26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (6094)

223. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil eindregið taka undir þá áskorun hv. 2. þm. Eyf., að þessi plögg séu birt, vegna þess að ég er ekki viss um, að óhætt sé að treysta því, sem hv. frsm. segir um það, hvað í þeim standi. Eftir því sem hann túlkaði málið í sambandi við samsöluna, er ég alls ekki viss um, að það standi í bréfi bæjarráðs Reykjavíkur, að það hafi heitið fjárhagslegum stuðningi, þar sem hann segir, að frá samsölunni hafi komið yfirlýsing um það. Ég vil leyfa mér, til að skjalfesta það í þingtíðindunum, að lesa umsögn samsölunnar, sem hann hefur leyft sér að túlka á þann hátt, sem hv. þm. hafa heyrt. Bréf samsölunnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna bréfs yðar frá 2. þ. m., þar sem þér óskið umsagnar Mjólkursamsölunnar um meðfylgjandi þingsályktunartillögu um gistihússbyggingu í Reykjavík, þá hefur stjórn Samsölunnar tekið ósk yðar til athugunar, og lítur hún svo á, að hin mesta þörf sé á byggingu nýs gistihúss í bænum.“

Annað og meira stendur þar ekki. Hvers konar ritskýring kemur hér fram hjá hv. 2. þm. Rang.? Hvers konar ritskýring er það að segja, að samsalan sé búin að heita fjárhagslegum stuðningi og taka á sig skuldbindingu um þetta? (GÞ: Hefur samsalan heimild til þess?) Ég ætla að svara þessari spurningu háttv. 2. þm. Eyf. á eftir. — Ég ætla að segja það, að ef háttv. frsm. túlkar öll svörin, sem honum hafa borizt, á svipaða lund, þá vil ég skora á n. að birta þessi skjöl, því að það er bersýnilega ekki einu orði að trúa, sem hv. frsm. segir um svar samsölunnar, því að í hennar svari felst ekkert annað en það, að gistihúss sé mikil þörf, og það telur hv. frsm., að sé binding frá hennar hendi um fjárhagslegan stuðning, af því að það stendur í grg., að það eigi að leita til annarra um fjárhagslegan stuðning. Nú vil ég segja, að skörin sé farin að færast upp í bekkinn um málsmeðferð. Það er betra fyrir stofnanirnar að óska eftir, að þegar umsagnar þeirra er leitað, þá séu þær birtar eins og venja hefur verið, í þskj., en að fá ekki túlkun á þann veg, sem hv. þm. hafa nú heyrt, hvernig hefur orðið hjá hv. frsm. um þetta plagg, sem samsalan hefur sent, því að í fyrri ræðu sinni sagði hann, að samsalan hefði heitið fjárhagslegum stuðningi, en í þeirri síðari segir hann, að hún hafi lýst sig samþ. till. Hvorugt er rétt, hún hefur aðeins tjáð sig samþ. því, að mikil þörf sé fyrir gistihús. Hann segir, að það sé sama, vegna þess að ég hafi sagt, að mín persónulega skoðun sé, að ef aðrir fengjust ekki til að leysa málið, þá eigi samsalan að leggja fram fé. Það er ekki heldur rétt. Ég sagðist álíta, að undir vissum kringumstæðum, ef aðrir aðilar, sem málið snerti að einhverju leyti, væru fúsir að leggja fram fé í þetta hús, þá áliti ég persónulega, að til greina gæti komið, að einhver stuðningur kæmi fram frá samsölunni, m. ö. o., það er alveg öfugt við það, sem hann sagði, ef aðrir aðilar, sem málið snerti ekki minna en samsöluna, væru fúsir að leggja fram fé í þessu skyni, þá áliti ég, að þetta geti vel komið til athugunar, en hv. frsm. segir, að ef aðrir fengjust ekki til þess, þá mundi samsalan vilja gera það, en það er mikill misskilningur, eins og hv. þm. hafa heyrt.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 2. þm. Eyf., hvort samsalan hafi heimild til að leggja fram fé í þessu efni, þá álít ég, að samsalan, eins og samþ. hennar eru nú, hafi enga heimild í þessu efni, og ég hygg, að alveg það sama sé um Sláturfélag Suðurlands. Hitt er annað mál, að ég er viss um, að undir vissum kringumstæðum, þar sem um þörf málefni er að ræða, að samtök bænda teldu rétt að fórna einhverju fé fyrir það, og þá geta þau breytt samþykktum sínum í þessu efni, án þess að ég sé að segja, hvort þau muni gera það, en eins og sakir standa, þá álít ég, að samsalan hafi ekki heimild til að styðja slíkt fyrirtæki, sem hér er um að ræða.

Hv. 2. þm. Rang. segist vera undrandi yfir, að við berum svo ótakmarkað traust til hæstv. ríkisstj., að okkur þætti örlög till. miklu betri en að sú breyt. yrði samþ., sem hv. allshn. ber fram. Ég verð að segja, að það er erfitt að finna mun á trausti til stj. í þáltill. hv. þm. S-Þ. og brtt. allshn. Það er kannske hægt með svipuðum skýringum og hann gaf hér áðan að finna sérstakan mun. Í báðum tilfellunum er hæstv. ríkisstj. falið að gera það, sem gera á, í öðru tilfellinu, hjá n., á stj. að láta fara fram athugun á, hvernig hagkvæmast sé að koma upp gistihúsi, en í till. sjálfri er skorað á hæstv. stj. að beita sér fyrir, að stofnað verði félag til að koma húsinu upp. Ég sé ekki annað en þeir treysti stj. betur, sem hafa vægara orðalag og ætlast til meira af henni. Það traust, sem við berum til hennar, er ekki annað en það, að þótt við berum ekki mikið traust til hennar, þá höfum við trúað því hingað til, að hún fari eftir þingræðisreglum og hlýði ótvíræðum fyrirskipunum þingsins. Þetta er kannske ekki á rökum reist og stj. ekki þingræðisstj. og að hún vilji ekki fylgja þeim fyrirmælum, sem þingið leggur henni á herðar, og ég get ekki fundið, að í till. hv. þm. S-Þ. felist neitt meira traust á ríkisstj. en í þeirri brtt., sem hv. 2. þm. Rang. hefur mælt hér fyrir. Við treystum því aðeins, eða a. m. k. ég, að hæstv. stj. fylgi ótvíræðum þingræðisreglum, en það er kannske til of mikils ætlazt, eins og nú er komið stjórnarháttum okkar, ég skal ekki segja um það, en það er ekki hægt fyrir þm. að gera ráð fyrir öðru, þangað til annað er komið í ljós.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil eindregið skora á n. að láta birta þessi skjöl, sem hér er um að ræða, til þess að þau fyrirtæki, sem hafa brugðizt vel við tilmælum n. og svarað, geti verið viss um, að rétt sé farið með, hverju þau hafa svarað, svo að þau eigi ekki á hættu, að birt sé í þingtíðindunum allt annað en þau hafa látið frá sér fara.