01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í D-deild Alþingistíðinda. (6117)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég get að nokkru leyti þakkað þær undirtektir, sem till. hefur fengið, því að undantekningarlaust að kalla hefur komið fram það álit, að sum a. m. k. af þeim skjölum, sem snerta sjálfstæðismálið, sé eðlilegt og nauðsynlegt að birta. Ég tel það ekki tímabært né eðlilegt að rökræða það mjög í þingræðum, hvaða skjöl það kunni að vera, sem varhugavert sé að birta. En þar sem bæði er sá hængur á og hins vegar enga þá vitneskju að fá, sem ekki fæst annars staðar, er ekki vert að birta, og vitanlega þarf vel að gæta áhrifa, sem birtingin gæti haft út á við gagnvart fleiri en einni þjóð. Það ætti að vera hægt að „sortéra“ þessi skjöl. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi ekkert deilumál að verða, nema einhverjir þættust sjá sér hag í að blása upp deilumál út úr því. Afstaða mín og flokksmanna minna til þessa atriðis er eindregin og ljós og mun ekki valda árekstrum.

Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. (VÞ) og vil fyrir mitt leyti styðja að því, að till. verði athuguð af utanrmn.