01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í D-deild Alþingistíðinda. (6118)

10. mál, birting skjala varðandi samband Íslands og Danmerkur

Hermann Jónasson:

Út af aths. hv. þm., síðan ég talaði, get ég tekið fram, að ég held ég hafi þá talið upp allt hið helzta, sem máli skiptir að birta, og þjóðin veit raunar, hver gangur málsins hefur verið í aðalatriðum.

Það á að birta skeytaskiptin við Dani 1941, þegar þeim voru sendar þál. og símskeyti með, svar kom við því frá þáv. forsrh. Dana og ríkisstj. sendi aftur svarskeyti héðan. Eins og hv. forsrh. benti á, hefur sumt af þessum skeytum þegar verið birt í Danmörku. Þarna er hægt að birta skeytin orðrétt, og samkvæmt alþjóðavenjum er leyfilegt að birta þessi skeyti.

Viðvíkjandi áliti ensku stjórnarinnar, þá kemur það fram í viðtali við forsrh. Þar með er ekki víst, að fram komi sú skoðun Íslendinga, sem fram var haldið af sendiherra Íslands í London. En hitt er jafnframt auðvelt að sýna, sem alls staðar kom fram í íslenzkum blöðum og annars staðar, að Íslendingar töldu málið Bretastjórn óviðkomandi.

Frá Bandaríkjunum fengum við 1942 skeyti frá stj. Því skeyti var svarað með ýtarlegu símskeyti, sem var ekkert launungarmál og allir þingflokkarnir stóðu að. Við því símskeyti kom það svar, að Bandaríkjastjórn hefði ekkert við það að athuga, að við leystum sambandið og stofnuðum lýðveldi eftir árslok 1943.

Hér er hægt að gefa fullar upplýsingar um málið innan þessa ramma. Þess gerist alls ekki þörf að svala frekar forvitni einhverra manna, sem til kunna að vera, og vænti ég, að hér sé enginn sá flokkur manna, sem geri það að sínum málstað til að reyna að græða eitthvað á því.

Það er opinbert mál, að búið er að skýra konungi frá málavöxtum, skrifa honum bréf, og ég held það sé ekki heldur neitt launungarmál, að konungur hefur ekki sagt af sér.

Ég held, að grundvallaratriði málsins séu ekki fleiri en þessi.

En þegar á önnur skjöl er litið, þá skiptir í tvö horn. Samtal sendiherra okkar við forsrh. erlendrar þjóðar er ekki ráð að birta án leyfis hans og staðfestingar. Eins og hv. þm. G.-K. minntist á, hefði mér aldrei til hugar komið að birta viðtal við sendiherra Breta án þess að bera undir hann, hvað ég mætti birta. Sendiherrann tók sér meira að segja dagsfrest til að íhuga, hvað óhætt væri að hafa eftir honum. Því er torvelt að treysta, sem menn skrifa hjá sér úr samtölum, þegar þeir koma heim í skrifstofu sína. Við megum ekki hætta á að fá e. t. v. leiðréttingar frá erlendum aðilum á því, sem við birtum. Og svo er það hitt, að engin vitneskja um sjálft málið fengist með birtingunni önnur en sú, sem víðar eru heimildir um og þegar er á almanna vitorði. Ef menn vilja taka á málinu út frá þessu sjónarmiði, er sjálfsagt hægt að ná um það samkomulagi og birta þau skjöl, sem skipta máli fyrir þjóðina, og það án þess að ganga nokkurs staðar lengra en okkur er fullkomlega sæmandi.