10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í D-deild Alþingistíðinda. (6121)

19. mál, tollar á nauðsynjavörur

Flm. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég sé ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem segir í grg. fyrir þeirri till., sem er á þskj. 21. — Þessi till. er í fjórum liðum: 1) að fella niður tolla á nauðsynjavörum; 2) að lækka og fella niður tolla á ýmsum þeim vörum, sem atvinnuvegir landsmanna þarfnast; 3) að fella niður tolla á þeim vörum, sem hafa áhrif á verðlag í landinu, og 4) að ríkisstj. sé falið að nota heimild í gildandi tollalöggjöf og hætta að heimta tolla af stríðsfarmgjöldum.

Það hefur verið svo mikið rætt um þessi dýrtíðarmál, að ég tel, að það mundi vera sú bezta leið til þess að vinna bug á dýrtíðinni, sem hér er stungið upp á. Því er þessi till. flutt, að það hefur verið bent á ýmsar aðrar leiðir. Ég álít, að þær séu allar verri en þær leiðir, sem hér hefur verið bent á til þess að lækka dýrtíðina. — Ein af þeim leiðum, sem bent hefur verið á, er sú, að það beri að lækka grunnkaupið hjá launþegum og jafnhliða afurðaverðið til bænda. Ég álít, að það þýði ekki að tala um þessa leið, hana sé ómögulegt að fara. Það er ekki þýðingarlítið í því máli, að það er mjög óréttlátt, eins og nú standa sakir.

Fyrir skömmu voru samþ. ekki svo lítil fjárútlát, upphæðin ekki nefnd, heldur heimild fyrir ríkisstj. að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar með fé úr ríkissjóði. Ég skal ekki fullyrða, hvað það mundi vera mikið, en líklega ekki minna en 15 millj. kr., og það er rakið í grg., hvað það er mikið, sem dýrtíðin fæst niður með þessum greiðslum, og líka bent á, að með því að fara þá leið að afnema tolla á nauðsynjavörum mundi hvert vísitölustig, sem dýrtíðin færist niður, kosta ríkissjóð meira en helmingi minna samanborið við það, sem fæst með þeim ráðstöfunum, sem nú eru gerðar, með því að greiða hana niður. Það sér því hver maður, að ef verja á fé úr ríkissjóði til þess að greiða niður dýrtíðina, þá er það miklu eðlilegri leið, sem hér er bent á.

Þegar sú þál., sem ég gat um áðan, var til umr., tók ég til máls og gerði grein fyrir henni. Tel ég því ekki ástæðu til að ræða hana aftur, þar sem svo stutt er um liðið, en legg til, að þessu verði vísað til síðari umr. og fjvn. til athugunar.