06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í D-deild Alþingistíðinda. (6170)

196. mál, brúargerð á nokkur stórvötn

Eiríkur Einarsson:

Ég á enga brtt. við frumtill., en vildi láta í ljós, að ég harma, að slík skrípaaðferð skuli höfð við svo mikið málefni sem áætlun um gerð stórbrúa er. Samkv. brúarl. er ákveðinn mikill fjöldi brúa, sem bíða eftir fjárveitingum og framkvæmdum. Ég vil ekki segja, að eigi þurfi að breyta brúarl. eftir nýrri þekkingu og þörfum. En í till. á þskj. 540 er talað um 5 ára áætlun um byggingu stórbrúa eins og brúarl. væru ekki til eða sú aðferð að gera lög um þetta efni væri úrelt. Með því að hafa þetta aðeins þáltill. og flytja hana í Sþ. er fyrir girt, að brúin geti komið til athugunar í samgmn., heldur verður að vísa henni til fjvn. eða allshn.

Mér þykir það mjög að fara aftan að siðunum að taka upp þessa hætti. Það væri allt annað mál, ef verið væri með góðum og gildum l. að knýja fram nauðsynlegar framkvæmdir eins og t. d. brúargerðir á eitt eða tvö fljót, sem ekki mættu bíða, og sjá, hvort Alþ. gæti ekki fallizt á það. Hitt, að rita upp heilar syrpur til áréttingar brúarl., er mér alveg óskiljanlegt. Þær brýr, sem brúarl. ákveða, að gerðar verði á stórár, en ekki eru nefndar í þáltill., eiga þá kannske ekki rétt á sér, kannske það eigi að sjá til þess, að fólk komist þurrum fótum yfir stór fljót, eins og Ísraelslýðurinn í fyrndinni? Ég vil skjóta því til þeirrar hv. n., sem fer með þessa till., að hún athugi þetta málefni rækilega, og ég vona, að n. komist að þeirri niðurstöðu, þótt málefnið í sjálfu sér sé hið merkilegasta, þá sé formið svo afkáralegt, að það geti ekki staðizt að neinu leyti, og þó að ég verði til þess að fordæma þetta form, eins og ég hef lítillega drepið á, þá leiðir það til þess, að ef taka á þetta í alvöru og afgreiða þetta mál, koma auðvitað margar brýr við síðari umr. til viðbótar til þess að minna á, að enn eru margar ár óbrúaðar. Ég vildi aðeins segja þessi almennu orð um brtt., sem ég játa, að eru komnar fram í góðu skyni og sem afleiðing þáltill.

Þegar farið verður að ræða málið nánar af hv. n., þá vildi ég óska þess, að hv. n. líti á það frá líku sjónarmiði og ég hef hér drepið á og afgreiði heildartill. einnig í samræmi við það, að ekki er verið að rjúfa ákvæði brúarl. með nýrri niðurröðun á brúarframkvæmdum, enda má ætla, að það sé öllum ljóst, að fyrst verður að byggja þær brýr, sem nauðsynlegastar eru, en láta ekki handahóf ráða. Hér sýnist vera losað um reipin í stað hins, að þetta mikla mál sé tekið föstum tökum og haldið örugglega til framkvæmda.