hann lítur svo á, þegar verið er að flytja fregnir frá Alþ. í útvarpinu um nýja stjórnarmyndun, — og ber þá auðvitað að skýra frá, hverjir það séu, sem standa á bak við hana og styðja hana og jafnframt, hverjir standa utan við hana, — að við þessir fimm þm. Sjálfstfl., sem erum ¼ af þeim flokki hér á Alþ., höfum engan rétt gagnvart útvarpinu til þess að koma á framfæri við alþjóð, hver afstaða okkar er gagnvart þessum málum, og það jafnvel eftir að frá því hefur verið skýrt í útvarpinu, að Sjálfstfl. standi að þessari stjórnarmyndun. Hvernig heldur hv. 3. þm. Reykv., að allur almenningur úti um land líti á þetta? Þeir gátu vitanlega ekki skilið þetta á annan veg en þann, að allur Sjálfstfl. stæði á bak við stjórnarmyndunina, og þó lítur þessi hv. þm. svo á, að við séum alveg réttlausir gagnvart því að koma á framfæri í hlutlausu útvarpi, eins og það á að vera, yfirlýsingu um, að við séum ekki stuðningsmenn þessarar ríkisstj. Það má vel segja, að með svona háttalagi sé gerð tilraun til þess að falsa, hverjir það séu, sem standa á bak við þessa ríkisstj. Ég veit, að þetta hefur ekki verið meiningin hjá hæstv. forsrh., og vil ég taka það fram, að þegar þetta mikla vandamál lá fyrir Ríkisútvarpinu, var talað við hann um þessa yfirlýsingu okkar, og svaraði hæstv. forsrh., eins og hann er maður til, að hann teldi rétt, að hún yrði birt. Ég vildi láta þessa getið, þar eð oft hefur verið deilt á hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál. Sú hlutdrægni, sem hér hefur verið framin, er á ábyrgð útvarpsstjóra og útvarpsráðs, og hefur það nú sýnt sig, að þeir eru engir menn til þess að standa undir þessari ábyrgð, og ef það væri eðlilegt réttarfar og litið eftir almennum mannréttindum í þessu landi, væri vitanlega fyrsta sporið að víkja slíkum mönnum frá fyrir það að hafa farið þannig að ráði sínu.

Þetta er það svar, sem ég hef fundið ástæðu til að láta koma hér fram við þessu sendibréfi útvarpsstjóra og sömuleiðis við ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem hefur nú með skörulegri hætti en áður hefur komið hér fram á Alþ. viljað verja þessa hlutdrægni og þessa rangsleitni, sem við fimm þm. Sjálfstfl. höfum verið beittir af útvarpsráði og útvarpsstjóra í andstöðu við hæstv. forsrh.