07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

143. mál, fjárlög 1945

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég hef aðeins flutt fáar brtt. við till. fjvn.

Fyrsta till., sem ég flyt ásamt hv. 5. landsk., er um styrk til starfrækslu talstöðva á afskekktum stöðum, 1000 kr. Þessi styrkur hefur staðið á fjárl. tvö síðustu ár, en hefur nú ekki verið tekinn upp. Ég þarf ekki að færa rök fyrir nauðsyn þessa, en vil einungis benda á, hvað þetta er smávægilegt, og hygg ég, að hv. fjvn. fallist á, að þessi fjárveiting verði tekin upp á núv. fjárl.

Önnur till., sem ég flyt, einnig ásamt hv. 5. landsk., er um fjárveitingu til greiðslu vaxta af skuldum vegna læknisbústaða í Ögurhéraði og Hesteyrarhéraði, 900 kr. til hvors. — Þessi fjárveiting hefur staðið lengi á fjárl., og er mér með öllu óskiljanlegt, að hv. fjvn. skuli ekki hafa tekið þessa fjárveitingu á till. sínar. Ég hef aflað mér upplýsinga um þetta, og eru skuldir þær, sem hvíla á spítalanum í Ögri, 14 þús. kr., en á Hesteyri 7 þús kr. Og þar að auki er læknislaust á báðum þessum stöðum, og ætti það að vera nægilegt,

þótt þeir séu eigi einnig sviptir þessum styrkjum Vona ég, að n. muni að fengnum þessum upplýsingum verða fús til að leiðrétta þetta við 3. umr.

Þá eru það brtt. í sambandi við vegamálin. Það hefur verið venja fjvn. að úthluta fjárveitingum til þjóðveganna í líkingu við það, sem gert var síðastliðið ár. Þótt ég telji þetta eigi ófrávíkjanlega reglu, hef ég orðið fyrir vonbrigðum viðvíkjandi mínu héraði. — Við hv. 5. landsk. skrifuðum fjvn., að tekin yrði á fjárl. fjárveiting til tveggja vega og lítils háttar til þess þriðja. Ég sé nú, að hv. fjvn. hefur ekki tekið minnsta tillit til þessa.

Það hefur verið skoðun vegamálastjórnarinnar, að Bolungavíkurvegur kæmi næstur á eftir Þorskafjarðarheiðarvegi, sem þegar er kominn nokkuð áleiðis, en nú hefur engin fjárveiting verið tekin upp til þessa vegar. Þetta hefur verið áhyggjuefni bæði íbúum Ísaf jarðarkaupstaðar og þeim, sem vilja, að fullnægt sé þörf Ísafjarðarkaupstaðar í þessum efnum. Nú hefur bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar fyrir nokkru sent okkur, þm. Ísaf. og N.-Ísf. og landsk. þm. úr þeim landshlutum, eindregna ósk um, að við beitum okkur fyrir því, að aukið og helzt töluvert meira fé fáist til þess að hraða þessari vegargerð. Ég hygg, að ég taki ekki djúpt í árinni með því að segja, að þessi vegargerð sé bein lífsnauðsyn, ekki aðeins fyrir Norður-Ísfirðinga, sem þarna eiga hlut að máli, heldur fyrir íbúa Ísafjarðarkaupstaðar. Það er fyrst og fremst fyrir þá, sem rík nauðsyn ber til þess, að þessari vegargerð verði hraðað.

Ef hins vegar er litið á sögu þessarar vegargerðar, þá hygg ég, að í ljós komi, að hún sé endemislegasti seinagangur og slóðaskapur, sem hægt er að benda á í þessu landi. Það vill nú svo hlægilega til, að það er tiltölulega þýðingarlítið að rekja sögu þessa máls hér á Alþ., þar sem tiltölulega fáir þeirra hv. þm. eru hér viðstaddir, sem hægt væri að ná til. Ég vil þó rekja þessa sögu nokkuð:

Fyrir allmörgum árum er byrjuð vegargerð á þessum slóðum, frá Ísafirði á leið til Arnardals, sem er sveitarbýli utarlega við Skutilsfjörð og selt hefur mjólk til Ísafjarðar. Þessi vegargerð var hafin, og áhuginn var svo mikill, að margir menn á þessum slóðum lögðu fram ókeypis vinnu í því skyni. En það, sem gerðist í þessari vegargerð og gerzt hefur á síðustu sex árum, er, að lagður hefur verið vegarspotti, sem ekkert samband er við á hvorugum endanum. Hann leikur í lausu lofti á leiðinni út með Skutulsfirðinum. Er þessi vegarspotti ekki einu sinni fullgerður og er að verða alveg ónýtur, vegna þess að aldrei er borið ofan í hann og honum er ekki haldið við á neinn hátt. Hann liggur þarna með hlíðinni, í rauninni aðeins ruddur, en skortir á allt, sem þarf til að gera hann akfæran.

Öllum er ljóst, að þessar aðfarir kosta ríkissjóð margfalt á við það, ef farið hefði verið að eins og fara á í vegagerðum. Þessi vegarspotti er sem sagt að grotna niður. Til þessa vegar fékk ég á s.l. ári 30 þús. kr. Fyrir þetta fé tókst að leggja veg töluvert út með Skutilsfirði, en þó ekki þannig, að tækist að tengja hann við vegarspottann, sem er að grotna niður. Þetta er einstakt um framkvæmdir í vegamálum. Ég hygg, að 45 þús. kr. næðu skammt til að ná í skottið á þessum veg og mjög skammt til að fullgera þennan veg, ef veg skyldi kalla. Ég hygg, þegar á þetta er litið ásamt hinni brýnu þörf, sem fólkið í Ísafjarðarkaupstað hefur fyrir að komast í samband við landið í Álftafirði, að ekki verði h já því komizt fyrir okkur flm. að leggja ríka áherzlu við hv. fjvn., að hún sjái sér fært að taka þessar brtt. okkar um 100 þús. kr. framlag upp í till. við 3. umr. fjárl. Ef hv. n. eða hv. frsm. hennar sjá sér það ekki fært, munum við flm. láta skeika að sköpuðu við þessa umr.

Ég vil, áður en ég skil við vegamálin, aðeins taka fram, að þessar brtt. okkar hv. 5. landsk. eru einungis í beinu áframhaldi af þeirri stefnu, sem við höfum tekið í vegamálum vesturhéraðanna, að láta ekki niður falla baráttuna fyrir vegamálum þessara héraða, þó að lokið sé því fyrsta átaki að skapa akvegasamband við heildarakvegakerfi landsins. Fjárveiting handa héraðinu er aðeins örlítið hærri en fjárveiting héraðsins á síðustu fjárl. til vegalagninga. Ég vil þess vegna treysta því, að hv. fjvn. hlutist til um, að það hérað, sem lengur en flest önnur hefur verið látið bíða eftir samgöngubótum, fái leiðrétting mála sinna. Læt ég svo útrætt um þessa brtt. mína.

Þá vil ég greina frá því, að ég, ásamt 5. landsk., flyt brtt. um, að upp verði tekinn í fjárlög 1 þús. kr. styrkur til að hafa lærða hjúkrunarkonu í Bolungavík. Þessari brtt. hefur að vísu ekki enn verið útbýtt, en ég vil biðja hv. forseta velvirðingar á því, að ég skuli samt sem áður gera hana að umtalsefni, vegna þess að hér er eingöngu um leiðréttingu til samræmis að r æða, þar sem fjárveiting þessi var tekin upp á síðasta Alþ. Vænti ég því, að þessar þúsund krónur verði teknar upp í fjárlfrv. núna, og tel ég sjálfsagt, að ég þurfi ekki að endurtaka þau tilmæli.

Þá vil ég benda hv. fjvn. á, að úr 18. gr. fjárl. hefur fallið eitt nafn, sem ég veit af viðtali við hv. n., að er alger misgáningur. Þetta er nafn fiskimatsmanns, sem kom á fjárl. þessa árs með 300 kr. eftirlaun. Ég veit, að hér er aðeins um misgáning að ræða og hv. n. tekur þetta til athugunar og leiðréttir það. (JJós: Má ég geta þess, að það hefur verið tekinn upp nýr háttur, þannig að matsmenn eru ekki greindir með nafni.) Ég hef haft samráð við þann mann í fjvn., sem mest hefur um þetta fjallað, og hann hefur tjáð mér, að þessi styrkþegi heyri ekki undir þann lið.

Ég vil svo að lokum rétt aðeins drepa á brtt., sem ég flyt að vísu ekki, en nokkrir aðrir hv. þm. Það er brtt. á þskj. 626, um læknisvitjanastyrki. Hv. n. hefur fellt þá alla niður. Ég skil satt að segja ekki, hvað liggur til grundvallar þeirri ákvörðun hv. n. (PO: Þetta er til athugunar í n.) Ég veit, að það er til athugunar í n., en ég vil aðeins taka fram, að ég álít, að ekki eigi að fella þá niður, ekki sízt hvað áhrærir það hérað, sem ég heyri til. Í því eru 4 læknishéruð og 2 læknislaus, og lítur ekki út fyrir, að nein leiðrétting fáist í því efni.

Ég tel, að ég hafi gert grein fyrir þeim brtt., sem ég kem með. Þær eru fáar og lítil útgjöld í sambandi við þær. Ég ætla ekki að áfellast hv. fjvn. í því skyni. Hún hefur auðvitað í mörg horn að líta og vandratað milli skers og, báru í öllu því umróti, sem fyrir henni liggur. Ég virðist hafa sýnt fram á varðandi þær aðalbrtt., sem ég flyt, að ekki sé aðeins nauðsyn, heldur knýjandi nauðsyn, að úr þeim verði greitt og þær, fjárveitingar, sem þær fara fram á, samþ. Ég vil treysta, því, að hv. fjvn. taki þær till. til athugunar. Ég er fús að taka þær, sem ráðlegt þætti aftur til 3. umr. og hafa um þær það samráð; sem nauðsynlegt kynni að þykja.