10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í D-deild Alþingistíðinda. (6105)

6. mál, lágmarkslaun fiskimanna

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Við flm. þessarar þáltill. fluttum á síðasta þingi þáltill., sem var að kalla samhljóða þessari, en hún náði þá ekki fram að ganga vegna tímaleysis. Við höfum flutt þessa till. nú aftur sökum þess, að við álítum, að efni það, sem till. fjallar um, sé þess eðlis, að það megi ekki dragast, að sérstakar ráðstafanir séu gerðar í þessu efni, sem till. fjallar um. Við vitum, að hlutarsjómönnum, sem hér eiga aðallega hlut að máli, leikur hugur á því, að þær ráðstafanir verði gerðar, sem till. fjallar um, og þeir hafa sjálfir lýst sig því fylgjandi í samþykktum sínum.

Aðalefni þessarar till. er um það, að skipuð skuli þriggja manna n., sem geri till. um, hvernig bezt megi fyrir koma tryggingastarfsemi, sem gæti tryggt fiskimönnum, sem ráðnir eru fyrir aflahlut, og smáútvegsmönnum lágmarkslaun. Það er svo ráð fyrir gert í till., að starf þessarar n. sé aðallega tvíþætt: Í fyrsta lagi geri n. till. um tryggingastarfsemi, sem kostuð sé með fjárframlögum frá útgerðinni og ríkinu til þess að tryggja hlutarfiskimönnum- og smáútvegsmönnum ákveðin lágmarkslaun, eins og segir í till., og í öðru lagi, að n. geri till. um framlög úr ríkissjóði til að tryggja fiskimönnum lágmarkslaun, þar til tryggingarnar taka til starfa, og reglur um, hvernig greiðslum þessum skuli hagað. Þessu verki skal n. hafa lokið og ríkisstj. hafa lagt þær till. hennar, sem að því lúta, fyrir Alþ. eigi síðar en 1. maí 1944.

Áður en ég fer frekar inn á efni þáltill., þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um aðalástæðurnar til þess, að þáltill. er fram komin.

Það mun nú flestum vera orðið ljóst, að launakjör hlutarráðinna fiskimanna og svo smáútgerðarmanna eru nú orðin einhver lélegustu launakjör, sem vinnandi menn í landinu eiga við að búa. Samkv. athugunum nokkrum, sem fram hafa farið á þessu, sýnir sig, að víða hefur útkoman orðið sú síðasta ár, að þessir menn hafa haft frá 4000 til 8000 kr. í kaup yfir árið, og geta menn af þeim tölum séð, að launakjör þeirra eru orðin mun lakari en flestra annarra vinnandi manna í landinu. Ástæðurnar til þess, að launakjör þessara manna eru orðin svona léleg, eru ýmsar, en m. a. þær, að fisksölusamningur sá, sem gilt hefur um alllangan tíma, er í raun og veru smáútgerðinni óhagstæður, auk þess sem sá samningur gerir ráð fyrir, að fiskverðið sé fastbundið þrátt fyrir sívaxandi útgerðarkostnað. Og því hafa launakjör þessara manna farið versnandi. Þá hefur einnig verið gengið þannig frá þessum samningi, að verðið á aflafiski smáútgerðarinnar er í raun og veru og hefur verið miklum mun verra en á fiski stórútgerðarinnar, miðað við gæði. Samningurinn gerir ráð fyrir, að um fisktegundir, sem smáútvegurinn framleiðir, svo sem þorsk og ýsu, skuli gilda sama verð og ufsa, sem stórútgerðin framleiðir sérstaklega. Með fisksölusamningnum er þannig gerð verðjöfnun á fiskinum smáútveginum í óhag. — Þessar ástæður liggja til þess, hve launakjör þessara manna eru slæm. Auk þess býr smáútvegurinn við ófullkomnari framleiðslutæki, og á einnig þess vegna erfiðara með að veita samsvarandi lífskjör og aðrir sjómenn hafa.

Samtök sjómanna hafa haft talsvert með þessi mál að gera upp á síðkastið, og þeim hefur verið ljóst, að svona getur þetta ekki haldið áfram til lengdar, að sjómenn þeir, sem stunda aðalatvinnuveg þjóðarinnar, séu orðnir mun lægra settir á bekk um launakjör en aðrar vinnandi stéttir í landinu. Og því hafa samtök sjómanna fjallað um þessi mál og gert sínar samþykktir um þau. Á síðasta hausti var hér á vegum Alþýðusambands Íslands fjölmenn ráðstefna fulltrúa frá samtökum sjómanna víðs vegar af landinu, og sú ráðstefna gerði m. a. ályktun þá, sem ég skal nú lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstefnan lítur svo á, að framar öllu beri að keppa að því, að sjómönnum sem öðrum launþegum í landinu verði sem bezt tryggð lífvænleg atvinna og að ekki endurtaki sig það ófremdarástand frá síðustu kreppuárum, að hlutarsjómenn gangi slyppir og snauðir frá borði í lok vertíða eftir erfitt og áhættusamt úthald.

Telur ráðstefnan, að lágmarkskauptryggingin sé eina öryggisleiðin, sem fær getur talizt í þessu efni, eins og nú horfir málum.

Jafnframt gerir ráðstefnan sér ljóst, að smáútvegurinn hér á landi getur komið til með að berjast mjög í bökkum, hvað afkomu snertir, en verður þó að teljast ómissandi þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Fyrir því telur ráðstefnan sanngjarnt, að ríkissjóður létti áhættu vegna lágmarkskauptryggingar af herðum smáútvegsmanna að nokkru og taki á sig greiðslu hennar að svo miklu leyti sem útgerðinni væri sannanlega um megn að rísa undir henni. — Þetta gæti talizt nauðsynleg ráðstöfun til viðhalds atvinnulífinu í landinu og gegn atvinnuleysinu, á meðan ekki hafa gengið í gildi l. um hlutar- eða kauptryggingu, sem samtök alþýðunnar geta sætt sig við.“

Eins og menn sjá, er aðalkrafa samtaka sjómanna í þessu efni sú að reyna að koma á fót sérstöku tryggingakerfi, sem geti tryggt sjómönnum lágmarkskaup. Mér er kunnugt um það, að samtök sjómanna hafa sett sér það markmið að reyna að fá lágmarkskauptryggingu, sem ekki væri lægri en svaraði ¾ af fullum launum verkamanna, meðan á úthaldinu stendur. Og ég hygg, að flestir gætu orðið sammála um það, að sú krafa sjómanna sé ekki óeðlileg og ekki ósanngjörn, að þeim séu tryggð laun, sem nemi ¾ af því, sem verkamenn fá í laun, samkv. kaupsamningum sínum, meðan á úthaldstímanum stendur. En jafnframt því, sem sjómannasamtökin hafa gert sér ljóst, að þau geta í mörgum tilfellum komið fram þessari lágmarkstryggingu, — og hafa fengið hana á ýmsum stöðum viðurkennda, — þá hafa sjómannasamtökin séð, að smáútgerðin í landinu er víða þannig á sig komin efnahagslega, að hún á erfitt með að standa undir þessari lágmarkstryggingu í ýmsum tilfellum. Og því er ekki óeðlilegt, að ríkið aðstoði smáútveginn að einhverju leyti, t. d. með því að skipuleggja tryggingastarfsemi, sem hlaupi þarna undir bagga og leggi fram einhvern hluta til slíkrar tryggingastarfsemi, til þess að smáútvegurinn geti einnig tryggt sínum mönnum einhver sæmileg lágmarkskjör.

þáltill., sem hér liggur fyrir, er flutt alveg í þeim anda, sem ályktun sjómannaráðstefnunnar var samþ. s. l. haust og ég gat um. Við flm. þessarar þáltill. gerum ráð fyrir, að n. sú, sem kosin yrði samkv. þáltill., hefði sem aðalhlutverk að grundvalla sérstakt tryggingakerfi, sem haldið væri uppi fjárhagslega þannig, að útgerðin greiddi ákveðinn hundraðshluta og ríkið einnig í þennan tryggingasjóð, sem svo hlypi undir bagga, til þess að sjómenn hafi sæmilega lífsafkomu í öllum tilfellum. En vegna þess að við flm. búumst við því, að það geti tekið n. nokkurn tíma að koma fram till. sínum um þetta tryggingakerfi, þá höfum við lagt til, að n. gerði sérstakar till. um það, hvernig fyrir mætti koma stuðningi ríkisins við þá aðila, sem hér um ræðir, þangað til tryggingakerfið sjálft tæki til starfa, og er það von okkar, að n. gerði þær till. sínar til ríkisstj. og þingsins hið allra fyrsta.

Ég býst við því, að hv. þm. verði að viðurkenna það, út frá því, hvernig nú er málum komið, að þingið hefur haft að mjög miklu leyti forystu til að tryggja bændum landsins ákveðin laun, og þar sem hins vegar liggur fyrir, að verkamenn hafa nú í flestum tilfellum allmikla vinnu og sæmileg launakjör vegna þess, þá sé ekki nema rétt, að hæstv. Alþ. hugsi um að tryggja sjómönnum, sem drýgstan auð bera í land, samsvarandi kaupkjör á við aðra vinnandi menn í landinu. Slík krafa er mjög eðlileg, og það verður varla komizt hjá því að verða við henni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till. nú að sinni, en vil óska þess, að till. verði vísað til hv. allshn. og að hún verði afgreidd til síðari umr. nú.