19.10.1944
Sameinað þing: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í D-deild Alþingistíðinda. (6156)

167. mál, verðlagsvísitalan

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki mikil ástæða til þess að svara hv. 2. þm. Rang., það lítið, sem hann sagði af viti, tók hann upp eftir mér, en hitt var þannig, að því er varla hægt að svara.

Það er ekki óeðlilegt, að þessi hv. þm. komi fram með svipaðar skoðanir og þm. þess flokks, sem hann er nú á leið í. Hann talaði um það, hvort sanngjarnt væri, að neytendur ættu heimtingu á því að fá kjöt allt árið um kring, og taldi það fjarstæðu eina.

Ég held, að þegar það eru neytendurnir, sem borga afurðirnar, þá eigi þeir kröfu á því að fá það til sín, og það er engin ósvífni af þeim að heimta það, að kjötið verði heldur selt þeim en að það sé eyðilagt og flutt suður í Hafnarfjarðarhraun eða á haf út eða að það sé selt úr landi fyrir sáralítið verð. Það ætti ekki að vera til of mikils mælzt, þótt þess væri vænzt, að kjötið væri geymt þannig, að hægt væri að selja það einnig að sumrinu. Það er framleitt hér nóg kjöt til þess, að hægt sé að hafa hér nýtt kjöt allt árið um kring, ef það væri ekki eyðilagt eða sent úr landi. Það þyrfti því ekki að láta neytendur vera hér kjötlausa tvo mánuði ársins, og það er engin ósvífni að fara fram á, að það verði ekki gert. Þá var hv. þm. að tala um það, að menn vildu heldur flytja hingað til Reykjavíkur og stunda daglaunavinnu en að vinna að framleiðslunni. Hann gerir ráð fyrir því, að daglaunamenn vinni ekki að framleiðslustörfum. Nú er meira en helmingur landsmanna daglaunamenn, og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra vinnur að framleiðslustörfum, en þessi hv. þm. virðist ekki sjá neina framleiðslu aðra en landbúnað og sjávarútveg. Hann heldur, að það sé ekki hægt að framleiða hús, að byggingarverkamenn vinni ekki að framleiðslu. Hann telur iðnaðinn ekki framleiðslu og að ekki sé hægt að framleiða klæðnað o. s. frv.

Ég held, að allir hv. þm., jafnvel hv. 2. þm. Rang., ættu að gera sér það ljóst, að menn þurfa fleira en mjólk, þeir þurfa líka hús og föt og margt fleira, en þessi hv. þm. gerir sér ekki grein fyrir því, að það sé framleitt neitt af þessu.

Það eru sumir menn svo þröngsýnir, að mestu furðu gegnir. Daglaunamenn eru einmitt stærsta stéttin, sem vinnur að framleiðslunni. Þeir menn, sem búa í bröggum hér í Reykjavík, gera það ekki vegna þess, að þeir vilji ekki vera annars staðar, heldur vegna þess, að þeir eiga ekki völ á öðru. ... En þessi hv. þm. virtist ekki gera sér grein fyrir því, hvernig þetta fé hefur skapazt. Þeir menn, sem hafa unnið í setuliðsvinnunni, hafa skapað þetta fé, það kemur fram í erlendum gjaldeyri, sem við fáum út á þessa vinnu. Og þeir menn, sem í setuliðsvinnunni hafa verið, hafa því framleitt handa okkur þennan erlenda gjaldeyri á sama tíma og landbúnaðurinn hefur framleitt vöru til útflutnings, sem þurft hefur að gefa með. En hins vegar hafa þeir, sem í setuliðsvinnunni voru, framleitt gjaldeyri, sem við nú getum notað til þess að endurskapa landbúnaðinn. Þess vegna er það furðulegt, að menn eins og hv. 2. þm. Rang, skuli tala eins og kjánar um svona mál og tala um það með fyrirlitningu, að það skuli hafa skapazt erlendur gjaldeyrir handa Íslendingum á sama tíma og sendar voru vörur út úr landinu fyrir sama og ekkert verð, af því að þeir, sem stjórnuðu kjötmálunum, höfðu ekki vit á því að tilreiða vöruna þannig, að landsmenn gætu neytt hennar. Svo var hv. þm. að tala um hátt kaupgjald, það ætlaði allt að drepa. En má ég spyrja: Hvað er lagt til grundvallar í samkomulagi sex manna nefndarinnar? Það er einmitt það, að það átti að tryggja bændum sama kaup fyrir sína vinnu eins og verkamönnum. Hafa bændur þá kvartað yfir því að hafa of hátt kaupgjald? Er hv. 2. þm. Rang. að mótmæla því, að bændur eigi heimtingu á þessu kaupi? Eru það aðalerfiðleikarnir, að bændum eru ætlaðar 14500 kr. í kaup. Þessir menn ættu að athuga betur, hvað þeir eru að segja. Það er alveg sama, hvað hv. þm. Rang. og hv. þm. V-Sk. reyna að snúa út úr því, sem ég var að segja um þá erfiðleika, sem bændur eiga við að etja. Þessir erfiðleikar muna knýja fram meiri vélanotkun í sveitunum. Ég tók það sérstaklega fram, að það væri óæskilegt, að þróunin í vélanotkuninni þyrfti að vera á þennan hátt. En hverjum er það að kenna? Það er þeim að kenna, sem hafa stjórnað þessum málum. Fyrir tveim árum skrifaði verkamannafélagið Dagsbrún þáverandi landbrh., Hermanni Jónassyni, bréf í sambandi við það að reyna að tryggja vinnuaflið fyrir landbúnaðinn til nauðsynlegrar framleiðslu. Við þm. Sósfl. fluttum þáltill. 1941 og 1942 um það að skora á stjórnina að taka upp slíka samvinnu við Dagsbrún um þetta. En þessu bréfi Dagsbrúnar var ekki svarað. Hæstv. þáverandi landbrh. virti það ekki svars, þó að 3 þús. manna verkalýðsfélag byðist til að tryggja það, að landbúnaðarframleiðslan gæti fengið nóg vinnuafl. Svona var ofstækið og þröngsýnin hjá þeim mönnum, sem hv. 2. þm. Rang. sver sig í ætt við og er vafalaust að ganga í flokk með. Þess vegna ferst þessum mönnum ekki að tala um erfiðleika landbúnaðarins, það hefur ekki staðið á verkamönnum. En það hefur staðið á þeim forráðamönnum, sem hafa sölsað undir sig völdin yfir þessum aðilum, að hafa samstarf við þá menn, sem hafa getað leyst úr þessum vandamálum. Ég skal svo ekki ofbjóða þolinmæði hæstv. forseta, þó að full ástæða væri til að segja miklu meira.