26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í D-deild Alþingistíðinda. (6091)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Vegna þess, að hv. frsm. allshn. lét í það skína og hafði eiginlega um það ber orð, að hv. allshn. hefði ætlað að sjá fótum okkar forráð, sem erum í stj. Mjólkursamsölunnar, um það að losa okkur undan einhverri sérstakri fjárhagslegri ábyrgð, sem við hefðum tekið á okkur í sambandi við þetta mál, vildi ég láta koma strax fram, að slíkrar fyrirhyggju var engan veginn þörf frá n. hálfu, þó að hún sé sjálfsagt í beztu meiningu gerð. Því að mér er ekki kunnugt um, að hv. frsm. allshn. fari þar rétt með, þegar hann segir, að Mjólkursamsalan hafi talið sig fúsa til þess að vera með í þessu fyrirtæki og styrkja gistihúsbyggingu í Reykjavík. Þetta er ekki eins og það á að vera, þegar fskj. eru ekki lögð fram, að ekki sé skýrt rétt frá um það, hvað í þeim stendur. Stjórn samsölunnar fékk þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, til umsagnar, og þessi þáltill. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að koma á stofn félagi til að reisa almenningsgistihús með allt að 150 herbergjum á góðum stað í Reykjavík.“

Stj. samsölunnar var því alveg sammála, að það væri nauðsyn á því að koma upp slíku gistihúsi hér í Reykjavík, og taldi sig samþykka till. Annað og meira sagði stj. Mjólkursamsölunnar ekki og gefur ekki neitt fyrirheit um nokkurn stuðning til þessa fyrirtækis, fjárhagslegan né annan. Hitt er svo allt annað mál, hvað samsalan mundi gera undir vissum kringumstæðum, — það skal ég ekkert um segja —, ef aðrir aðilar vildu t. d. stofna hlutafélag eða slíkt og safna fé til þess að koma þessu í framkvæmd. En að með þeirri umsögn, sem stj. samsölunnar sendi um þessa þáltill., hafi verið heitið nokkrum fjárhagslegum stuðningi til þess að koma þessu í framkvæmd, er rangt, enda var stj. samsölunnar ekki um þetta spurð. Till. var aðeins send stj. Mjólkursamsölunnar til umsagnar. Og till. hljóðaði þá á þá leið, að reist yrði gistihús í Reykjavík og stofnaður yrði til þess félagsskapur og gistihúsið yrði með allt að 150 góðum herbergjum. Og þetta voru allir í stj. samsölunnar sammála um, að nauðsynlegt væri, að gert yrði, og voru því með því, að þessi till. yrði samþ. — Ef ríkisstj. vildi beita sér fyrir þessu, þá fyrst kemur spurningin um það, hvort þessi félagsskapur vill leggja á sig byrðar í þessu efni. Ég fyrir mitt leyti tel á þessu svo mikla nauðsyn, vegna þeirra, sem koma til bæjarins utan af landinu, — ég tala þar aðeins fyrir mig einan, en ekki alla stj. Mjólkursamsölunnar —, að ég álít ekki nema sanngjarnt, ef vel væri fyrir málinu gengið, að menn ættu að bindast samtökum um það að hrinda þessu máli í framkvæmd. Og ég er sammála hv. þm. S-Þ. um, að till. var, eins og hann bar hana fram, sigurvænlegri í grundvallaratriðum heldur hún yrði eftir brtt. hv. allshn. Því að ég hef ekki trú á því, að bæjarfélag Reykjavíkurbæjar, sem hefur um 40 þús. manns og hefur ekki byggt enn yfir sína starfsmenn, heldur hefur leigt húsnæði fyrir þá hér í bænum, — ég hef ekki trú á því, að bæjarfélagið muni eitt ráðast í það að leysa húsnæðisvandræði þeirra, sem utan Reykjavíkur búa, og það á eigin spýtur. Ég skal ekki segja, hversu góð Reykjavík verður þeim, sem utan bæjarins búa, í þessu efni. En mér finnst ekki nema mannlegt, að Reykjavík líti fyrst á sína eigin þörf í þessum efnum, sem henni virðist standa nær, og þarf ekki annað að fara en í sjálfs sín barm í þessum efnum. Og ég er hv. þm. S-Þ. algerlega sammála um það, að svona mál verði ekki leyst nema með allvíðtækum samtökum, sennilega helzt með því að stofna hlutafélag í þessu skyni, þar sem ekki aðeins væri leitað þátttöku þeirra, sem nefndir eru í grg. þáltill., sem hv. flm, bendir á aðeins sem dæmi um þá, sem leita skuli til í þessu efni, heldur þurfi að leita miklu víðar og þá til samtaka úti um land, bæði í bæjum og sveitum. Því að það er nauðsynlegt að koma upp gistihúsi á góðum stað í bænum. Og það verður ekki gert nema með átaki ekki aðeins þeirra, sem búa í Reykjavík, og hæstv. ríkisstj., heldur líka með tilstyrk þeirra, sem bezt vita í þessu efni, hvar skórinn kreppir. Og það er óviðunandi að hafa gistihúslaust í stórum bæ, þar sem svo að segja öll starfsemi ríkisins fer fram og svo að segja hver einasti einstaklingur í landinu á leið um og þarf að dveljast á hverju ári lengri eða skemmri tíma.

Ég vildi leiðrétta það strax, að það er á misskilningi byggt, sem hv. frsm. allshn. hélt fram um þetta viðkomandi stj. Mjólkursamsölunnar og hennar svari.