18.10.1944
Sameinað þing: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í D-deild Alþingistíðinda. (6151)

167. mál, verðlagsvísitalan

Einar Olgeirsson:

Hv. flm. þessarar till. virðist telja það góðar og gildar röksemdir hjá sér, að vegna þess að innlendar neyzluvörur vanti nokkurn tíma ársins, þá þurfi að breyta til um útreikning verðlagsvísitölunnar. Það er alveg einstakt með þá menn, sem hafa með framleiðsluvörur að gera, að þeim skuli ekki detta í hug einfaldara ráð en þetta. Hvernig stendur á því, að ekki skuli vera til kjöt allan ársins hring? Eins og ekki séu til nægilega margar aðferðir til þess að geyma kjöt í eitt eða tvö ár, svo að það sé eins og nýtt. Eins og nokkur þurfi að segja, að ekki séu nægilega mörg frystihús í landinu til þess að frysta allt kjötið. Ef þeir menn, sem stjórna þessu, fylgjast með því, sem gerist í öðrum löndum, ættu þeir að ráða við slík vandamál sem þetta. Við höfum orðið að upplifa það, að það er fyrst þegar landið er hertekið, að menn, sem unnið hafa hjá ríkinu, fara að læra. Hvernig er með þá menn, sem stjórna kjötsölunni? Hafa þeir ekki látið tugi tonna af kjöti eyðileggjast, en heimta svo, að verðlagsvísitölunni sé breytt, af því að þeir hafa ekki kunnað að geyma það? Er ekki nær fyrir þessa menn, sem kvarta um, að kjötið sé ekki fáanlegt, að læra að geyma þessa vöru? Hvers konar stjórn er á þessum málum? Það væri bezt að rannsaka það. Það er ekki nóg með það, að framleiðslan á landbúnaðarafurðum sé í ólagi og minni en eftirspurnin, heldur er sumum landbúnaðarvörum fleygt í stórum stíl, en neytendur kosta stórfé til þess að halda uppi landbúnaðinum með því að veita stóra styrki til hans, og þeir eiga heimting á því, að það, sem hægt er að framleiða, sé látið í té allt árið um kring. Það er ekki nóg að segja: Hér er ég, ég heimta að allt sé keypt af mér, — það þarf að skipuleggja framleiðsluna með tilliti til þarfa neytenda, ef kaupa á alla framleiðsluna. Þessi þáltill., sem hv. 2. þm. Rang. flytur um breytingar á útreikningi kaups í stað þess að gera ráðstafanir til þess, að fólk geti fengið vörurnar allt árið, er fyrir neðan allar hellur. Við höfum upplifað það, að þessar vörur hafa verið seldar á svörtum markaði eða að þær hafa verið seldar pólitískum vildarvinum, þegar aðrir urðu að vera án þeirra. (BBen: Hverjir hafa fengið þær?) Það er talað um, að nokkrir þm., þar á meðal form. Framsfl., hafi fengið þessar vörur þegar aðra hefur vantað þær. Þegar menn neyðast til að kaupa vörurnar á svörtum markaði, vegna þess að þær hafa ekki fengizt með öðru móti, á samkv. þessari till. að lækka vísitöluna vegna þess, að minna sé að kaupa. Við skulum hugsa okkur þetta framkvæmt á húsaleiguvísitölunni. Það er til húsaleiguvísitala, og það eru margir, sem ekki geta fengið húsnæði. Má ekki strika út, húsaleiguvísitöluna, ef menn hafa ekkert húsnæði? Margir verða að greiða margfalda leigu móts við hina, sem greiða húsaleigu samkv. húsaleiguvísitölunni. Enn einn svarti markaðurinn. Verðlagsvísitalan er fölsuð, og hún lækkar verkamönnum í óhag. Þær n., er voru settar af ríkisstjórninni, komust að þeirri niðurstöðu, að rannsaka þyrfti, hvernig bæta mætti úr þessu óréttlæti. Svarti markaðurinn og skortur á húsnæði eru þættir, sem komið hafa mikið við sögu og báðir slæmir fyrir launþega, en úrbætur hv. flm. eru þær, að lækka verðlagsvísitöluna. Þetta nær ekki nokkurri átt.

Hv. 2. þm. Rang. var að barma sér yfir fólksfæðinni í sveitunum og að menn færu burt frá hinu lífræna starfi, eins og hann komst að orði. Hv. þm. verður að venja sig á að hugsa lífrænna en hann gerir nú. Menn hverfa ekki frá lífrænni framleiðslu, þótt þeir hætti að framleiða kjöt eða mjólk. Það að framleiða fisk er engu síður lífræn framleiðsla. Það á ekki að líta á sjávarútveginn sem framleiðslu, er standi svo langtum neðar landbúnaðinum, að ekki sé hægt að tala um hann nema með mestu fyrirlitningu. Ég býst við, að fólksfækkunin í sveitunum sé eitt af þeim atriðum, sem óbeinlínis kemur til með að ýta undir framleiðsluna í sveitunum. Það knýr bændur til þess að koma á vélabúskap, og álít ég þó slíka aðferð engan veginn heppilega, langt frá því. Það á ekki að láta þetta lögmál þjóðfélagsins koma þannig fram. Það væri miklu betra að framkvæma þetta í skipulegu starfi milli aðila eða láta þetta frjálsa viðskiptalögmál valda því, að menn dragist þangað, sem kaup er betra. Það skapar mjög mörgum bændum vandræði, sem verða ýmsum þeirra ofviða að yfirstíga. Hv. 2. þm. Rang. kom inn á það, að betra væri að fá smjör frá Ameríku, þar væri ódýrara að framleiða það. En þetta er ekki rétt. Við Íslendingar stöndum það mikið betur að vígi að framleiða fisk, að við getum keppt við aðrar þjóðir. Ég held, að við getum líka framleitt smjör, mjólk og kjöt með fullkomnari framleiðslutækjum. Ég reikna það út frá því, að lífsafkoma okkar er nú, með þeirri krónutölu, sem miðað er við á mann, samsvarandi tekjum Englendinga, og vita þó allir, að kaupmáttur íslenzkrar krónu er minni hér en í Englandi. Gera má ráð fyrir, að þetta tiltölulega mikla krónukaup færi launþegum ekki eins mikið fyrir vinnuna og enskum verkamönnum. Árstekjur Íslendinga eru því minni en árstekjur Englendinga. Ég efast ekki um, að okkar land sé eins gott, og ég efast ekki um, að ísl. verkamenn afkasti eins miklu við sömu skilyrði og enskir verkamenn. Ég veit, að tækin, sem enska þjóðin notar, eru mjög góð, en ég efast ekki um, að við getum eignazt jafngóð tæki og þeir, og þá verður ekki aðeins möguleiki á samsvarandi lífsafkomu, heldur jafnvel betri. Ég efast ekki um, að við gætum þess vegna framleitt þessar vörur með því að nota fullkomnari tæki en nú. Það er auðvitað ekki útilokað, að eitthvað það gerist, er hindri framleiðsluna, eins og t. d. að kúgun verði beitt í sambandi við verðlagsákvæði á þeim vörum, sem við þurfum að flytja út, en ég fer ekki út í það að svo stöddu. Hv. 2. þm. Rang. ætti að vita manna bezt, hver hækkaði vísitöluna 1942 um 40 stig með því að hækka verðið á ull og kjöti. Sú hækkun var svo stórkostleg, að nærri liggur, að um haustið hafi verið teknar 10 millj. kr. af neytendum fram yfir það, sem hefði verið, ef þá hefði verið fylgt 6 manna n. samkomulaginu, sem síðar varð. Þá var sú stytta reist, sem íslenzku þjóðinni hefur reynzt erfiðast að ráða við. Það var gert af hv. 2. þm. Rang. sem formanni kjötverðlagsn. Þá voru íslenzku þjóðinni skapaðir erfiðleikar, sem hún hefur ekki enn getað ráðið fram úr. Þetta var eingöngu gert til þess, að hann sem frambjóðandi stæði betur að vígi en andstæðingar hans, og með þessu gat hann flaggað í þeim átökum, sem þá fóru fram. Ég býst við, að það sé dýrasta athæfið, sem framið hefur verið af ísl. embættismanni, og mig skal ekki undra, þótt hann hugsi ekki um annað síðan en hvernig eigi að lækka verðlagsvísitöluna og komi því með till. um, hvernig eigi að falsa hana.