17.10.1944
Sameinað þing: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (6141)

167. mál, verðlagsvísitalan

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það, sem ég hef áður sagt. Vitanlega vakir það fyrir mér að fá vísitöluna sem réttasta, en það var eins og hv. síðasti ræðumaður vildi gefa annað í skyn. Það leiðir af sjálfu sér, að það er engin fölsun á vísitölunni, þó að verð á kjöti um sumarmánuðina sé ekki tekið með við ákvörðun vísitölunnar, enda er það ekki almennings fæða, meðan það er selt 40–50% yfir haustverð. Þó er annað, sem ég gerði meira úr, þegar vörur eins og t. d. egg, sem hvergi fást, verða til að hækka vísitöluna. Ég hef ekki nákvæma vitneskju um þetta, en eggin munu hafa orðið til að hækka vísitöluna um 10–20 stig, þó að enginn neytandi geti fengið þessa vörutegund hér í bænum. Það væri ekki fölsun á vísitölu, þótt eggjunum væri sleppt. En það er fölsun að taka þær vörur með, sem ekki eru fáanlegar eða ekki nauðsynjavörur. Ég býst við, að ég geti sætt mig við, að sú n., sem fjallar um till., geri ýmsar breytingar. En það, sem fyrir mér vakir, er ekki það, að vísitalan sé fölsuð, heldur að koma í veg fyrir fölsun eins og þá, sem á sér stað í því dæmi, sem ég tók um eggin.

Ég mun ekki hafa orð mín fleiri. Till. fer sennilega til n., og mun því síðar gefast tækifæri til að ræða þetta nánar.