01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í D-deild Alþingistíðinda. (6116)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Það eru vitanlega a. m. k. tvær hliðar á þessu máli, og aðeins önnur þeirra snýr inn á við. Eins og hv. frsm. tók fram, má e. t. v. gera ráð fyrir, að það hefði einhver áhrif á íslenzka menn við ákvörðunina um skilnaðarmálið, ef ýmis skjöl yrðu birt. En hin hliðin er þannig vaxin, að ég tel nauðsyn, að utanrmn. fjalli um hana og eigi aðeins skilnaðarn. Ef birta á skjöl, sem snerta erlenda aðila, skiptir ákaflega miklu að kunna háttvísi í skiptum við erlendar þjóðir. Til þess hefur verið vísað, að Bandaríkjastjórn og Norðurlandastjórnir kynnu þessa háttvísi, en við þyrftum að kunna hana engu síður fyrir því. Það yrði ekki talin háttvísi að birta öll þessi skjöl, og með því að slíkar aðgerðir mundu koma til baka hingað og skapa utanrmn. verkefni, þá ætla ég það eðlilegt, að sú n. fjalli um málið annaðhvort ein eða jafnhliða því, sem því yrði vísað til skilnaðarnefndar. (PZ: Eingöngu til utanrmn.).