10.02.1944
Sameinað þing: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í D-deild Alþingistíðinda. (6123)

19. mál, tollar á nauðsynjavörur

Flm. (Þóroddur Guðmundsson):

Það voru örfá atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi minnast á. — Hann gengur út frá því, að ef þessum niðurgreiðslum væri haldið áfram, mundi það nema um 10 millj. kr. Það er nú svo, að það getur enginn sagt um það með vissu, hvað þetta getur orðið mikil upphæð að lokum. Fer það mikið eftir því, hvað magnið er mikið, sem endurgreiðslan nær til. Ég skal ekki fara út í neinar deilur um þetta, en eftir þeim upplýsingum, sem ég get aflað mér, mundi þetta verða um 15 millj. kr. Reynslan sker úr því, hve stór þessi upphæð verður, en jafnvel þótt þetta reyndist rétt hjá hv. fjmrh., þá raskar það ekki því, að ef velja ætti milli þess að hætta þessum niðurgreiðslum og afnema tolla á nauðsynjavörum, er það engum vafa bundið, að það síðara yrði miklu betra fyrir ríkissjóð. Þó þarf ekki að vera um annað hvort að ræða. Það væri hægt að gera hvort tveggja. Er því óþarft að tala eins og það sé ekki hægt að gera neinar aðrar ráðstafanir.

Þá var það annað atriði, þar sem gætti misskilnings hjá hæstv. fjmrh. Hann segir, að þarna sé um beina lækkun, 15 stig, á vísitölunni að ræða og þar á eftir eigi að koma þau óbeinu áhrif, sem orsaki meiri lækkun. Ég álít, að þetta sé mjög hæpin fullyrðing.

Þá er það viðvíkjandi þeim útreikningi, sem hagstofan gerði og sá hagfræðingur, sem þar átti hlut að máli. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að hagfræðingurinn áætlaði, að tap ríkissjóðs með því að afnema tolla á nauðsynjavörum mundi nema um 15 millj. kr. Það er tala, sem að nokkru leyti er ágizkun, en á sínum tíma er hægt að fá það útreiknað, og það skal viðurkennt, að svo gæti farið, að tap ríkissjóðs við þessar ráðstafanir yrði eitthvað meira en þetta, en þó ekki miklu meira. Og ég hygg, að það, sem hagstofan hefur fengið út með þessari áætlun, sé það, hvað tollar af nauðsynjavörum séu mikill hluti af öllum tolltekjum.

Ég get svo lýst ánægju minni yfir því, að hæstv. fjmrh. er því samþykkur, að fram fari sú athugun, sem áformuð er í þessari till., og þakka honum fyrir það, að hann tekur vel á því, að þessi till. verði samþ.