07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

143. mál, fjárlög 1945

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Á þskj. 580 hefur fjvn. gert grein fyrir að kalla öllum brtt., sem hún hefur gert við fjárlfrv. fyrir árið 1945. Þar er og sagt frá vinnubrögðum n. Þar er á það drepið, að frv. var ekki útbýtt á Alþ. fyrr en 23. sept., en n. hafði þá þegar tekið til starfa. Hún hélt 65 fundi, og 410 erindi bárust henni, nú eru að vísu bæði fundir og erindi orðin fleiri. Meðal þess, sem nú hlaut að tef ja störf n., verður að minna á stjórnarskipti og síðan tveggja vikna þinghlé, og að mestu varð þá einnig hlé á fundum n. — Ég skal án frekari formála víkja að niðurstöðum n. um frv. og þá fyrst að tekjubálkinum.

Við áætlun tekna hefur n. haft hliðsjón af tekjunum 1943 og leitazt við að afla sér vitneskju hjá fjmrn., ríkisbókhaldinu og öðrum aðilum um það, hvernig hagurinn stendur. N. hefur nú síðast fengið skýrslu um tekjur og gjöld ríkissjóðs til loka okt. s.l.

N. áleit, að rétt væri að hækka tekjuáætlun 2. gr. um 6,1 millj. kr., og skal ég víkja litið eitt að því. Þá er fyrst á 2. gr. tekju- og eignarskattur hækkaður um 11/2 millj. kr. og stríðsgróðaskattur, hluti ríkissjóðs, áætlaður 1/2 millj. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir. Hækkun á vörumagnstolli nemur 1 millj. og á verðtolli 3 millj., og loks er hækkun á innflutningsgjaldi af benzíni 0,1 millj. Hækkanir á 3. gr. nema 7,067,169 kr., og er það haft svo nákvæmt til þess, að betur standi á reikningstölum. Þar er það rekstrarhagnaður áfengisverzlunar, sem áætlaður er rúmlega 6,6 millj. kr. hærri en var, og hagnaður tóbakseinkasölu, sem áætlaður er liðlega 400 þús. kr. hærri en var. Þegar frá eru dregnar gjaldahækkanir, sem orðið hafa á sömu liðum, 800 þús. kr. alls, nemur tekjuhækkunin 6.267.179 kr. nettó. Samtals nema þá tekjuhækkanir á 2.–3. gr. 12.367.179 kr.

Nú hefur svo til borið, að tveir af nm. hafa tekið afstöðu gegn þessum till. um hækkun tekjuáætlunar, og komast þeir þannig að orði í aths. sínum, að fjárhag ríkissjóðs sé teflt í tvísýnu með þeirri hækkun, sem felst í till. n. Út af því vildi ég segja nokkur orð. Frá. sjónarmiði meiri hl. er sú tvísýna ekki meiri en sú tvísýna, sem nú er á öllum áætlunum yfirleitt vegna breytilegs ástands. Auðvitað má segja svo; að öll afkoma landsmanna sé í tvísýnu, geti ekki öðruvísi verið. Engu að síður er nauðsyn, að áætlanir séu ekki vitandi vits látnar fara mjög fjarri sanni. Það virðist orðinn nokkuð rótgróinn siður að áætla ýmsar tekjur ríkissjóðs miklu lægri en nokkrar líkur eru til, að þær geti orðið. Í fjárláætlun fyrir 1942 voru tekjurnar áætlaðar 23,2 millj., en reyndust 62,9 millj. Áætlunin fyrir 1943 nam 66,3 millj., en hækkaði um meir en 44 millj. kr. Um það, er tekjur ársins 1944 snertir, er vitað, að í lok okt. þegar 1/6 árs var eftir, voru tekjurnar orðnar 94.848.118 kr., þegar frá eru dregnar eftirstöðvar frá fyrra ári, að upphæð 4.237.725 kr. Og eftir því, sem kunnugir menn í fjmrn. hafa látið í ljós, er þess vænzt, að viðbótartekjur tvo síðustu mánuði ársins verði það miklar, að árstekjurnar verði ekki lægri en 115 millj. kr. Gjöldin voru í lok okt. orðin 85 millj., og má náttúrlega búast við talsverðri hækkun á þeim. En þótt þau yrðu yfir 100 millj., ætti að mega vænta þess, að einhver töluverður tekjuafgangur verði óráðstafaður frá þessu ári.

Af því að hækkunin á hagnaði á áfengissölu munar mestu í hækkunum 3. gr., vil ég geta þess, að í lok okt. voru tekjur þessa árs af henni orðnar 221/3 úr millj. kr., og hagnaður af tóbakseinkasölunni 61/3 millj. Þetta gæti kannske skýrt dálítið ástæðuna til þess, að þessi liður var hækkaður í n. Það er að vísu rétt að hafa þá reglu að áætla tekjurnar varlega, enda nauðsynlegt. En þó verður að gæta nokkurs hófs í þessum efnum sem öðrum og áætla ekki tekjurnar neðan við skynsamlegt mark, áætla ekki vitandi vits langt frá því, sem raunveruleikinn hefur orðið og útlit er fyrir að hann verði. Í þessum efnum varðar mestu að komast sem næst því rétta. Þá má enn fremur gæta að því, til afsökunar því, að þessir liðir eru hækkaðir í áætluninni, hver þörfin er, þegar um þessi mál er fjallað. Það er miklu léttara að leggja til hliðar svo og svo mikið af þeim tekjum, sem maður veit að koma i ríkiskassann, ef hægt er að afla tekna á annan hátt. Nú horfir svo við hjá okkur, ég held að allra dómi, að þörfin fyrir tekjur er vaxandi og mikil. En hins vegar eru skatta- og tollabyrðar orðnar nokkuð þungar, og ekki er auðvelt í fljótu bragði að benda þar á tekjuöflunarleið, sem miklar tekjur geta gefið. Má búast við, að leiðirnar verði fleiri, sem ekki munu þykja færar. En væri mikið af tekjuöflunarleiðum fyrir hendi, þá gæti maður litið með miklu meiri rósemi á það, að tekjuliðir eins og þeir, sem n. leggur til, að hækki, verði látnir standa í áætluninni með tvöfalt lægri tölum en líkur benda til, að þeir verði, eins og gert hefur verið á síðari árum.

Enn fremur má gæta annars sjónarmiðs í þessu sambandi. Hvað verða gjöldin utan fjárl.? Og hvað verða tekjurnar miklar, sem stj. hefur úr að spila utan fjárl.? — Það virðist svo, að árin 1942–43 hafi þetta verið geysimikið fé. Landsreikningurinn 1942 sýnir útgjöld upp á 72 millj. kr., þar sem fjárl. ætluðust til, að gjöldin yrðu 26 millj. kr. Landsreikningurinn 1943 sýnir útgjöld upp á 923/4 millj. kr., þar sem fjárl. gera ráð fyrir 651/2 millj. kr. Um árið í ár skal ég ekkert segja með vissu. Ég álít þessi dæmi nægja til að sýna fram á þær geysilegu umframgreiðslur, sem hér hafa átt sér stað. Ég hygg, að þegar gengið er að því vitandi vits að hafa tekjuhlið fjárl. miklu lægri en líklegt er, að tekjurnar verði, þá ýti það beinlínis undir umframgreiðslur. Vegna þess að þessar umframgreiðslur eru að mestu eða öllu leyti eftir sérstökum l. eða þál. og þar sem gjöldin eru í mörgum heimildum á valdi ríkisstj., þá á ríkisstj. vont með að rísa á móti þessum kröfum, ef vitað er, að tekjur ríkissjóðs eru miklu meiri en gefið er upp í fjárl. Mér virðist, að gerður hafi verið leikur að því á undanförnum árum að ýta undir þessar umframgreiðslur með því að áætla tekjurnar of lágt. Þetta sjónarmið óska ég, að menn hefðu í minni, þegar þeir kynna sér, hvort það sé svo mikil fjarstæða að áætla tekjurnar þetta ár eins og n. hefur gert. Þetta er tilraun til þess að komast sem næst því rétta. En enginn getur vitað það fyrir fram, hver útkoman verður.

Þá kem ég að áfenginu. Það er ekkert ánægjuverk að skrúfa þennan lið upp. En það er ekki fjvn., sem gerir það. Reynslan sýnir, að þessu er eytt. Og þegar reynslan sýnir, að þessi óþarfavara er svona mikið notuð, þá verður að taka tillit til ástandsins, eins og það er, þegar fjárl. eru samin. En engan veginn ber að líta á það sem ósk n., að þetta ástand haldist.

Um aðra tekjuliði er það að segja, að verðtollurinn hefur verið hækkaður. Mætti e.t.v. segja, að það sé tvísýn ráðstöfun. En í því sambandi vil ég vísa til ræðu hæstv. viðskmrh. (PM).

Hér er starfandi stofnun, sem heitir viðskiptaráð og kostar þjóðina 11/2 millj. kr. á ári. Þessi stofnun var sett á fót af fyrrv. stj. með það fyrir augum, að hún greiddi fyrir viðskiptum. En að mínum dómi og margra annarra verzlunarmanna gerir hún það ekki. Og reynslan hefur sýnt, að í mörgum tilfellum torveldar hún þróun eðlilegra viðskipta. Það er eins og ráðið líti á sig sem eins konar skömmtunarskrifstofu. En þess þarf það ekki. Hér eru starfandi skömmtunarskrifstofur fyrir þær vörur, sem skammtaðar eru í landinu. Þarna gætir allt of mikillar skriffinnsku og beins andófs gegn innflutningi margra vara, sem alls ekki geta talizt munaðarvörur, t.d. byggingarvara. Þessar gerðir ráðsins geta auðveldlega leitt til þess, að dragi úr innflutningi vara. Sérstaklega er þetta alvarlegt, hvað snertir þær vörur, sem hömlur eru á um útflutning vestanhafs. — Það kom til tals í n. að athuga gang þessara mála, og voru tveir nm. tilnefndir til að gera það. En með öllum þeim störfum, sem n. hefur, reyndist það ógerlegt. Ég er mjög hræddur um, að þessi dýra stofnun sé farin að misskilja hlutverk sitt. Ef nauðsyn er á innflutningshömlum nú, er það ekki vegna gjaldeyrisskorts, heldur vegna skipaskorts. Og það afsakar það ekki að láta nauðsynlega byggingarvöru liggja mánuðum saman á hafnarbakkanum, vegna þess að viðkomandi firma hefur ekki fengið nægilegan „kvóta“, eins og það er kallað, hjá þessu háa ráði. Viðskiptaráð heldur fast við þá biblíusetningu að leyfa hvorki pöntun á byggingarvörum né öðru, nema útflutningsleyfi liggi fyrir um það. En það er vitað mál, að fjölda vara, sem vitað er, að stórar hömlur eru lagðar á vestan hafs, tekst mörgum að festa kaup á eftir ýmsum leiðum utan við skömmtunina. Þess vegna finnst mér, að viðskiptaráð þurfi ekki að vera kristnara en páfinn sjálfur í þessum efnum. Ef þjóðin hefði ætíð, síðan viðskiptaráð var stofnað, gengið hina troðnu braut þess, þá væri áreiðanlega skortur á miklu fleiri vörutegundum í landinu. Það, sem bjargað hefur, er það, að ýmsir hafa flutt inn vörur án þess að hafa fengið samþykki ráðsins fyrir fram. Mér finnst nauðsynlegt, að þetta sé tekið fram til athugunar fyrir hlutaðeigandi ráðherra.

Þá kem ég að gjaldabálknum. — N. leggur til, að liðurinn til póstflutninga hækki um 200 þús. kr. Þessi hækkun er gerð í samráði við samgmrh. með það fyrir augum, að samgöngur verði bættar á árinu. Eins og kunnugt er, var mþn. sett til að gera till. um betri póstsamgöngur. Hún hefur skilað áliti og lagt til, að gerðar verði miklar breyt., sem í heild sinni kostar mikið að framkvæma. En fjvn. stefnir í þá átt að koma bótum á og nota þau góðu ráð, sem n. hefur lagt til.

Gert er ráð fyrir, að framlag, til notendasíma í sveitum hækki um 400 þús. kr. Ég vil sérstaklega, að þeir, sem eru fulltrúar fyrir sveitafólkið, fái að vita, að n. hefur tekið á sig mikla ábyrgð og ámæli frá sumum fyrir að leggja til, að þessi hækkun fari fram. En n. gerði það vegna þess, að hún vildi leitast við að sýna það, að hún skildi þá erfiðleika, sem dreifbýlið á við að stríða í þessum efnum, og telji þessar ráðstafanir verjandi, þótt dýrar séu.

Þá leggur n. til, að framlag til símstöðva og eftirlitsstöðva hækki um 200 þús. kr.

Samkv. ósk atvmrh. lagði n. til, að smávægilegar breyt. yrðu gerðar á launagreiðslum til sendiráðanna í Washington og London og einum manni bætt við á öðrum staðnum; einnig, að ferðakostnaður yrði tekinn upp sem sérstakur liður. Þetta er smávægilegur kostnaður.

Framlag til landhelgisgæzlu leggur n. til, að hækki um 800 þús. kr. Er það gert í samræmi við þá reynslu, er fengizt hefur af rekstri landhelgisgæzlunnar árið 1943 og það, sem liðið er af þessu ári. Nú á stríðsárunum hefur fé á þessum lið jöfnum höndum runnið til strandferða. Öllum er kunnugt, hve varðskipin eiga mikinn þátt í strandferðum. Og þetta er lítt sundur skilið. Skipaútgerðin hefur bókhald yfir allt þetta, og mikið af þeim kostnaði, sem varið er til landhelgisgæzlu, rennur til strandferða. En þar sem hvort tveggja er gert fyrir þjóðina og allir vita, að þetta verður ekki aðgreint í bili, sér n. ekki ástæðu til að skipta sér af því, hvað þessi liður verður látinn heita.

Samkv. ósk dómsmrh. leggur n. til, að 165 þús. kr. séu veittar til viðgerðar á hegningarhúsinu í Reykjavík , og einnig 100 þús. kr. til að gera við fangahúsið að Litla-Hrauni. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði sótti um 75 þús. kr. fjárveitingu til fangahússbyggingar þar. En n. leggur til, að veittur sé helmingur þeirrar upphæðar. Kemur þetta fram á brtt. n. á þskj. 579, í 16. –17. –18. brtt.

Um 19. brtt, skal það sagt, að hún féll úr frv. fyrrv. stj., en n. þótti rétt að taka hana upp í það aftur. Þar er um að ræða greiðslur fyrir eftirlit á vegum. Starfsmaðurinn hefur einnig það með höndum að koma í veg fyrir slæma þróun í áfengismálum í sveitum landsins.

20. brtt. snertir viðskiptaráð; er þar leiðrétt prentvilla.

21. brtt. er um hækkun skrifstofukostnaðar til landlæknis. Hann hefur ekki verið kröfuharður um rekstrarkostnað. Þar eru veittar 1000 kr. til hækkunar.

22. brtt. er 100 þús. kr. fjárveiting til viðbótarbyggingar við fávitahælið á Kleppjárnsreykjum. Með því er reynt að bæta úr þeim vandræðum, sem stafað hafa af því, hvað það er lítið.

24. brtt. er um styrk til sjúkrahússbygginga, læknisbústaða og sjúkraskýla, eftir till. ráðh. 1.100.000 kr.

25. brtt. er til vegamála. Í nál. er bent á, að í fjárlfrv. fyrrv. stj. hafi framlag til nýrra akvega verið lækkað mjög verulega frá því sem er í núgildandi fjárl. N. átti ýtarlegar umr. um þetta við vegamálastjóra og samgmrh. Kom það í ljós, að ríkisstj. lagði á það sérstaka áherzlu, að hraðað yrði lagningu þriggja vega, sem tengja munu kaupstaði við aðalvegakerfi landsins, einnig lagningu Krýsuvíkurvegarins og vegar yfir Þorskafjarðarheiði. Lét n. fyrir sitt leyti að óskum ríkisstj. í þessu efni. Svo hafði n. það sérsjónarmið að leggja áherzlu á það, að sem minnst yrði dregið úr fjárframlögum til vega frá því, sem verið hafði í fjárl. 1944, og um það náðist svo samkomulag, eins og fram kemur í brtt. fjvn. Ég vil geta þess til skýringar, að þetta þýðir það, að yfir 40 vegi, sem sleppt hafði verið í frv. stj. samanborið við gildandi fjárl., tók n. nú á ný inn í brtt. sína.

Um brúargerðir er það að segja, að n. leggur til, að sá liður hækki um 315 þús. kr. og verði 815 þús. kr. og skiptist eins og segir í nál. Annars er það upplýst, að samkv. fjárveitingu frá 1943 og 1944 liggja fyrir fjárveitingar til yfir 20 brúa, sem ósmíðaðar eru, annaðhvort af því, að ekki hefur fengizt nægilegt efni, eða brúarsmíði hefur vantað, nema þá hvort tveggja hafi komið til. — Nú stendur til, að Ölfusárbrú verði endursmíðuð og brú á Jökulsá á Fjöllum, og þegar hækkanir n. eru teknar með, er, eins og nú standa sakir, búið að ákveða 5 millj. kr. í brýr, sem ekki eru smíðaðar. Það er ótrúlegt, að hægt verði á fjárlagaárinu að vinna fyrir hærri upphæð.

Mér láðist að geta þess, þegar ég talaði um vegina, að til Krýsuvíkurvegarins eru ætlaðar 500 þús. kr. í frv. Nú hefur n. fengið þær upplýsingar hjá ríkisstj., að þetta fé sé greitt af tekjum ársins 1944, og er það þess vegna, sem þessi 1/2 millj. kr. samkv. þál. frá því í sumar hefur ekki verið tekin upp í till. n.

Þá er brtt. nr. 27, um hafnarmannvirki. — N. óskar þess, að ríflegar fjárveitingar verði til hafnarbóta, og skýrir brtt. sig sjálf, eins og hún er sundurliðuð í brtt. n., bæði að því er snertir hafnargerðir og lendingarbætur.

Samkv. 28. brtt. er gert ráð fyrir að hækka fjárveitingar til flugmála úr 600 þús. kr. í 700 þús. kr., þar af byrjunarstyrkir til flugvallar í Vestmannaeyjum 300 þús. kr. og til dráttarbrautar og flugskýlis á Ísafirði 100 þús. kr. Það er vitað, að á leiðinni gegnum þingið er frv. um, að ríkið veiti styrk til slíkra mannvirkja.

Um 29. brtt. vil ég segja það, að rétt þótti að taka upp smá-fjárveitingar til nokkurra kirkna, sem upp eru taldar, eins og sést í brtt. n. Það eru 5 kirkjur með 15 þús. hver og 6. kirkjan með 10 þús. kr. fjárveitingu. Það hefur undanfarið verið þannig, að einstakir þm. hafa beitt sér fyrir, því, að þ. veitti lítils háttar styrki til þess að endurbyggja kirkjur, og er fjarri, að ég telji ekki vel afsakanlegt og verjanlegt að verja nokkru fé til þeirra hluta. Vitaskuld verður að gæta þess, að það er ekki hægt að taka fyrir í einu allar kirkjur í landinu, sem endurbyggja þarf, en mér virðist þessari upphæð svo í hóf stillt, að það ætti að vera hægt að fallast á hana.

30. brtt. n. fjallar um það, að liðurinn til ísl. stúdenta í erlendum háskólum hækki um 50 þús kr. Það mun alls staðar reynast svo, að dvölin erlendis reynist öllum miklu dýrari en gert er ráð fyrir og látið í veðri vaka af þeim, sem hafa með höndum upplýsingastarfsemi um þessi mál. Af þeirri reynslu, sem fengin er, tel ég það mjög æskilegt, að þeir, sem gefa námsfólki upplýsingar um þessi efni, vandi betur til þeirra en verið hefur til þessa. Útkoman hefur. verið sú, að kostnaðurinn hefur að jafnaði orðið miklu meiri en gefið hefur verið í skyn.

Samkv. 31. brtt. er um lítils háttar hækkun á framlagi til Íþöku að ræða.

32. brtt. er um byggingu tilraunaskóla, sem jafnframt sé æfingaskóli fyrir nemendur Kennaraskólans. Ætlazt er til, að Handíðaskólinn fái húsrúm í sömu byggingunni fyrir starfsemi sína.

33. brtt. fjallar um stundakennslu í Stýrimannaskólanum. Liður sá verður að hækka eins og þar segir af þeim ástæðum, sem getið er um í nál.

34. brtt. er um lítils háttar hækkun til aukakennslu, eldiviðar, ljósa o.fl.

Í 35. brtt. er hækkuð lítils háttar fjárveiting til smíða- og leikfimiskennslu á Hvanneyri. Enn fremur leggur n. til, að veittar verói 25 þús. kr. til vatnsveitu til heimilisnota. Vatnsbólið á Hvanneyri virðist vera óviðunandi, og þar sem það stendur til, að það verði lagfært, en kostnaður allmikill, hefur n. ekki þótt annað fært en verða við tilmælum skólastjóra að hálfu leyti.

Í 36. brtt. leggur n. til, að hækkað verði framlag til smíðakennslu o.fl.

37. brtt., sem er viðvíkjandi iðnskólahaldi, í 38. brtt., sem varðar Verzlunarskólann, og í 39. brtt., varðandi Samvinnuskólann, er aukið framlagið til þessara skóla.

Þá er 40. brtt., og er hún um Kvennaskólann í Reykjavík. Sá skóli hefur, eins og flestir vita, notið nokkurs styrks frá ríkinu og er eflaust álitinn mjög góður skóli. Skólahúsið er orðið gamalt og þarf viðgerða við. Þótti n. ekki annað fært en veita fé til þess að gera við hann.

41. brtt. er um barnaskólabyggingar utan kaupstaða. Hæstv. menntmrh. lagði til að hækka þennan lið upp í 1 millj. kr. N. kom til móts við ráðh. og hækkaði upphæðina upp í 800 þús. kr. Það er víst, að slíkra skólahúsa er víða þörf, en n. treystist þó ekki til að hafa þennan lið hærri.

42. brtt. er um stofnkostnað héraðsskóla. Hæstv. menntmrh. lagði til, að sú fjárveiting yrði hækkuð upp í 1.180.000 kr. N. lagði til að hækka liðinn upp í 800 þús. kr., sem skiptist eins og segir í grg.

43. brtt. er sama eðlis. Þar er líka nokkur hækkun á byggingarstyrk til gagnfræðaskóla og skiptist eins og greinir í nál.

44. brtt. er um húsmæðraskóla. Er þar um smávegis hækkun að ræða, fyrir 100 þús. koma 110 þús kr. Stafar þessi hækkun aðallega af hækkun á stundakennslu.

Þá er 45. brtt., og er hún um húsmæðraskóla í kaupstöðum. N. leggur til, að sá liður verði 400 þús. kr. í stað 340 þús. kr. og skiptist í fjóra staði, eins og sést í nál.

46. brtt. er um húsmæðraskóla í sveitum. Leggur n. til, að til byggingar húsmæðraskóla í sveitum séu veittar 400 þús. kr.

Hæstv. menntmrh. lagði til við n., að tekinn yrði upp nýr liður: styrkur til íþróttakennaraskóla, 150 þús. kr., og hefur n. orðið við því og gerir um það till.; þá 47.

48. brtt. er um það að auka framlagið til íþróttasjóðs. Lagði hæstv. menntmrh. til, að liðurinn yrði hækkaður upp í 650 þús. kr., en n. kom til móts við þá ósk og leggur til, að sá liður verði hækkaður upp í 600 þús. kr.

Í 49. brtt. eru nýir liðir: styrkur til menningarsjóðs Blaðamannafélags Íslands og til Alþýðusambands Íslands, fjárhagslega lítilvægir liðir, en n. leggur til, að þeim sé bætt inn á fjárl.

Þá er komið að Landsbókasafninu, í 50. brtt. Það var ósk menntmrh., að þrír liðir tilheyrandi Landsbókasafninu yrðu hækkaðir, þar á meðal til bókakaupa og bókbands, upp í 150 þús. kr.

Til viðhalds fornmenjum á nokkrum stöðum, samkv. beiðni þjóðmenjavarðar, leggur n. til, að veittar verði 25 þús. kr.

N. leggur til, að bókasöfn og lesstofur verði studdar meir en verið hefur og sérstaklega bókasafnið á Ísafirði, sem á að bera nafn Jóns Sigurðssonar, og er því veittur 20 þús. kr. byggingarstyrkur og um leið veitt fé til viðgerðar og stækkunar á bókhlöðunni á Húsavík. Svo er nýr liður, þar sem fé er veitt til lesstofu fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík.

53. brtt. er um smávægilegar hækkanir til Fornleifafélagsins og einnig til Vísindafélags Íslendinga, og undir sama lið, að dr. Jóni Dúasyni verði veitt verðlagsuppbót á þann grunnstyrk, sem hann fær til útgáfu rita sinna, en hann hefur hingað til ekki fengið neinar uppbætur. N. telur, að starf Jóns sé svo mikilsvert, að ekki sé rétt að láta hann einan fara á mis við verðlagsuppbót.

Þá er 54. brtt. um framlag til skálda, rithöfunda og listamanna, eins og segir í nál. Hæstv. menntmrh. lagði til, að styrkurinn yrði hækkaður úr 375 þús. kr. í 500 þús. kr., en n. samþ. að leggja til, að styrkurinn yrði hækkaður í 437.500 kr. Enn fremur leggur n. til, að úthlutun styrkjanna fari fram með öðrum hætti en verið hefur, eins og sjá má í 54. brtt. n.

55. brtt. snertir leiklistarstarfsemi. Þar er tillag til leikskóla Jóns Norðfjörðs hækkað lítillega. 56. brtt. er viðvíkjandi Fiskifélagi Íslands. Hæstv. atvmrh. lagði til við n., að teknar yrðu upp nokkrar hækkanir við Atvinnudeild háskólans, fiskideildina, og leggur n. til, að liðurinn „Ýmislegur rekstrarkostnaður“ hækki um 50 þús. kr. og að veittar verði til fiskirannsókna í Faxaflóa 50 þús. kr., enn fremur til áhaldakaupa og útgáfustarfsemi 20 þús. kr.

Í 57. brtt. leggur n. til, að framlag til fjárræktarbúsins á Hesti hækki upp í 110 þús. kr. Í gildandi fjárl. er fjárveiting til þess að koma upp tilraunabúi á Hesti í Borgarfirði, sem hefur það markmið að ala þar upp fé af þeim stofnum, sem reynzt hafa sterkastir gegn sauðfjársjúkdómum. Nú er þetta bú tekið til starfa og viðbótin ætluð sumpart til búrekstrarins og nokkuð til endurbóta á bæjarhúsum.

Þorkell Þorkelsson veðurfræðingur hefur óskað eftir því við stj., og hún gerir það að till. sinni, að honum verði veittur kostur á að kaupa ný tæki til landskjálftamælinga, og er með 58. brtt. orðið við þeim óskum.

59. brtt. er viðvíkjandi jarðabótastyrkjum, í stað 700 þús. komi 1 millj. kr. Hins vegar fellur framlag til ræktunarframkvæmda vélasjóðs niður. Greiðslur þessar eru samkv. jarðræktarl., önnur samkv. 2. kafla, en hin samkv. 5. kafla.

60. brtt. fjallar um framræslu á löndum ríkissjóðs á Stokkseyri og Eyrarbakka, og eru veittar til þess 300 þús. kr., og er það ein greiðsla af þremur. Lönd þessi liggja undir skemmdum af vatnagangi, svo að til eyðileggingar horfir, og þótti rétt að veita nokkurt fé til þess að varðveita eigur ríkissjóðs, og þótti hentara að veita ekki allt féð í einu, heldur í þrennu lagi.

61. brtt. er líka til þess að varna ágangi vatns, bæði undir Eyjafjöllum og til fyrirhleðslu á tveim stöðum í Austur-Skaftafellssýslu, og er fjárveitingin eins og greint er í till. n.

Þá kem ég að 62. brtt. fjvn. Þessi liður, sem tekinn er upp í samráði við fjmrh., fjallar um vélasjóð og fer fram á 500 þús. kr., sem verja á til verkfærakaupa. Verkfæri þessi á svo að nota til landþurrkunar, því að eins og menn vita, er mikið verkefni fyrir slík tæki víðs vegar um land, þar sem þau gera mönnum unnt að breyta flóum og mýrum í valllendi.

63. brtt. fer fram á að hækka lítils háttar fjárveitingu til sandgræðslustöðva, úr 135 þús. kr. upp í 147 þús. kr. Ætlazt er til, að þessi hækkun gangi til sandgræðslu á Grænavatni í Mývatnssveit, þó að því tilskildu, að samkomulag náist milli jarðareiganda og ríkisstj. um afnot landsins.

64. brtt., a-liður, fer fram á lítils háttar hækkun á grunnstyrk til einstakra manna til þess að stunda dýralækningar. Er ætlazt til, að þessi grunnstyrkur hækki úr 5.500 kr. upp í 6.500 kr., og er hann ætlaður dýralækni, sem nýráðinn er til Vestmannaeyja. — B-liður sömu brtt. fer fram á, að verðlagsuppbót á þessum grunnstyrk hækki úr 8.250 kr. upp í 9.750 kr. — Í c-lið sömu brtt. leggur n. til, að veittar verði 50.000 kr. til dýralæknisbústaðar á Egilsstöðum, sem ætlazt er til, að verði fyrir allan Austfirðingafjórðung.

65. brtt. fjvn. fjallar um kostnað vegna sauðfjársjúkdóma, en sauðfjársjúkdóman. þótti gr. illa orðuð, eins og hún var í frv. hæstv. ríkisstj., en vill hafa hana ósundurliðaða. Um þetta var allmikið rætt í fjvn., og hafði hún fund með sauðfjársjúkdóman., þar sem rætt var um það, hvort fjárveitingar til uppeldisstyrks og til girðinga væru þær réttu eða ættu að vera öfugt. Varð niðurstaðan sú að veita féð í einu lagi án skilgreiningar, til þess að ríkisstj. hefði frjálsar hendur um að verja fénu eins og reynslan kann að benda á, að rétt reynist. Jafnframt var liðurinn hækkaður lítils háttar eða um 38.000 kr. frá því, sem stjfrv. var. Voru þau rök færð fyrir þessu, að styrkurinn væri allt of lágt áætlaður í stjfrv., — þótt þess beri að geta, að þessi 38.000 kr. hækkun sé ekki nógu mikil, — en hins vegar gæti ríkisstj. fært til féð milli liða með því að hafa þessa liði ekki sundurgreinda í frv., eftir því sem þörfin kallaði eftir og rétt reyndist á því fjárhagsári, sem hér um ræðir.

Brtt. 65, b-liður, er nýr liður, sem fer fram á fjárveitingu til vélsmiðju í Hólmi í Landbroti, og sé stofnkostnaður 25000 kr. Allir landsmenn kannast við þetta bæjarnafn fyrir það, að þar bjó Bjarni Runólfsson, sá mikilvirki og vinsæli maður. Hann er nú fallinn frá, eins og kunnugt er, og stendur nú til, að Hólmur verði áfram smíðamiðstöð fyrir Skaftafellssýslur og reyndar fleiri sýslur. Sá maður, sem veita mun vélsmiðjunni forstöðu, er Valdimar Runólfsson, bróðir Bjarna. Hann hefur reist þarna stórt hús fyrir smíðar, og með tilliti til allra aðstæðna þótti fjvn. rétt að veita þessar 25000 kr. í stofnkostnað.

66. brtt. n. er 3 nýir töluliðir, sem eru verðlaun til þriggja gamalla bænda, Guðmundar Einarssonar, Brekku, Kristjáns Jónssonar, Mýrlaugsstöðum, og Magnúsar Ólafssonar, Krýsuvík. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða, — þeim tveim fyrrgreindu eru ætlaðar 2500 kr. hvorum um sig, en Magnúsi 1000 kr., — en þessir menn hafa hver á sínu sviði unnið til þess, að þeim sé einhver sómi sýndur, og þótti fjvn. því rétt að veita þeim þessa upphæð í eitt skipti fyrir öll.

67. brtt. fer fram á 100 þús. kr. hækkun til Fiskifélags Íslands. Þessi hækkun á að verða til þess, að félagið geti aflað sér nýrra og nauðsynlegra áhalda í hina nýju rannsóknarstofu, sem reist verður á vegum félagsins. — Mér er sérstök ánægja að því að mæla með þessu, þar sem ég hef þannig stöðu í atvinnulífinu, að ég hef mikið saman að sælda við Fiskifélagið og veit því, að það er til hins mesta gagns fyrir þjóðfélagið. Fiskifélagið hefur þegar áunnið sér svo mikið traust, að vottorð þess til að sanna með gæði meðalalýsis hafa verið viðurkennd bæði af brezku og sænsku ríkisstj., sem báðar hafa keypt miklar birgðir af meðalalýsi frá Íslandi. Ég lít svo á, að hins bezta megi vænta af starfsemi Fiskifélags Íslands til þess að vinna fiskiðnaði vorum og sjávarútvegi gagn.

68. brtt. er nýr liður, um fjárveitingu til reikningsskrifstofu sjávarútvegsins. Um hana þarf ekki að fjölyrða, þar sem hún er stofnuð með l.

69. brtt. fjallar um byggingu iðnskóla i Reykjavík, og fer n. fram á að hækka byggingarstyrkinn um 100 þús. kr. Fór fjvn. þar eftir kröfu og ósk samgmrn. Þessi skóli er mjög fjölmennur, en vantar tilfinnanlega húsnæði. Má það ekki vera honum til tálmunar.

70. brtt. fjvn. fjallar um hækkun til styrktar- og sjúkrasjóða, fyrir 14650 kr. komi 15150 kr. — Ég skal geta þess í sambandi við þessa hækkun, að fjvn. hefur borizt erindi frá Sjúkrafélagi Norðfjarðar, sem óskar eftir því að verða aðnjótandi svipaðs styrks og þessi hækkun nemur, og þótti n. rétt að verða við þessum tilmælum.

71. brtt. fjvn. er viðvíkjandi sumardvöl barna í sveit, en ætlazt er til, að sá liður falli niður. — Eins og kunnugt er, hafa börn úr kaupstöðum, — aðallega úr Reykjavík, — verið send til sumardvalar upp í sveit á undanförnum stríðsárum, aðallega til þess að forða þeim frá loftárásahættu. Þar sem nær eingöngu Reykjavíkurbörn hafa notið þessa og hér er um almenningsfé að ræða og þar sem loftárásahætta virðist vera liðin hjá, þótti rétt að fella þessa fjárveitingu niður.

72. brtt. fjvn. er nýr liður, er fer fram á fjárveitingu til barnaheimilis á Sólheimum. Síðan fávitahælið á Kleppjárnsreykjum tók til starfa og tók við börnum frá Sólheimum, hefur orðið á breyting á starfsemi þess barnaheimilis. Forstöðukonan á Sólheimum, Sesselja Sigmundsdóttir, sem af dugnaði miklum hefur haldið uppi starfsemi þarna, hyggst nú að reka þar barnaheimili eingöngu, og vill því fjvn. veita 7000 kr. fjárhæð til þessa barnaheimilis, bæði til þess að sýna Sesselju viðurkenningu fyrir unnin störf á síðastliðnum árum og jafnframt stuðla að því, að þarna verði barnaheimili framvegis.

73. brtt. fjvn. er varðandi styrk til mæðrastyrksnefnda, og er hækkun á þeim lið alls 25000 kr. Ætlazt er til, að af þeirri hækkun renni 15000 kr. til mæðrastyrksnefnda utan Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti, sem slíkur styrkur er veittur mæðrastyrksnefndum utan Reykjavíkur, en fjvn: þótti rétt, þar sem mæðrastyrksnefndin í Reykjavík fær fé úr ríkissjóði, að opna einnig leið fyrir slíka starfsemi, sem hefur aðsetur sitt annars staðar á landinu, þannig að hún fái að njóta nokkurs góðs af þessu fé. Ætlazt er til þess, að úthlutun þessi fari fram að fengnum till. mæðrastyrksnefndar í Reykjavík.

74. brtt. fjvn. fjallar um slysavarnir, og leggur n. til i a-lið, að fjárveiting til þeirra hækki úr 50 þús. kr. upp í 100 þús. kr. En b-liður sömu brtt. fjallar um það að styrkja Lárus Eggertsson til björgunarnáms í Bandaríkjunum. Eftir því sem vottorð bera með sér, er lágu fyrir í fjvn., er hér um ungan og efnilegan mann að ræða, er hefur tekizt á hendur nám þetta, og hefur hann af eigin rammleik staðið straum af námskostnaði sínum á yfirstandandi ári. En þar með er fé hans á þrotum. Þarf hann að vera eitt ár í viðbót til þess að ljúka námi, og leggur n. því til að veita honum 14000 kr. styrk til þess að ljúka umræddu björgunarnámi í Bandaríkjunum. Fjvn. litur svo á, að henni hafi verið færðar nægilegar sönnur á, að þessi maður hafi stundað námið af alúð og sé hæfileikum búinn fyrir þetta starf, og hins vegar álítur hún, að nauðsynlegt sé, einmitt að því er varðar slysavarnir, að hafa mann til staðar, er hafi fullkomna þekkingu til þess að fara með björgunartæki og stjórna björgunaraðgerðum.

75. brtt. fjvn. er viðvíkjandi stórstúku Íslands. Ætlazt er til, að styrkurinn til bindindisstarfsemi hækki um 20000 kr. frá því, sem stjfrv. gerir ráð fyrir, en þar af eiga 8000 kr. að renna til bindindisfélaga í skólum landsins.

76. brtt. fjvn. er nýr liður, sem er styrkur til verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, að upphæð 12000 kr. Skal geta þess í sambandi við þennan styrk, að bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. dómsmrh. báru fram ósk um þetta við fjvn., og var samþ. að verða við þeim tilmælum.

77. brtt. fjvn. er , nýr liður varðandi styrk til Kvenréttindafélags Íslands, að upphæð 2000 kr. Á síðustu fjárl. fékk félagið 600 kr., en nú bárust n. tilmæli frá ungfrú Laufeyju Valdimarsdóttur að fá styrkinn hækkaðan, og fannst fjvn. rétt að verða við þeim.

78. brtt. fjvn. er um rekstrarhalla kreppulánasjóðs. Búnaðarbanki Íslands hefur skýrt n. svo frá, að vegna þess að kreppulánin greiðast örar en gert var ráð fyrir, sökum þess að greiðslu geta sveitarfélaganna er meiri en áður, hefur það leitt til vaxtataps fyrir bankann. Mun hann því eiga kröfu á að fá það nokkuð bætt upp af hinu opinbera, og þótti n. rétt að taka tillit til þess og leggur til, að þessi rekstrarhalli sé hækkaður úr 40 þús. kr. upp í 100 þús. — B-liður sömu brtt. er nýr liður, sem er 250 þús. kr. fjárveiting til alþjóðastarfseminnar. Eins og kunnugt er, eiga Íslendingar að taka lítils háttar þátt í alþjóðahjálparstarfseminni, og hefur fjárframlag landsins verið ákveðið 51/2 millj. kr. Nú þegar er búið að greiða 3380000 kr., og þykir því rétt að taka þessa upphæð nú í fjárl. Ég vil benda á, að á nál. fjvn. á þskj. 580, 17. gr., er sagt, að fjmrh. hafi óskað þess, að n. legði til, að tekin yrði upp 21/2 millj. kr. greiðsla í þessu skyni, en þar er um prentvillu að ræða, og á að vera 250000 kr., eins og segir í brtt. fjvn. á þskj. 579, 78, b.

Er þá komið að breyt. á 18. gr. stjfrv., sem fjvn. flytur nokkrar till. við. — Eins og venja hefur verið, hafa þar verið tekin upp nokkur ný nöfn, sérstaklega gamalla embættismanna, sem rétt þykir að styrkja lítils háttar. Aðalbreyt. er sú, að styrkur til 43 prestsekkna, sem nafngreindar eru í þessum till. n., hefur verið hækkaður um 400 kr. fyrir hverja ekkju yfirleitt. Ein er þó hækkuð um 600 kr. vegna mjög erfiðra aðstæðna. Tilmæli bárust til fjvn. frá fjmrh. eftir tillögu biskups, um að n. legði til þessar breyt., sem hún hefur nú gert. Tel ég ekki þörf vera á því að ræða allar þessar brtt., enda mundi það taka of langan tíma, en eins og sjá má af brtt. fjvn., á þskj. 579, ná þessar brtt. við 18. gr. stjfrv. frá 79. til 108. brtt., að báðum meðtöldum. Að ræða um þær frekar kýs ég ekki nema af sérstöku tilefni.

109. brtt. fjvn. er nýr liður, sem fjallar um fjárveitingar til óvissra útgjalda o.fl. Þar leggur n. til, að greiddar verði 4 millj. kr. vegna vantalinnar verðlagsuppbótar. Stafar þetta af því, að eins og stjfrv. var lagt hér fram, er miðað við vísitöluna 250, en eins og kunnugt er, er vísitalan miklu hærri, og er þess vegna farið fram á þessa hækkun, til þess að verðlagsuppbótin samsvari a.m.k. þeirri dýrtíð, sem er í dag, en hún er nú 271 stig, og hefur það ástand nú um alllangt skeið haldizt nokkuð óbreytt.

110. brtt. fjvn. fer fram á hækkun á fjárveitingu til nýrra vita, þannig að fyrir 350 þús. kr. komi 600 þús. kr.

111. brtt., a-liður, fer fram á viðbótarhúsnæði ríkisspítala og leggur til, að framlagið sé hækkað úr 1 millj. kr. upp í 2 millj. kr. Er þetta gert samkv. ósk hæstv. dómsmrh. Byggingar þær, sem hér um ræðir, eru: hjúkrunarkvennaskóli, hús , fyrir starfsfólk Landsspítalans og fæðingardeild. Ég vil geta þess, að hér er ekki gert ráð fyrir húsnæði, sem vantar mjög tilfinnanlega, en það er húsnæði fyrir geðveikt fólk.

111. brtt., b-liður, er nýr liður, þar sem fjvn. fer fram á 1 millj. kr. til byggingar þjóðminjasafns, og er það eftir till. hæstv. fjmrh. Eins og kunnugt er, var á sumarþinginu, sem haldið var í tilefni af lýðveldisstofnuninni, samþ. þáltill. um byggingu þjóðminjasafnshúss, er gert var ráð fyrir, að kosta mundi um 3 millj. kr., og þess vegna vill n. leggja til að taka upp í fjárlfrv. fjárveitingu í þessu skyni.

112. brtt. fjallar um smíði varðskips. — Hæstv. dómsmrh.; bar fram ósk um, að fé yrði veitt í þessu skyni sökum aukinnar þarfar, og var n. auðvitað samþykk því.

113. brtt. snertir 22. gr. fjárl. Þar vil ég taka það fram, að ég bið um fyrir hönd n., að teknar verði aftur brtt. undir staflið b. og g. — Um hina stafliðina skal ég drepa á viðbótarlán til hitaveitu í Ólafsfirði. Ólafsfirðingar eru hinir mestu framkvæmdamenn og hafa ráðizt í rafveitu og hafnargerð, og er þess að vænta, að staðurinn vaxi og blómgist á næstunni.

Nú tek ég eftir því, að ég hef hlaupið yfir eitt atriði, en það er um húsmæðraskólastyrk í 44. brtt., um 25 þús. kr. styrk til skóla Ingibjargar Jóhannsdóttur. Styrkur sem þessi á sér fordæmi í styrkveitingu til húsmæðraskóla Árnýjar Filippusdóttur i Hveragerði.

Ég vík þá aftur að 22. gr. Þar er tekin upp heimild, sem staðið hefur í fjárl. að undanförnu, að verja allt að 100 þús. kr. til verðlagsuppbóta á endurbyggingarstyrk til sveitabýla. Það er skylt að stuðla að nýbyggingum í sveitunum, og byggingarstyrkur er því atriði, sem eigi verður deilt um. — Ég minnist ekki á þá liði, sem teknir verða aftur til 3. umr.

Þá leggur og n. til, að endurnýjaðar verði tvær heimildir, sem snerta Vestmannaeyjakaupstað. Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um brtt. n. Gjaldahækkun sú, er n. gerir ráð fyrir, nemur því alls 14971394 kr. — Ég hef áður minnzt á hækkun tekna, og er því mismunurinn samkv. sjóðsyfirliti, sem nemur 5669739 kr., sem gjöldin eru áætluð hærri en tekjurnar. Þetta kann að vera of hart í farið, og hefur þegar verið getið um það í útvarpi og blöðum og n. verið sökuð um að vera of ör á fjárveitingar, en þó er hér eigi allt talið, sem taka verður á gjaldalið. Ég fer ekki út í það hér, sem getið er um í nál., um dýrtíðarráðstafanir.

Ég vil þá að lokum minnast á helztu liðina, sem n. hefur hækkað. Það er þá fyrst, að liðurinn til póstflutninga verði hækkaður um 200 þús. kr., að framlagið til notendasíma í sveitum verði hækkað um 400 þús. kr., að fjárframlag til símastöðva og eftirlitsstöðva verði hækkað um 200 þús. kr., að liðurinn um fjárveitingu til vega hækki um 3476000 kr., að fjárveiting til brúargerða verði hækkuð um 315 þús. kr., að fjárframlög til hafnarmannvirkja hækki um 3268000 kr., að liðurinn um fjárveitingu til jarðræktarframkvæmda verði hækkaður um 1 millj. kr., að greitt verði til framræslu á löndum ríkissjóðs á Stokkseyri og Eyrarbakka 100 þús. kr., að tekinn verði upp nýr liður, til fyrirhleðslu á Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum, 50 þús. kr., að veitt verði til vélasjóðs til verkfærakaupa, 500 þús. kr., að lagt verði til dýralæknisbústaðar á Egilsstöðum, 50 þús. kr. Hækkun til skólabygginga nemur um 1690000 kr., hækkun til sjúkrahúsbygginga 450 þús. kr., og framlagið til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana verði hækkað upp í 2 millj. kr. Svo leggur og n. til, að framlagið til að gera nýja vita verði hækkað upp í 600 þús. kr. — Ég vildi benda á þessa helztu liði, en hækkun þeirra nemur um 12 millj. kr., og mest af þeirri hækkun er til verklegra framkvæmda, enda lögð áherzla á það af hálfu n.

Eins og ég sagði áðan, hefur n., verið legið á hálsi fyrir gerðir sínar, en viðhorfið til afgreiðslu fjárl. getur breytzt frá 1. umr. til 2. og 3. umr. Ég hef ekki leyfi til að mæla fyrir hönd n., en ég vildi segja þetta, að það, sem n. hefur gert, er háð gagnrýni, og verði talið nauðsynlegt að lækka fjárl., þá er það skoðun mín, að helzt beri að lækka þá liði, sem eigi koma strax til framkvæmda.

Í sambandi við brtt. á þskj. 612 og 626, þá finnst mér, að þar ríki enn meiri bjartsýni en hjá n., og þykir mér það eigi samrýmanlegt þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið gegn gerðum n. Þetta er sagt, án þess að ég taki afstöðu til nokkurra einstakra till., slíkt heyrir undir n., þegar þar að kemur.